Nenni þessu ekki lengur

Sú staðreynd að ég gat andað í gegnum nefið á mér í morgun eykur mér bjartsýni á að þetta kvefhelv. sé að fara að síga á seinni hlutann. Enda er ég að verða brjálaður úr leiðindum.

Heilabrjótari

Þessi maraþonpistill mun hefjast á smá heilabrotum:

Ímyndaðu þér þotu sem stendur á flugbraut sem er í raun risastórt færiband. Færibandið er forritað til að vinna á móti hreyfingum þotunnar með því að snúast í öfuga átt við flugtaksstefnu vélarinnar. Það eru engin takmörk fyrir því hvað færibandið getur snúist hratt.

Getur þotan tekist á loft?

Svarið fæst hér aðeins neðar.

Sjálfsflekun

Hún hefur líklega ekki farið framhjá neinum sagan af Íslendingnum sem "ónaneraði" framan við lífverði hennar drottningar. Ég hef grun um að Mogginn hafi stolið skúbbinu frá félaga TótiL, enda á ég einhvern vegin bágt með að trúa að Mogginn sé með vöktun á dagbók lögreglunnar í Kb. Þó veit maður aldrei.

Mér sýnist á Vísi að DV hafi svo toppað aðra fjölmiðla með því að ná viðtali við sjálfsflekarann og skella á forsíðuna. Þar með er óþarft að taka fram að þetta var ekki ég (enda var ég lasinn).

Lykilspurningin í málinu (sem e.t.v. er svarað í DV) hlýtur að vera sú hvort viðskiptafræðingurinn fékk næði til að ljúka sér af. Af dagbók lögreglunnar er að skilja að hann hafi verið handtekinn skömmu síðar, en hvað þýðir það?

Af handboltaþjálfurum

Nú mun það orðið ljóst að Elli litlibróðir verður ekki næsti þjálfari íslenska handknattleiksliðsins.

Þess í stað hefur Elli veðrast allur upp í framtakssemieinkaþjálfun á mér og hélt nú síðast að mér (10+2) *5 aðferðinni.

Sú aðferð byggir á ákveðinni sjálfsblekkingu til höfuðs verkfresturum (er það ekki annars nokkuð rétt þýðing á procrastination?). Í stað þess að ákveða að vinna í t.d. hálftíma og taka svo hlé er unnið í 10 mínútna skorpum með tveggja mínútna hléum.

Ég get nú ekki fullyrt að ég sé búinn að gefa þessari aðferð fullan séns, en af fyrstu tilraunum að dæma eru 2 mínútur alltof stutt pása til að maður geti "gert neitt af viti". En það er líklega bara spurning um að finna síns eigins hlutföll.

Svar við heilabroti

Já, þotan mun alltaf geta tekist á loft.

Svarið verður nánar útskýrt síðar.

Hellisbúalúkkið

Undanfarna daga hef ég ekki séð ríka þörf fyrir að vaxbera á mér haddinn og fyrir vikið er enn meira áberandi en áður að það er löngu kominn tími á að ég fari í klippingu.

Það bætir ekki ástandið að ég komst að því í gær að ég er orðinn uppiskroppa með rakvélarblöð.

Eins og allir typpalingar sem raka sig fyrir eigin vélarafli vita er það ávísun á slagsíðu í heimilisbókhaldi mánaðarins (ef ég héldi slíkt) enda eru rakvélarblöð einhver sú geðveikálagðasta framleiðsluvara sem um getur.

Það er aftur áhugavert í ljósi þess að það er fyrir mörgum áratugum búið að finna upp keramik rakvélarblöð sem eru margfalt beittari en stálblöðin og endast næstum að eilífu. Það hefur bara enginn af stóru strákunum í bransanum séð ástæðu til að markaðssetja slíkt, enda væri það svipað gáfulegt frá markaðslegu sjónarmiði og ef dópsalar afvötnuðu eigin viðskiptavini.

Þegar ég huxa betur út í það eru víst engar líkur á að rakvélarblöð sem markaðssett eru fyrir hið fagrara kyn séu seld með minni álagningu en fyrir okkur skeggapana. Ég útvíkka því hér með fyrri málsgrein í "Eins og allir vita..."

(Jú, ég kann víst að fallbeygja lýsingarorðið fagur.)

Félagsleg einangrun

Undanfarna daga hef ég ekki talað við neinn nema sjálfan mig (og yfirleitt brotist út heiftúðug rifrildi). Þetta er auðvitað hluti af leiðindum veikinda og fátt við því að gera nema að reyna að skipuleggja félagsleg tilþrif þegar kvefi léttir.

Þannig er ég byrjaður að leggja drög að tveimur pókerkvöldum, á reyndar eftir að fá meiri viðbrögð við útsendum þreifurum áður en neitt verður fastsett í þeim efnum. Maður verður samt að fara að vígja settið við "alvöru" aðstæður.

Það er orðið útsýnt um að ég fari á þorrablót Íslendingafélagsins á laugardaginn (þrátt fyrir að reynt hafi verið að draga mig á þær tálar). Ég var ekki búinn að festa mér miða á matinn, enda verð ég að viðurkenna að hvorki samkoman né þorramaturinn freista mín sérstaklega.

Ég er af þeirri kynslóð sem þori að viðurkenna að mér finnst þorramatur hreinlega vondur (og borða bara af barnamatseðlinum). (Ég vona a.m.k. að ég sé ekki sá eini af kynslóðinni sem finnst það).

(Hins vegar áskil ég mér allan rétt til að ræða fjálglega við útlendinga um dálæti okkar Íslínganna á skemmdum sauðainnyflum og getnaðarfærum þegar svo ber undir.)

Lengi vel þóttu mér reyndar svið prýðismatur, en eftir skelfilega upplifun af gersamlega óætum sviðaviðbjóði á "sviðaveislu" borgarverkfræðings hef ég ekki getað horfst í augu við þau sömu augum og áður.

Sá fjarlægi möguleiki að ég kíkti bara á ballið eftir blótið held ég að sé endanlega úr sögunni núna.

Þess í stað var Steini að bjóða í freistandi partý annað kvöld haldið í búfællesskap spænsks vinnufélaga hans í miðbænum með yfirlýstri iðkun danslistar á dagskránni, það verður þó að ráðast á morgun hversu skrokkurinn er til í tuskið. (Mér er til efs að þetta sé sýking af því taginu sem maður getur drukkið úr sér.)

Enn af heilabrjótaranum

Spurningin um þotuna er upphaflega fengin úr þessari færslu Kottke.org og hinum gríðarlanga þræði sem þar hefur spunnist. (Ég mæli ekki með því við nokkurn lifandi mann að leggja í að lesa það helvíti allt - meira að segja gamli eðlisfræðikennarinn gaft fljótlega upp).

Orðalag upphaflegu spurningarinnar á ensku er reyndar gallað/misvísandi (og um það sýnist mér stærstur hluti svarþráðarins snúast), þannig að ég ákvað að umorða hana á íslensku. Hér er mín útgáfa af hinu "rétta" svari:

Flugtak þotunnar byggir alfarið á hraða hennar gagnvart loftinu sem berst um vængina, hún knýr sig áfram með því að "spyrna" sér í loftið með hreyflunum og því gildir allt annað um þotu, en t.d. bíl sem reynir að keyra á færibandi.

Hjól þotunnar eru "bara" til þess að halda hennni uppi (og eru næstum viðnámslaus), þannig að það er sama hversu hratt færibandið snýst - áhrifin þess á þotuna gegnum hjólin eru hverfandi miðað við áhrifin af hreyflunum.

Það markverðasta sem myndi gerast væri líklega að færibandið myndi bræða úr sér í vonlausri baráttu.

Þá er það opinbert, ég er kominn aftur í bullgírinn!


< Fyrri færsla:
Færslufall
Næsta færsla: >
Bókmenntagetraun
 


Athugasemdir (1)

1.

Margrét reit 09. febrúar 2006:

Já þér að segja las ég bara fyrirsagnirnar, í þessari örfærslu en til hamingju með að vera komin á lappir... ;)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry