Judy vinkona mín Dench

Af verkefnum helgarinnar tókst mér bara að standa við tvennt; lesa fyrir mastersverkefnið (í dag) og halda uppi mannlegu samneyti (í gærkvöldi).

Ég rölti sem sé yfir á Eyrnasundskollegíið í gær, ekki til að taka þátt í annarupphafsfestinni sem þar var haldin með tugum þúsunda Færeyinga og annarra gesta (enda vissi ég ekki af henni), heldur til að heilsa upp á Huld og Sigga.

Heimsóknin hófst á framhaldsverkefninu að sjarmera Bergþóru Sigurðardóttur. Það er krefjandi verkefni en gefandi og ég held að við höfum verið komin í það góðan gír þegar hún fór að sofa að hún hafi alvarlega verið að velta því fyrir sér að segja við mig "góða nótt" - en sá svo að sér.

Ég hef aldrei verið laginn við dömur sem láta ganga á eftir sér, en sjáum hvort mér tekst ekki að heilla þá stuttu með þrjóskunni.

Það er þvílíkur lúxus þegar maður hefur boðið sjálfum sér eitthvert í heimsókn með stuttum fyrirvara að geta skotist inn í matvöruverslun klukkan 9 á laugardagskvöldi og gripið með sér eina hvítvínsflösku. En það er náttúrulega ekki hægt að treysta íslenskum pöpli til að umgangast aðrar eins freistingar, ég skil það vel.

Trivial

Eftir að Bergþóra hafði ekki óskað mér góðrar nætur og aðeins var farið að sjá á hvítvínsflöskunni var blásið til Trivial Pursuit keppni. Við Siggi vorum saman í liði á móti Huld og Ingu vinkonu hennar/þeirra.

Við Sigurður höfðum mjög ákveðna strategíu sem gekk út á að halda tempói. Það kostaði okkur nokkrum sinnum rétt svar þegar við gáfum okkur ekki tíma til að fínpússa svör (sérstaklega voru nokkur mannanöfn sem fóru í léttum handarskolum), en á heildina litið borgaði þessi tækni sig því við vorum á undan stelpunum að vinna.

Lítt umdeildur grís kvöldins var þegar spurt var hver hefði leikið Viktoríu drottningu í kvikmyndinni "Mrs. Brown". Ég hafði ekki hugmynd um hvaða mynd það var, en eina drottningarlega breska leikkonan sem mér flaug í hug var Judy Dench og það reyndist hárrétt. (Ég viðurkenni að ég var búinn að gleyma aftur nafninu á myndinni, en IMDB kom til bjargar.)

Þá þótti þeim fraukum mastersnemarnir í upplýsingatækni (og þar af annar með BS próf og kennsluréttindi í náttúruvísindum) sleppa heldur billega með spurningu á grænum höfuðreit: "Hvers konar forrit er Microsoft Excel?"

En þetta var jöfn og spennandi keppni, stelpurnar áttu bara eftir að ná einni köku þegar við komumst á miðreitinn og tókst að svara tilskildum 4 spurningum af sex.

Eftir spilið var áfram haldið með misgáfulegar samræður og við stungum formlega upp á því að Godot Árnason sem við höfðum nokkuð áreiðanlegar heimildir fyrir því að hefði fæðst fyrr um daginn (og reynst stelpa) yrði skírð Róberta Fjóla í höfuðið á ónefndum fótboltasparkara. Þar með voru afrek kvöldins eiginlega toppuð og ég rölti heim á leið um þrjúleytið.

Allt að því dugnaður

Eftir hádegið í dag rölti ég yfir í skóla og prentaði út tæplega tveggja þverhanda þykkan bunka af greinum tengdum lokaverkefninu okkar.

Ég hef því setið mestallan daginn með pappírsbunka í annari og tebolla í hinni, með súkkulaði og yfirstrikunarpenna innan seilingar. Kvefið sem hefur verið að hreiðra um sig undanfarna daga heldur áfram hægum landvinningum og í dag hef ég verið með linnulitla nasatauma. Hér flóir því allt í útsnýttum snýtubréfum - mjög sexí.

Ég neyddist svo til að taka tveggja tíma hlé á lestrinum til að fylgjast með mínum mönnum kljást við úlfa í fjörugum og skemmtilegum leik (held samt að ég hlífi lesendum við úttekt á frammistöðu einstakra leikmanna).

Þar með voru örlög kvöldins ráðin og eftir sunnudagssteikina settist ég aftur við lestra og lauk því sem að var stefnt.

Svo er það bara harkan sex, fyrsti formlegi verkefnadagurinn hefst í fyrramálið klukkan níu. Segi og skrifa.


< Fyrri færsla:
Svosum fátt að frétta...
Næsta færsla: >
Nørd
 


Athugasemdir (3)

1.

Ármann reit 30. janúar 2006:

Ég gef mér að rétt svar ykkar við excel-spurningunni hafi verið „skítaforrit eins og allt sem frá microsoft kemur“.

2.

Siggi hennar Huldar reit 30. janúar 2006:

Takk fyrir hjálpina við að viðhalda yfirburðum karlaveldisins.
Þá er næsta verkefni óhjákvæmilega að prófa 5kg prófessjónal spilasettið á þínum heimavelli (geri ráð fyrir því að þetta sé ekki ferðasett).

Og jú Ármann þetta er nú það fyrsta sem mér datt í hug, en pólitísk rétthugsun hafði betur.

3.

Þórarinn sjálfur reit 30. janúar 2006:

Tja, settið kemur í handhægri ferðatösku svo það er fræðilega séð hæft til flutninga - einhvernvegin gat ég dröslað því heim úr Fields hérna um árið...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry