Kiddi Vaff

Jæja, þá liggur það ljóst fyrir. Kristján Valdemar - bara spurning hvort drengurinn verður kallaður Kiddi eða Valdi.

Um allt drottningarríkið voru í gærkvöldi stilltar vekjaraklukkur til að tryggja að enginn missti af svo miklu sem einni sekúndu af sjónvarpsútsendingum sem fram fóru á a.m.k. þremur sjónvarpsstöðvum og hófust um níu leytið.

Í boði var stílhrein útsending á DR (með textum í beinu útsendingunni sem spillti örlítið sjarmanum), á TV2 sýndist mér meira lagt upp úr pælingum um klæðaburð gesta og formlega titla þeirra. Sjálfur gat ég ekki minni maður verið, vaknaði snemma og kaus þriðju útsendinguna, Zulu Royal, sem mína höfuðheimild.

Þar sátu 5 grínarar og bullustrokkuðu sem mest þeir máttu, uppstrílaðir og vatnsgreiddir, milli þess sem þeir skelltu á sig hallærislegum hárkollum og tóku viðtöl hver við annan.

Þeim var fátt heilagt, slatti af neðanmittishúmor og þeir prinsarnir prins afi og prins föðurbróðir (þ.e. litla prinsins) fengu vænar sneiðar.

Þeir kepptust við að lýsa sinni sýn á það sem fyrir augu bar, voru meðal annars þeirrar skoðunar að John maríufaðir myndi hafa skartað rafknúnu hálsbindi sem reyndi í gríð og erg að löðrunga eiginkonu hans, milli þess sem þeir sýndu næmt auga fyrir smáatriðum með því að ræða þau í þaula með aðstoð sjónvarpstækninnar.

Það virtist vera hálfgerð keppni í gangi hjá þeim um að slá hvern annan út af laginu með yfirfærslum á borð við: "Talandi um kynóð kamelljón, þá ert þú, Jón, sérfræðingur okkar í tilfinningalífi dýra í Suður-Ameríku..." (Eða einhverju í þessum stíl).

Af gestum grínistanna voru einna bestir stílistinn sem hafði árangurslaust reynt að hafa áhrif á skírnarkjólaval prinsins og kynnti meðal annars til sögunnar tillögu sína að skírnarpilsi í tískulit sumarsins (túrkís), að ógleymdum trimmaranum Tarsansdottir (karlkyns) sem átti leið framhjá, trimmandi með sígarettu í munnvikinu.

Þrír af þessum grínurum léku í setukomu (e. sit-com) þáttunum "Langt fra Las Vegas" sem nú eru í linnulítilli endursýningu (hafa þó ekki enn náð að toppa Frasier endursýningarnar sem hafa gengið ég veit ekki hversu marga hringi síðan ég kom fyrst hingað til .dk). En allavegana, í Las Vegas þáttunum kemur ofursmiðurinn Torfinnsdottir (karlkyns) nokkuð við sögu, þannig að þeim félögum virðist þykja -dottir vera flott eftirnafn.

En þetta var fögur og hugljúf stund og ég fann hvernig hjörtu okkar Dana (af ótal þjóðernum) slógu rétt sem snöggvast í takt.

Spastísk för

Eftir að hafa brotið smá þvott og þurrkað tár af hvarmi reimaði ég upp dúnúlpunni, setti upp húfu og trefil og hélt út í spastíska för um Amagerbrogade (það sem innfæddir myndu kalla spasse-tur).

Aðalhvati að baki þeirri för (fyrir utan hressandi útiveru) voru ritfangakaup til undirbúnings nýjum skipulagsháttum. Ég keypti meðal annars marghólfa innskotsmöppu, tvær minnisbækur og almanak. Hins vegar lét ég ógert að kaupa skjalaskáp og merkimiðavél sem vinur minn David Allen er annars mjög harður á að maður eigi að koma sér upp (ég er heldur ekki búinn að fá ritarann minn til að tryggja að ég verði ekki truflaður meðan á næstu skipulagsskrefum stendur).

Ég rölti síðan niður eftir Amagerbrúargötu (sem nóta bene heitir eftir Amagerbrúnni sem heitir það ekki lengur, heldur kallast hún nú Knippelsbro eftir tollaranum Knippel sem réð þar forðum ríkjum) með annað augað opið fyrir ódýrum dyramottum enda svaðalegt hvað berst mikið af slabbi, sandi og svaði ýmiss konar inn með manni þessa dagana. Slík motta fannst þó ekki í viðeigandi verðflokki - enda mér til efs að þörf verði fyrir mottu í nema viku til viðbótar af fyrirsjáanlegri dvöl minni hér.

Hins vegar kom ég við í Blockbuster og lét uppfæra meðlimskortið mitt með nýju heimilisfangi. Ég hef sem sé ekki enn leigt mér kvikmynd eftir flutningana, en hvort það stafar af því að ég verji minni tíma fyrir framan sjónvarpið en áður eða hvort það að lengra skuli í Blockbusterinn nú en áður og ég hafi bara ekki nennt að uppfæra kortið mitt fyrr en nú skal ósagt látið.

Ég lét þó ógert að taka mynd, en dreif í þessu fyrst ég átti leið hjá meðan það var lítið að gera í búllunni.

Enn af ófærðum

Þegar ég skráði færslu gærdagsins og var heldur lítillækkandi í garð viðbragða bauna við smá snjókomu stóð ég í þeirri trú að samgönguraunir væru að baki, enda hafði ekkert snjóað að ráði frá því ég vaknaði.

Í metrónum á leið inn í miðbæinn var tilkynnt að DSB hefði "indstillet alle S-tog, undtagen mellem Valby og Hellerup". Indstillet er eitt af þeim orðum sem ég er ekki viss hvort þýða svart eða hvítt, en fannst fjandakornið ekki geta staðist að verið væri að hætta akstri í þessu þokkalega veðri þannig að þetta hlyti að þýða að nú væri allt komið í lag nema á einni leið.

Sá skilningur minn reyndist rangur. Indstille þýðir hér að aflýsa. Þetta olli skiljanlega kaós langt fram eftir kvöldi, enda eru S-lestirnar hryggur allra samgangna hér í Kbh (kannski að hjólreiðum frátöldum, en það var ekki sérlega gott hjólafæri í gær).

Um þetta allt saman var ég alls óvitandi, en verð þó að segja að þegar ég kom upp úr metróstöðinni á Kóngsins Nýjatorgi þótti mér lítið til hetjuskapar fótgangenda tilheyrandi hinni fornu herraþjóð koma; þarna stauluðust baunar álútir og kuldalegir líkt og þeir væru að berjast gegn norðanstórhríð sem þó var engin til staðar. Það var smávægileg gjóla og varla merkjanleg úrkoma.

Ég rembdist því allur upp, rétti að mestu úr kryppunni og horfði þóttafullur niður á aðra gangendur á Strikinu.

Ekki var ég þó í miklu bruðlstuði, en eftir að hafa rölt í gegnum plakatabúðina á Strikinu (og sannfærst enn betur um það að þar þurfi ég að millilenda áður en ég flyt heim) (hvenær sem það nú verður) ákvað ég að kaupa mér þar myndadagatal til að flíkka aðeins upp á hvítu veggina mína. Valið stóð lengi vel á milli gamallra franskra auglýsingaplakata eða grafíktilþrifa í japönskum stíl.

Asían varð ofan á og því er nú léttur austurlandablær yfir koti mínu, að minnsta kosti þar til ég verð leiður á þeim og skipti austrinu út fyrir eitthvað annað.

Eftir að hafa skellt smá grafík á veggina æxluðust mál þannig að ég nennti ekki á Fredagsbarinn, enda grunar mig að hann hafi kannski verið fámennur. Þess í stað er stefnan tekin á næsta föstudagsbar sem verður með áströlsku þema, rætt mun hafa verið við prinsessu Mary um að koma og halda sýnikennslu í krókódílaglímu en niðurstaða þeirra viðræna liggja mér vitanlega ekki fyrir. Þá ætti ég líka að vera búinn með prófin - sem er full ástæða til barkíkinga alveg óháð því hver sér um krókódílaglímuna.

Kannski ég kíki upp á meginlandið í kvöld í staðinn. Það kemur í ljós þegar líður á daginn.

En nú ætla ég að taka fyrstu skrefin til nýrra skipulagshátta.

Pjé ess

Svo því sé formlega til haga haldið þá er á að giska 10 cm snjór yfir öllu, töluvert slabb á gangstéttum og -stígum, en spáð frosti í nótt og á morgun þannig að það göngufæri ætti að skána örlítið (a.m.k. hvað varðar hættu á að blotna í fæturna). Ég held að jafnvel ekki Reykvíkingum myndi þykja þetta vera vetrarveður í frásögur færandi.


< Fyrri færsla:
Atvinnulíf lamast og síðasta prófinu mínu frestað
Næsta færsla: >
Á sunnubjörtum degi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry