Svosum fátt að frétta...

Eftir prófið í gærmorgun og skýrslugjöf þar um fleygði ég mér örstutta stund undir sæng og þótt ég hafi ekki steinsofnað var slökunin næg til þess að þegar Emilie hringdi um hálf-tólf til að fastsetja hvenær við ættum að hittast, tók það mig þrjár tilraunir að koma út úr mér tímasetningunni sem ég ætlaði að stinga upp á; hálf-eitt (byrjaði á að segja hálf-ellefu og síðan hálf-tólf).

Við spændum svo í okkur rétt dagsins, bárum saman bækur okkar og settumst lox niður við sitthvora tölvuna til að spá í útlitshönnun fyrir nígeríska fjárfestingarfélagið sem við erum að vinna fyrir. Við höfum talað um að þetta yrði að einhverju leyti sýnikennsla fyrir hana þar sem hún hefur enga reynslu af því búa til vefi, þannig að við reynum að vinna þetta samhliða.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég prófa að vinna útlitshönnun með einhverjum (þ.e. ekki bara að bera saman útlitsrissur og -tillögur, heldur vinna samhliða hvert skref), það er óneitanlega svolítið öðruvísi en ég er vanur. En í ljósi seníorítets míns er framvindan vissulega að mestu á mínum forsendum.

Til að auka aðeins á nýjabrumið var einhverra hluta ekki uppsett fótósjoppa í tölvuverinu sem við settumst inn í, þannig að við vorum að fikta í Fireworks sem hvorugt okkar hefur notað áður.

Afraksturinn varð tillaga að lógó-týpu (sem er vonandi ekki of móðins fyrir virðulegt nígerískt fjárfestingarfyrirtæki) og mjög grófunnin rissa að einföldu vefútliti. Nú er bara að sjá hvað kúnninn segir við þessum vangaveltum okkar.

Svo stendur til að ég búi til slettuskjá (e. splash-screen) fyrir hitt nígeríuverkefnið - bíð eftir að Em sendi mér lúkkið sem búið er að hanna fyrir það fyrirtæki þannig að ég geti púslað saman einfaldri "Under construction/Coming soon" síðu.

Af lokaverkefninu er það annars að frétta að við eigum fund með kennaranum á þriðjudaginn, erum búin að fá sendar skýrslur og greinar upp á vel yfir 100 síður sem undirbúningslesefni og ábendingar um leitarorð til að gúgla.

Fyrir áhugasama verður fyrsta alvöruskrefið okkar að búa til eitthvað í líkingu við þetta demó, nema þannig að notendur munu stjórna þysjunum (e. zoom) með augunum...

Fredagsbar

TótiL var á fundi á efstu hæðinni í skólanum í gær og í framhaldi af því hittumst við og tókum einn öllara á Fredagsbarnum.

Í gær var fyrsti kynningardagur nýnema, þannig að það var töluvert af nýjum andlitum (og sumum örlítið áttavilltum). Reyndar þóttu mér fá þeirra skila sér niður á barinn, en það verður örugglega meira fjölmenni á föstudagsbarnum eftir viku þegar önnin er formlega hafin (og þar sem það verður Funky Fredag).

Eftir að TótiL fór settist ég með Emilie og nokkrum skólabræðrum okkar. Þeir eru allir að fara að vinna í stóru tölvuleikjasmíðaverkefni á komandi önn (í sitthvoru hollinu) og tveir þeirra munu vinna að leik þar sem ætlunin er að nota EyeToy til að leyfa leikmönnum að svífa þangað sem þá lystir (í vofuformi). Þeir höfðu einmitt haft uppi einhverjar pælingar um augnstýringu og voru því mjög áhugasamir að heyra um verkefnið okkar Emilie.

Um áttaleytið ákvað ég að yfirgefa svæðið og fá mér eitthvað að borða. Það voru uppi hugmyndir um að þremenningaklíkan myndi kannski kíkja seinna um kvöldið, en þar sem það var frekar fámennt á barnum ákvað ég að fá mér mat og snæða hann heima - sjá svo til í hvernig stuði ég væri ef þremenningarnir ákvæðu að skella sér á barinn.

Þar sem hverfisgrillið er enn lokað vegna breytinga rölti ég yfir á þarnæsta grill (fjögurra mínútna gangur héðan frá kollegíinu í stað tæplega tveggja mínútna). Þeir stóðu sig ágætlega í að malla handa mér kjúklingaburritos sem ég smjattaði á í mestu makindum.

Kvöldið fór svo aðallega í að láta renna af mér í rólegheitum yfir sjónvarpinu, enda tilkynntu þremenningar um messufall.

Pókerfráhvörf

Talandi um þremenningaklíkuna rifjast upp fyrir mér að ég hef ekkert gert í því að efna til hittings eins og stefnt var að fyrir mánaðarmótin komandi, jafnvel með fyrstu formlegu víxlu pókersettsins fræga.

Héðan frá .dk berast enda ljótar sögur af hremmingum pókerfíkla. Sjálfur viðurkenni ég að pókerdufl mitt hefur hingað til kostað mig 149 krónur danskar, þar af 129 krónur fyrir settið og 20 krónur sem ég tapaði á pókerkvöldi hæðarinnar.

Það er spurning hvort það er verjandi að halda á fram dufli við þessa hættulegu íþrótt.

Hins vegar er engin spurning að það þarf að fara að stefna saman íslenskum ITU-urum áður en lætin byrja aftur af fullum krafti.

Nördið nálgast

Viðbótin við vefinn sem ég hef verið að dunda mér við er núna tilbúin og er í prófun á vefþjóninum. Ég þori ekki að skella henn beint á forsíðuna þar sem það eru ákveðnar tölfræðilegar líkur á að allt hrynji á miðnætti að íslenskum tíma...

En standist forritunin þessa prófun svipti ég hulunni fljótlega.

Annars eru viðfangsefni helgarinnar ekki alveg fastnegld. Ég þarf að finna eitthvert jafnvægi milli þess að lesa fyrir mastersverkefnið, halda áfram með GTD ferlið, skella upp slettusíðunni nígerísku og halda uppi mannlegu samneyti.

Ég er léttkvefaður og nota það sem afsökun fyrir því að fara ekki út að hlaupa. Hins vegar eru fáar afsakanir eftir þegar kemur að því að skrá sig í ITU mótíonsrúmið, geri það í næstu viku (600 kall danskur fyrir hálft ár).

Í frásögur færandi, en gleymdist

Eitt atvik síðastliðins fimmtudags gleymdi ég að færa til bókar.

Þegar ég stóð í metrónum á leið minni upp á meginlandið í hressingargöngu um miðbæinn heyrði ég að einhver nálægt var að tala íslensku í farsíma. Ég skimaði aðeins í kringum mig, en tók ekki eftir neinum sem ég þekkti og hélt mig því áfram í míns eigins hugarheimi.

Þaðan var ég truflaður þegar lestin renndi inn á Christianshavnstöðina og við mig var sagt "ég ætla nota tækifærið og kynna mig" (eða eitthvað mjög í þá veruna).

Það kom sem sé í ljós að röddin sem ég hafði heyrt vera að spjalla í símann tilheyrði fyrrum (og raunar núverandi) sveitunga mínum; Sesselju sem áður hefur gert vart við sig í athugasemdakerfinu og mun hafa borið kennsl á sauðasvipinn minn á einhverjum af þvælingum mínum um Amagur.

Það gafst enginn tími til að spjalla, þar sem hún var á leið út úr lestinni. En það er alltaf fróðlegt að sjá að nöfnin í athugasemdakerfinu séu til í alvörunni.


< Fyrri færsla:
Lox orðin frjáls kona
Næsta færsla: >
Judy vinkona mín Dench
 


Athugasemdir (3)

1.

Óskar Örn reit 29. janúar 2006:

Fæ enn hroll þegar þú minnist á þessa nígerísku fjárfestingarspekúlanta! Láttu nú ekki blanda þér í e-ð saknæmt, væni!

2.

Þórarinn sjálfur reit 29. janúar 2006:

Þetta eru vænstu strákar, kurteisir og liprir. Einn þeirra er meira að segja náfrændi fyrrum forseta Nígeríu og hefur séð um einhver fjármálaumsvif fyrir ekkjuna hans.

Þannig að þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af...

3.

Jón Heiðar reit 29. janúar 2006:

" ... náfrændi fyrrum forseta Nígeríu ... " - fékk ég ekki mail frá þessum náunga einhverntímann ? Hann átti 533 milljón dollara sem hann ætlaði að færa inn á reikninginn minn en ekkert hefur nú skilað sér af því. Getur þú tékkað á þessu Þórarinn?

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry