Pókerkvöld
19. febrúar 2006 | 5 aths.
Á föstudagskvöldið var blásið til annars pókerkvölds íslínga í ITU. Ekki sáu allir sér fært að mæta, en við vorum þó einum fleiri en síðast og átti nýi maðurinn eftir að koma töluvert við sögu.
Við vorum fimm sem spiluðum; ég, Ágúst, Siggi, Jónína og Hjörtur sem var nýkominn úr tattúveringu og skartaði því rauðlituðu matarplasti.
Litlu munaði reyndar að við Siggi hefðum misst af mótinu, þegar við vorum á leið upp í lyftunni eftir að ég hafði hleypt honum inn, tók lyftan upp á því að fara upp um hálfa hæð og þegar dyrnar opnuðust sáum við fram á að þurfa að klifra upp á fyrstu hæðina.
Með því að fara aftur niður á jarðhæð tókst að koma henni á rétt ról og komast upp, en við veltum því vissulega fyrir okkur hvort við ættum að reyna aftur eða bara taka stigann.
Persónur og leikendur
Réttsælis um spilaborðið:
Hjörtur með rauða armbandið.
Siggi mundar svörtu flögurnar.
Gestgjafinn í sjaldséðri jógastellingu sem á að örva blóðflæði til rökhugsunarstöðva.
Ágúst þótti með eindæmum pró díler.
Jónína spáir í spilin.
Gangur mála
Eins og vera ber var töluvert um sviptingar í spilamennskunni.
Sjálfur byrjaði ég með eindæmum vel og var eftir nokkrar heppilegar hendur kominn með drúga peningalega slagsíðu og sýndi af mér fantaskap eins og sú staða leyfði. Ágúst líkti sér við kaupmanninn á horninu á móti Baugi og átti það eftir að reynast eitt af þemum kvöldsins; að fylgjast með hver væri í hlutverki Baugs hverju sinni.
Siggi náði hins vegar að krafsa verulega í Baugsveldið og rétti við það töluvert úr kútnum.
Hjörtur var fljótlega kominn á brún gjaldþrots en með nokkrum lykilhöndum á borð við þá sem sést hér fyrir neðan þar sem hann lagði allt undir og vann, náði hann aftur fótfestu.
Hjörtur reyndist luma á sexupari og vann þar með höndina. (Hvað eru annars margir ásar í stokknum?)
Sérstök athygli er vakin á dúknum sem ég fékk hjá Hönnu Birnu þegar ég flutti inn á Uplandsgötuna. Þá var hann gamalt sængurver sem ég notaði sem bráðabirgðagardínu, þar til ég keypti rúmteppi í IKEA sem leystu sængurverið af hólmi (annað þeirra rúmteppa er núna skilveggur í herberginu mínu).
Smadderhyggeligt
Annars var spilamennskan ekkert endilega alltaf í fyrirrúmi, við tókum drjúgar pásur og kjöftuðum um allt milli himins og jarðar.
Bjórar runnu ljúflega niður og Jónína hélt uppi kúltúrnum með léttvínsskenkingum.
Menn misstu ýmislegt út úr sér í hita leiksins og nokkrar af lykiltilvitnunum kvöldins voru:
"Ég er bara heftari í Baugsveldinu."
"Ég er bara rétt að byrja elskan."
"Konur hafa enga sál."
"Þú ert með fullt hús, pungurinn á þér."
"Eigum við ekki að breyta þessu í fimmhundruðkall út?"
"Á ég að rota þig?"
Eftirminnilegustu setningar kvöldins verða þó ekki hafðar eftir hér. Sú fyrri þeirra var þegar Sigga tókst að klúðra vel þekktu orðatiltæki svo eftirminnilega að það mundi það enginn klukkutíma síðar.
Svarið við spurningunni "hefurðu spilað í einhverjum hljómsveitum sem við þekkjum?" verður heldur ekki haft eftir.
What's said in poker club stays in poker club.
Og hinir ríkuru verða ríkari
Upphæðirnar hækkuðu smám saman og svörtu flögurnar (hundraðfalt verðmætari en þær hvítu) urðu allsráðandi.
Um hálf-tvöleytið vorum við þrír sem lögðum allt undir; ég, Siggi og Hjörtur. Hjörtur hafði þrjá tvista og vann pottinn.
Ágúst féll úr leik skömmu síðar og ljóst að þetta yrði einvígi tveggja turna; Jónínu og Hjartar.
Eftir dramatískar sviptingar, blöff og hækkanir stóð Hjörtur uppi sem sigurvegari.
Jónína tók ósigrinum karlmannlega.
Skröggur telur gróðann.
Þátttakendum er þakkað fyrir brilljant kvöld. Þetta var smadderhyggeligt.
Næst tekst mér kannski að verða ekki sá fyrsti sem dettur úr leik...
Athugasemdir (5)
1.
Hjörtur reit 20. febrúar 2006:
Þetta var alveg stórskemmtilegt kvöld! Mæli með þvi´að þetta verði endurtekið sem fyrst!
2.
Jónína reit 20. febrúar 2006:
Sammála því, þetta var frábært!
3.
siggi (sá sem mætti) reit 20. febrúar 2006:
Takk fyrir skemmtunina. Sennilega verdum vid ad endurtaka thetta, ég á harma ad hefna.
4.
Þórarinn sjálfur reit 20. febrúar 2006:
Nú vantar bara að Ágúst kvitti og þá verðum við komin með það sem heitir á fagmáli fullt hús.
5.
ágúst ævar gunnarsson reit 21. febrúar 2006:
Jæja þá, ég get svo sem kvittað undir þetta ...
Nei djók, þetta var goðsagnakennt kvöld og verður ritað um þennan fjélgasskap í framhaldssögu íslendinga í köben.
Til hamingju Ísland að eiga svona flotta ætí-dípartment ...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry