Fredagsbar með meiru

Sit ég hér á seinniparti "morgunsins eftir kvöldið sem áður fór" og hálflatur til annarra verka en tölvufikts.

Nótt í óperunni

Á fimmtudagskvöldið datt ég inn í heimildarmynd á DR um plötuna "A Night at the Opera" með Queen. Það vill svo til að þetta er ein af þeim plötum sem ég hef hlustað á hvað oftast svo það var virkilega gaman að sjá spekingana ræða um það hvernig allt var framkvæmt og hvaða hugmyndir lágu að baki.

Ég féll fyrir Queen einhverntíman á táningsárunum, en að frátalinni plötunni "Live Magic" keypti ég ekkert með þeim fyrr en geisladiskabylgjan var brostin á (og byrjaði líklega á Greatest Hits). Raunar snerist kasettuuptaka af "The Miracle" ótal hringi á fyrsta árinu mínu í MA og er órjúfanlega tengt við það tímabil í minningunni.

Óskar Örn vinur minn mælti sérstaklega með óperunóttinni og þótt ég muni ekki hvenær ég keypti hana, þá er ég búinn að eiga hana lengi.

Það sem var einna fróðlegast var að heyra upptökustjórann sitja við mixborðið og spila stakar rásir, t.d. bara bakraddirnar eða einhverja ákveðna gítarrödd. Lygilegt hvað þeir hafa lagt miklar pælingar í þetta.

Platan er tekin upp fyrir daga allrar tölvutækni ('75) en þeir hafa sýnt hugmyndaauðgi í tæknimálum. Til dæmis er "Lazing on a Sunday Afternoon" sungið með rödd sem virkar málmkennd og með hálfgerðu dósahljóði. Það var tekið upp með því að spila söng Mercury í gegnum heddfóna sem lágu í málmdós og taka það svo upp.

Innblásturinn að undirspilinu í "Good Company" er æskuminningar Brian May af pabba sínum að spila á ukulele (og ég held jafnvel að gripur pabbans hafi verið notaður við upptökuna) og brasshljómsveitarsólóið í lok lagsins er allt leikið af May á gítar, stilltum til að líkja eftir hverju hljóðfæri og tekið upp á hátt í viku.

Þátturinn staðfesti líka það sem ég hafði heyrt áður að öll röddun á plötunni (og kórlegar bakraddir) var gerð af þeim þremur; Mercury, May og Taylor (trommarinn). Fyrir þá sem ekki kveikja á perunni innifelur þetta meðal annars hið klassíska Bohemian Rhapsody, sem er alfarið sungið af þeim þremur.

Eðalplata og ekki leiðinlegra að hlusta á hana eftir að hafa séð þáttinn.

Sambúð frestast

Við Emilie hittumst svo í gærmorgun (fös) og dunduðum okkur við að rissa upp lógótýpur fyrir hið títtnefnda nígeríska fjárfestingarfyrirtæki.

Eftir hádegið ætluðum við að nálgast lyklana að vinnuherberginu okkar, en þá kom í ljós að lyklarnir sem kerfið fullyrðir að eigi að ganga að herberginu eru víðsfjarri því að komast inn í skrána, hvað þá annað.

Innflutningur okkar frestast því um sinn, en við erum a.m.k. búin að sjá slotið og líst vel á.

Þetta stúss allt tók frekar langan tíma, og við nenntum eiginlega ekki að setjast aftur niður til vinnu. Þess í stað skutumst við í bæinn og ég liðsinnti henni við að kaupa afmælisgjöf handa kærastanum.

Fyrir valinu varð stýri og pedalar fyrir X-Box, auk nýjasta Burnout leiksins. Ég liðsinnti reyndar lítið sem ekkert við valið sjálft, þetta var það sem hún var að leita að og fannst í Fona á Strikinu (okkar fyrsta stoppi). Ábendingin um Burnout kom þó frá mér.

Ég veit að hún getur varla beðið eftir að gefa honum gjöfina (hann á afmæli á morgun) - aðallega vegna þess að hana langar svo að prófa!

Funky Fredagsbar

Eftir gjafaleiðangurinn og kakóbolla rölti ég heim með laptoppinn með millilendingu í matvöruverslun og étti samloku hérna heima til að minnka líkurnar á brotlendingu um kvöldið.

Ég mætti svo á barinn um fimmleytið og þá var þegar kominn drjúgur slatti af fólki.

Mér finnst alltaf jafn merkilegt að vera orðinn þrælmildur fyrir klukkan sjö - fredagsbarir rúla.

Emilie skoraði ótal stig hjá mér þegar hún bauð mér að setjast hjá sér, kærastanum og vinum hans til að snæða pizzur sem hún hafði sótt yfir á Íslands bryggju. Ég held ég verði að fullyrða að þetta eru bestu pizzur sem ég hef smakkað hér í .dk, þarf að komast að því hvaðan þær voru.

Hún vildi meina að þetta væri endurgjald á greiða (sem ég var reyndar búinn að gleyma) þegar ég bókstaflega mataði hana á pizzu, örmagna af þreytu (og bjór) á fredagsbar í fyrravetur (líklega í lok fjögurra vikna tarnarinnar).

Tónlistin er aðalsmerki Funky Fredagsbar og hún stóð undir væntingum, mikið af gamaldags soul/diskó/faunki í hæfilegum hlutföllum.

Ég þori ekki að reyna að rifja upp hvenær ég dansaði síðast að einhverju ráði, en kann þeim borðdömum mínum bestu þakkir fyrir að hafa dröslað mér út á gólfið um það leyti sem ég var alvarlega farinn að íhuga að koma mér heim.

Þar bar meðal annars fyrir augu frístæl tækni mína sem kennd hefur verið við "fínhreyfingahamlaða, taktlausa mörgæs í krampaflogi" auk þess sem færi gafst á að viðra arsenalið af snúningum og dýfum.

Ég dansaði meira að segja við danskan sjómannavals (sem ég man reyndar ekki til þess að hafi verið vals, a.m.k. er ég viss um að mín spor voru ekki í valstakti) þar sem textinn fólst í því að endurtaka í sífellu "þegar sjómaður kemur í land, er aldrei að vita hvað getur gerst" - meira að segja ég, sem á erfitt með að grípa danska lagatexta gat farið að raula með eftir annað erindi (sem var að mig minnir nákvæmlega eins og það fyrsta).

Ég er enn hálfþreyttur í brosvöðvunum. Sem er gott.

Misgábbulegar samræður

Ég hef plötusnúðana grunaða um að hafa smám saman hækkað í tónlistinni, því eftir miðnættið var orðið frekar erfitt að halda uppi samræðum fyrir hávaða.

Til dæmis er mér til efs að mér hafi tekist að sannfæra sessunaut minn um að Ísland hefði engan áhuga á auknu sjálfstæði frá Danmörku, við hefðum klippt á naflastrenginn '44 og værum því ekki í sömu stöðu og Grænland.

Þegar hún skipti yfir í miklar og djúpar pælingar um ástand heimsmála gat ég ekkert annað gert en að þykjast mjög áhugasamur og reyna að kinnka kolli við og við - enda greindi ég ekki nema þriðja hvert orð fyrir hávaðanum.

Þegar kom að kærastaraunum hélt ég nokkurn vegin þræði, en hafði fátt til málanna að leggja. Án þess að brjóta siðareglur trúnaðarskeiðanna get ég þó ljóstrað því upp hér að þessa útgáfu af kærastaraunum hafði ég ekki heyrt áður.

Um tvöleytið var ég búinn að vera á barnum í níu klukkutíma og farið að sækja á mig... aðallega reyndar hungur. Ég ákvað að tími væri til kominn að kveðja samkunduna og rölta heim.

Lauslega áætlað telst mér svo til að ég hafi keypt drykki fyrir 150 krónur danskar (ca. 1500 íslenskar). Ef ég hefði haldið mig við kranabjórana hefðu það verið fimm lítrar af bjór, en þar sem ég var meira í specialeölunum (með einstaka kókglasi inn á milli) var heildarmagnið eitthvað minna.

Laugardagur

Eftir nokkur minniháttar rumsk um morguninn vaknaði ég endanlega um hádegið og var bara furðu hress. Eftir morgunmat og sturtu var ég orðinn næstum því alhress.

Þrátt fyrir sómasamlegt heilsufarsástand hefur ekki margt gert markvert í dag. Að frátöldum þvotti og þurrkun á tveimur vélum (gat ekki huxað mér að sofa í reykingarstybbunni af koddaverinu) og hressingargöngu um hverfið hefur deginum einkum verið varið fyrir framan tölvuskjáina.

Er nokkuð annað hægt en að gleðjast yfir jafn einlægum játningum og þessari sem mér barst í pósti í dag?

hi, i have seen your profile on line you are...very very hot
lets gettogether andhave some fun
addme to msn,messenger ,my is sexyhothotgirl
lethave fun

Get varla beðið eftir að heyra meira frá hinni heit-heitfengu þokkagyðju. Ég verð þó að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvaða prófíll það er sem hún féll fyrir, geri þó frekar ráð fyrir að það hafi verið vinstri vanginn - enda skilst mér að hann sé mín sterkari hlið.

Kvöldverðurinn er núna að malla og ég stefni að rólegu kvöldi heimavið. Reyndar er partí í samkomusalnum í kjallaranum í kvöld og ég er að huxa um að kíkja þangað - þó ekki sé nema til að sjá hvernig salurinn lítur út.

Vonast til að vakna örlítið fyrr á morgun og reyna að nýta dagsbirtuna betur, jafnvel úti við ef veðrið reynist jafn gott og í dag.


< Fyrri færsla:
Hammbolti og sjálfsdekur
Næsta færsla: >
Alltaf fullur bara?
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 05. febrúar 2006:

Man nú ekkert eftir að hafa bent þér á Night at the Opera en get þó vel trúað því og er stoltur af. Snilldargripur.
Er þessa dagana mikið að hlusta á plötu sem heitir "Coles´ corner" með manni að nafni Richard Hawley frá Sheffield. Mæli með henni, undarleg blanda af Sinatra og Willie Nelson, skemmtilega einlæglega retró allt saman. Hvernig fer annars Sufjan Stevens í þig? Á "Seven swans" með honum og er hrifinn af henni. Hef heyrt mikið lof um Illinoise. Let´s hear your opinion, shall we?

2.

Þórarinn sjálfur reit 05. febrúar 2006:

Ég myndi glaður tjá mig um Illinoise ef ég hefði heyrt hann, en þar sem ég náði ekki að taka af honum "öryggisafrit" meðan ég var á klakanum verður það að bíða. Elli bróðir er samt sáttur.

Hins vegar á ég lag með Hawley af safndiski sem fylgdi með Q, kveikti á því af lýsingu þinni hvort það gæti verið að það væri hann sem ég hefði heyrt þar. Svo reyndist og vera. Fínt lag og skemmtilega öðruvísi.

Ég lét svo verða af því að kaupa mér "Z" með My Morning Jacket á Amazon, mun láta skoðun mína í ljós þegar þar að kemur.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry