Hnífakastarinn og tattúflóðið ógurlega

Í umferðargreiningum thorarinn.com skutu um daginn upp kollinum leitarorðin "Þórarinn Stefánsson hnífakastari".

Mér finnst skemmtilegt til þess að huxa að einhver hafi slegið alla þessa romsu inn á Google, en það er auðvitað um að gera að tryggja að fá ekki upp einhvern rangan Þórarin Stefánsson ef maður er á annað borð að leita að hnífakastaranum.

Í símaskránni hef ég verið "Þórarinn Stefánsson efnafr" frá því að ég lauk BS-inum og hætti að þykjast vera "nemi". Hins vegar hef ég ákveðnar efasemdir um það hversu margir af þeim sem ég hef kynnst á síðustu ... t.d. 5 árum hafa hugmynd um að ég sé með bakgrunn í efnafræði. Ætli titillinn "vefnörd" myndi ekki frekar hringja bjöllum hjá þeim flestum?

En þótt að það séu ekki endilega margir sem kveikja á mér sem hnífakastara - þá væri þetta flottur titill í símaskrá.

Tattúflóðið

Venjulega eru heimsóknir á thorarinn.com að mælast ca. 100-120 á dag að jafnaði. Það sem af er janúar eru þær hins vegar 309 að meðaltali.

Ég leyfi mér að efast um að hér sé um að þakka/kenna skyndilega auknum vinsældum bullsins í mér. Það ýtir undir þá skoðun að af leitarorðum mánaðarins eru samtals um 1600 "hit" frá leitarvélum eftir leit að einhverri samsetningu "tribal" og "tattoo".

3457 heimsóknir í mánuðinum hafa stokkið beint á aprílgabbið 2005 og 3234 af þeim heimsóknum hefur lokið á sömu síðu (menn hafa sem sé strax gefist upp). Það er hins vegar fróðlegt að spá í hvað þeir gestir sem eiga þær 223 heimsóknir sem munar hafi fundið fróðlegt á vefnum mínum.

Mér fannst þetta dularfullt, en skoðun hefur leitt í ljós að leit að "tribal tattoo" í myndaleit Google finnur meðal annars mynd sem ég vísa á í gabbinu en virðist líta á síðuna mína sem tilvísun fyrir myndinni.

En eins og sagt er: Komi þeir sem koma vilja og fari þeir sem fara vilja.

Uppfært: Nú er ég búinn að fjarlægja linkinn á tattúmyndina í texta aprílgabbsins. Vinur minn Google ætti því fljótlega að fella niður vísunina í mig og ég að hætta að ergja saklausa tattúáhugamenn.


< Fyrri færsla:
Ég skilekki skilekki
Næsta færsla: >
Stefnuskrá um almenningssamgöngur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry