Fjølmiðla- og menningarumfjøllun

Til að forðast allan misskilning skal strax tekið fram að eftirfarandi raus á alls ekkert skylt með gagnrýni, sem samkvæmt orðsifjaklisjunni felur í sér að rýna til gagns. Þessu þusi er af minni hálfu ekki ætlað að verða nokkurri einustu mannveru til gagns, en þar sem stærstur hluti þeirra skrifa sem gefa sig út fyrir að vera gagnrýni eru í raun bara tuð þykir mér rétt að slá þennan varnagla.

Alltaf að læra af sjónvarpinu

Sjónvarpið er án efa uppfræðari samtímans. Í gærkvöldi komst ég til dæmis að því á DR1 að það mun vísindalega sannað að konur heillast af mönnum sem tala með höndunum.

Það eru nokkur ár síðan ég komst að því að staðaldraumaprinsinn væri hávaxinn, dökkhærður, herðabreiður og með þrýstnar varir. Hef ég síðan verið að safna fyrir kollageninnspýtingum.

Þetta með hendurnar er hins vegar nýtt. Ég veit ekki betur en ég sé frekar fingraanimeraður í dagsdaglegu tali, en sé þetta satt (sem ég efast ekki um) hlýtur viðloðandi einveri mitt að vera til marks um að hendurnar á mér lamist í návist aðlaðandi kvenna (þó án þess að ég hafi orðið var við það).

Af tvennu illu veit ég ekki hvort er óheppilegra í návist kvenna; óvirkar eða ofvirkar hendur...

Af vetrarólympíuleikum

Danska kvennalandsliðið í körling mun vera helsta von okkar flatverjanna um medalíu á vetrarleikunum (eða var það a.m.k. áður en blásið var til leiks - mér skilst að uppskeran í afstöðnum leikjum hafi enn sem komið er verið rýr).

En eitt hef ég þó lært af því að fylgjast í nokkrar mínútur í senn með útsendingum frá körlingi danskra kerlinga; körling er ... forvitnileg íþrótt.

Þegar við bætist lýsing spekinga sem taka sjálfan sig og sportið allt of alvarlega milli þess sem þeir spá í strategíur og stökkva hæðir sínar í lopt upp þegar fyrirliðinn (sem mér sýnist sú eina í liðinu sem er af barnsaldri) skutlar steininum sínum í þann stein sem þeir voru búnir að sjá út að hún myndi þurfa að skutla honum í. Semst, þegar þeir bætast við nær áhorfið allt að súrrealískum hæðum.

Brilljant sjónvarpsefni, en ég held samt að það myndi ekki njóta sín án þulanna (huxist til íþróttafréttamanna íslenskra þegar Norðmenn flengdu okkur á EM í síðustu viku) (eða hvenær það nú var) (ekki að ég hafi heyrt til þeirra, en ég get alveg ímyndað mér þá).

Ég lýsi mig hér með tilbúinn að taka að mér beinar lýsingar í boccia þegar ég sný aftur heim á klaka.

Hjartahólf

Á flakkinu um mínar 15 sjónvarpsstöðvar eru einstaka þættir sem reglulega fanga athyglina. Ég held mér sé óhætt að fullyrða að Lost eru einu þættirnir sem ég stíla sérstaklega inn á að sjá á ákveðnum tímum (miðvikudögum), en það eru aðrir þættir sem ég kíki alltaf/yfirleitt á ef ég rek mig á að þeir séu í gangi.

Einn þeirra er Hjerterum á DR1 (á þriðjudögum). Þátturinn byggir á afskaplega einfaldri hugmynd, en mér finnst hann þrælvirka í mörgum lögum og ef ég ætti að stinga upp á einum þætti sem íslenskar sjónvarpsstöðvar ættu að kópíera frá .dk held ég að þetta væri ekki slæmur kostur.

Þátturinn gengur í stuttu máli út á að í hverjum þætti er kynnt til sögunnar par sem er að fara að flytja saman. Spjallað er við þau um hvað þeim líki vel við eigin búslóð og hvað þeim finnst um stíl hins, auk þess sem hvort um sig má "friða" einn grip sem fær að vera í öndvegi.

Síðan fær sjónvarpsgengið einn dag undir stjórn hönnuðar til að græja eitt eða fleiri sameiginlegt herbergi (yfirleitt stofuna og e.t.v. svefnherbergi). Hönnuðinum og þáttarstjórnandanum til aðstoðar eru svo tveir vinir/fjölskyldumeðlimir parsins.

Framkvæmdum við innflutninginn eru svo gerð skil, milli þess sem spjallað er við parið um þeirra sögu og framtíðaráform.

Einföld formúla sem virkar (lykilatriði auðvitað að hönnuðurinn hafi nægilega smekkvís bein í nefinu til að finna sameiginlegan stíl - eða búa til alveg nýjan). Þannig verður þetta bæði hönnunarþáttur sem gefur skemmtilegar hugmyndir og spjallþáttur sem veitir innsýn í hugarheim fólks.

Þessu er hér með komið á framfæri.

Seinna á þriðjudögum eru svo Gilmore Girls á annarri stöð, ég veit ekki hvort ég á að viðurkenna að ég horfi líka á þann þátt ef ég rekst á þær mæðgur.

Líklega ekki.

Nýi diskurinn

Í athugasemd um daginn lofaði ég umsögn um Z með My Morning Jacket. Í stuttu máli fær hann mín meðmæli, fínn diskur.

Á örlítið ítarlegri nótum (en alls ekki gagnrýnum (sjá ofar)) þá hef ég ekki hlustað á aðrar plötur með morgunsloppnum, en á nokkur lög með þeim af safndiskum. Það er ekki auðvelt að skipa tónlistinni á bás; þetta er gæðarokk (en þó nær poppenda skalans en graðhestarokkendanum) - ekki kannski diskur sem er notaður til að rífa upp stemmningu í partýi, en myndi henta vel með fyrstu bjórunum.

Raddbeiting söngvarans minnir á köflum örlítið á Neil Young - en ég get ekki sagt að tónlistin minni á neina aðra hljómsveit.

Fyrir þá sem eru fyrir smá indí, alveg þess virði að prófa þennan.

Svartnöðruð nostalgía

Ég tek það fram að þegar ég slengdi fram bókmenntagetrauninni um daginn var ég ekki búinn að horfa á alla diskana með glósubókina við höndina. Þessar tilvitnanir er að finna á koverinu, en þær eru ekki verri fyrir það.

Núna er ég búinn að horfa á tvær fyrstu seríurnar. Sú fyrsta hefst á því að Blackadder hálsheggur Ríkharð þriðja (óvart) og önnur gerist við hirð Elísabetar drottningar.

Fyrsta serían er eiginlega ekkert meira en bara lala. Það er greinilegt að verið er að spila með Sjeikspír (og vitnað í hann sem þriðja höfund) og kannski myndi ég fatta fleiri brandara ef ég kynni Spírann utan að. Tæknivinnan er líka frekar döpur og tæknibrellurnar í fyrsta þættinum skelfilegar.

Önnur serían er hins vegar miklu betri. Þar spilar kannski inn í að ég man eftir að hafa séð suma þættina á RÚV í gamla daga (sér í lagi þáttinn með nýja aðstoðarmanninum sem kallaður var Kate (stytting á Bob) og Blackadder endar með að leiða upp að altarinu þar sem Lord Flash setur strik í reikninginn).

Í seríu 2 er þetta líka orðið miklu meira sit-com og einhvern vegin hnitmiðaðra fyrir vikið. Það skerpir líka persónugalleríið að í seríu 2 er Blackadder sá eini sem ekki er alger fáviti, þótt hann sé siðlaus með öllu hefur hann samt samúð (a.m.k. mína).

Ég bíð spenntur eftir að vinna mig að fjórðu seríunni (Blackadder goes forth) sem var uppáhald okkar bræðra. Það verður fróðlegt að sjá hvort það var kannski aðallega af því að um það leyti vorum við að verða nógu gamlir til að fíla svartnættishúmorinn, eða hvort sú sería stendur upp úr.


< Fyrri færsla:
A day at the office
Næsta færsla: >
Vikan sem var
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 17. febrúar 2006:

Þú hefur fengið ýmsar snjallar hugdettur í gegnum tíðina sem alveg hefðu mátt fara lengra, en ef pistillinn hér að ofan um þennan Hjartahólfaþátt verður til þess að einhver illinn hér bæti enn einu illgresinu í frumskóg íslenskra "raunveiruleika"þáttaafsprengisafstyrma sem hafa fært sjónvarpið niður í áður óþekktar ömurleikavíddir, ja, þá bara drep ég þig!

2.

Þórarinn sjálfur reit 17. febrúar 2006:

Ég þakka hlý orð í minn garð :)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry