Hammbolti og sjálfsdekur

Ég hafði gælt við þá hugmynd að kíkja upp á meginlandið í kvöld, en um leið og ég áttaði mig á því að verið væri að sýna leik Íslands og Noregs beint, var ljóst að það væri ekki heppilegasti tímapunkturinn til þess.

Um leikinn ætla ég ekki að hafa mörg orð en ég verð að segja að gallabuxur norska þjálfarans höfðu mjög trámatísk áhrif á mig, ég get rétt ímyndað mér hvernig það hefur verið að upplifa þær í návígi.

Skondið að fylgjast með hvað dönsku þulirnir voru hlutdrægir - og ekki héldu þeir með Íslendingum.

Eftir að leiknum lauk hef ég að mestu legið á Amazon(.co.uk) og barist við löngunina til að kaupa óþarfa hluti milli þess sem ég sendi svarta strauma til danska handboltalandsliðsins.

Hvorugt tókst, Danir eru að flengja Rússa og þótt ég hafi skorið einn geisladisk frá féll ég samt fyrir freistingunni að kaupa rúmlega 12 klukkutíma af eðal breskum húmor á DVD (og getiði nú).

Skemmtilegt hvað maður getur talið sér margt til sparnaðar af freistingum sem maður hefur ekki (enn) fallið fyrir og tínt til af peningum sem maður er alveg að fara að fá fyrir verkefni sem er alveg að koma í ljóst hvort eitthvað verði úr...

En dönsku lýsendunum leiðist ekki að lýsa þessum leik. Ég held ég hafi ekki heyrt annað eins þjóðarstolt, smjaður og hól síðan... Ísland síðast vann Rússland með 7 marka mun. (Sem mér vitanlega hefur reyndar aldrei gerst.)

Enn um teikningarnar

Teikningamálið mikla hefur víst ekki farið fram hjá neinum heima.

Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta þótt ég reyni að grípa sem flesta af þeim spjallþáttum sem um þetta hafa snúist undanfarið (og þeir eru ófáir).

Það fróðlega er þó að ekkert af þessum "uppþotum" í austurlöndum er spontant, í öllum tilvikum eru einhver öfl að baki sem nota sér þetta í pólitískum tilgangi.

Tregðu danskra stjórnvalda til að fordæma eða biðjast afsökunar á blöðunum þar sem stjórnvöld hafi ekkert vald yfir fjölmiðlum, á fólk í löndum þar sem ekkert gerist án blessunar yfirvalda einnig erfitt með að skilja. Hvernig hægt sé að stjórna landi, en geta ekki ráðið yfir dagblaði er hugsun sem menn munu eiga erfitt með að melta.

Hvað varðar umræðu um málefni múslima í Danmörku varðar hafa menn rætt um að þetta mál hafi þó haft þau jákvæðu áhrif að sjónarmiðum fleiri en "the usual suspects" hafi verið komið á framfæri í dönskum fjölmiðlum, og þar með verið brotin flís úr staðalmyndinni af danska múslimanum - undir þeim hatti sé fólk með margs konar skoðanir og túlkanir á atburðum.

En nú er bara að vona að þessi glóð kulni án þess að úr verði sprenging. Þar mun víst ráða miklu hvaða opinberu línu immanarnir í Saudi Arabíu fá fyrir föstudagsbænirnar á morgun.


< Fyrri færsla:
Af vanaganginum
Næsta færsla: >
Fredagsbar með meiru
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón Heiðar reit 02. febrúar 2006:

immarnir verða ábyggilega, sem fyrir, ímynd manngæsku og umburðarlyndis.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry