A day at the office

Í dag var fyrsti "alvöru" dagurinn okkar Emilie á nýju skrifstofunni. Við mættum spræk og hress, stundvíslega klukkan níu - eða hefðum gert ef hávaxnari helmingi hópsins hefði ekki tekist að mæta hálftíma of seint, bar fyrir sig þoku en þar sem gangan í skólann tekur ekki nema fimm mínútur hossaði sú afsökun skammt.

Við verðum 6 sem deilum aðstöðunni, en það er ljóst að það verður sjaldan sem við verðum þar öll samtímis. Við erum eini hópurinn sem gerir ráð fyrir að vinna alla daga, hinir verða ca. 2 daga í viku, enda í öðrum störfum eða eiga eftir að klára einhverja kúrsa.

Í dag sátum við sitt við hvora tölvu, ásamt Pernille sem er ein okkar sexmenninganna. Ég brasaði við að forrita tilraunaumhverfið okkar verðandi, leysti nokkurn vegin jafnóðum þau vandræði sem mér tókst að koma mér í og er bara nokkuð sáttur við afrakstur dagsins. Emilie dundaði sér við að glósa þá texta sem við erum komin með og búin að lesa, vann fyrsta uppkast að framkvæmdaáætlun og byrjaði að safna ljósmyndum af fólki sem við erum að spá í að nota í tilraununum.

Stolt af dugnaðinum hættum við svo klukkan 4, enda engin ástæða til að sprengja sig svona í upphafi :)

Heilsufarið er allt á réttri leið, með góðum hósta get ég reyndar skafið upp slím alla leið neðan frá þind og upp úr - en svo lengi sem hóstaskorpurnar lúta í aðalatriðum minni stjórn get ég vel lifað með því.

Ég veit ekki alveg hvað olli, en þegar ég kom heim og var búinn að fá mér smá tesopa og taka vefrúntinn (aftur, ég viðurkenni að hafa stolist aðeins í "vinnunni") ákvað ég að kíkja aðeins á smá Blackadder.

Við það greip mig löngun til að skríða upp í fletið og horfa á eins og einn þátt þar, en augnlokin sigu svo ógurlega að ekki varð við neitt ráðið - þannig að þegar þátturinn var búinn tók ég mér klukkutíma í að stúdera augnlokin að innan. Þótt ég hafi ekki sofnað náði ég góðri slökun - og vona bara að mér takist að koma mér tímanlega í bólið í kvöld.

Það tekur greinilega á að færa sig aftur yfir á "normal" vinnutíma.

Félagstilþrif takmörkuð

Mér hefur gengið illa að bjóða mér í heimsóknir undanfarna daga, eftir blót Íslendingafélagsins (sem enginn hefur mér vitanlega fengist til að játa á sig að hafa mætt á) hafa vinir og kunningjar beitt ýmsum afsökunum og undanbrögðum. Ég læt það ekki á mig fá og er núna búinn að boða til pókerkvölds íslínga í skólanum næsta föstudag og stefni á að endurtaka leikinn með öðrum gestum helgina þar á eftir.

Helgin hvarf annars á einhvern merkilegan hátt. Það var heldur kalt til að ég færi í langar gönguferðir eða hjólreiðatúra - en hvað ég gerði í staðinn man ég eiginlega ekki alveg.

Mig rámar óljóst í að hafa þvegið og þurrkað pestarlegin rúmföt og græjað sitthvað smálegt. Það er þó ekki útilokað að mig hafi bara dreymt það.

Fingrastjórnun

Ég má til með að vekja athygli á svakalega flottu tilraunaverkefni sem ég rakst á gegnum Wired. Þetta er snertiskjár sem er gerður til að notendur beiti fleiri en einum fingri og lygilegt hvað menn eru búnir að hanna flotta notkunarmöguleika fyrir hann.

Það er engin þörf á að hafa áhuga á tæknimálum til að hrífast með sýnismyndbandinu (uppi til hægri á síðunni). Mæli eindreigið með að kíkja á þetta.

Eins og segir í Wired umfjölluninni: "the interface is reminiscent of Steven Spielberg's fictional, gesture-based UI in Minority Report -- but much cooler"

Svona finnst mér flott.

Smá nostalgía

Ég þvældist inn á myndasafnið hans Más um helgina (sem er að dunda sér við að lesa inn dæmisögur Esóps og er með húslestrana aðgengilega á vefnum).

Í myndasafninu er meðal annars þessi samsetta mynd sem sýnir vel ástandið á skemmtilegasta vinnustað sem ég hef enn unnið á, skömmu áður en við fluttum í Austurstrætið. Það sést kannski af myndinni að það var orðið heldur þröngt um okkur síðustu mánuðina á Ægisgötunni (og verður að viðurkennast að hluti af sjarmanum var farinn að mást af í þrengslunum og samrunaskipbrotum stórum sem smáum).

Auk þeirra vinnuplássa sem sjást á myndinni sitja líklega fjórir forritarar bak við luktar dyr fyrir enda salarins og aftan við ljósmyndarann sátum við þrjú í lítilli skrifstofu. Lengst til hægri á myndinni sést "fiskabúrið" þar sem við í ráðgjafadeildinni sátum á ótal misskemmtilegum fundum.

Á myndinni sést glytta í (frá vinstri): Svenna og Baldur grafíkera, Sigurjón vefara (með heddfóna), hugsanlega Steina og Snorra Hergil (þeir sátu a.m.k. á þessum slóðum þótt ég þori ekki að fullyrða að þetta séu þeir), Egil multiforritara og kerfisstjóra (standandi), Hadda ráðgjafa (í forgrunni) og Berg vefara (upp við fiskabúrið). Ég veit ekki hver það er sem stendur uppi við kaffivélina

Það er alveg stolið úr mér hvers vegna við vorum kölluð "teppadeildin", en þessi myndasyrpa sýnir hvernig stemmningin gat orðið á köflum þegar skoðanir voru skiptar milli ráðgjafanna í teppadeildinni.

Miðað við krotið á töflunni er Mekkanó dáið þegar myndin er tekin og Kveikir að verða til.


< Fyrri færsla:
Enn af fánabrennum
Næsta færsla: >
Fjølmiðla- og menningarumfjøllun
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry