Vikan sem var

Það er fyrst af lokaverkefnisvinnu að segja að hún gengur ágætlega. Ég hef í vikunni haldið áfram að kljást við að setja upp hluta af tilraunaumhverfinu okkar og er ágætlega sáttur við hvar þau mál standa um þessar mundir.

Fyrir áhugasama er hægt að sjá hvar við stöndum núna, en það skal tekið fram að þetta er enn sem komið er bara "proof of concept", þ.e. það vantar raunverulegt innihald og við eigum eftir að vinna miklu meira í myndrænni framsetningu (fyrir utan það auðvitað að öll gögn vantar) og stilla þetta allt betur. En fyrir þá sem vilja fikta er dýrðin hér. Engar leiðbeiningar eru gefnar á þessu stigi, aðrar en að með því að færa músina við jaðra ljósgráa svæðisins ætti eitthvað að gerast (það hefur engin áhrif að smella á neitt).

Að vísu hefur mér tekist að mæta of seint alla morgna í vikunni og svo merkilegt sem það hljómar stafar það af því að ég hef vaknað of snemma! Ég hef einhverra hluta vegna vaknað ca. klukkutíma á undan vekjaraklukkunni alla morgna, þannig að þegar hún hringir finnst mér ég eiga það "inni" að snúsa aðeins og þegar ég svo lox hef mig fram undan sænginni tek ég morgunverkin bara á mínu rólega tempói og enda því með að mæta ca. kortéri of seint.

Venjulega tengi ég svona snemmvöknun við streitu, en nú ber svo við að ég hef ekki hugmynd um hvaða streita það ætti að vera. Treysti á að þetta breytist þegar ég losna endanlega við kvefið og fer að hreyfa mig aftur af einhverju viti.

Fimmtudagur til mæðu

Fimmtudagurinn var hins vegar örlítið mæðulegur, Emilie hafði lent í því að fá einhverja ormaóværu í fartölvuna sína; skrattakoll sem kallast coolwebsearch og virðist næstum ómögulegt að fjarlægja. Ég reyndi að hjálpa henni að sækja og keyra hin ýmsu hreinsiforrit, en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan sú að eina lækningin væri að formata vélina og setja allt klabbið upp aftur.

Til að toppa daginn lenti Emilie svo í því að velta yfir sig matarbakka í hádeginu og var miður sín yfir þessu öllu saman. Það var því ekki annað til ráða en að senda hana snemma heim að setja tærnar upp í loptið og slaka aðeins á.

Sjálfur skaust ég hins vegar í miðbæinn að kaupa mér flugmiða.

Sverige here I come

Það liggur sem sé loxins fyrir hvernig ég fer til Svíþjóðar til að styðja föðurættina í Vasagöngunni ógurlegu. Ég flýg héðan frá Kastrup til Arlanda í Stokkhólmi með SAS og Gunna frænda 2. mars. Við komum til með að lenda í Stokkhólmi nokkurn vegin um sama leyti og vélin frá Íslandi kemur með bróðurpartinn af keppendum. Þar verður svo öllum troðið í stóran bíl og brunað norður á bóginn.

Við fljúgum svo aftur til baka eftir hádegi mánudeginum 6.

Gunni benti mér á að kaupa miðann hjá Kilroy, hann hefði leitað á netinu en fengið mun betra verð þegar hann mætti á söluskrifstofuna. Ég fór því að dæmi hans, prentaði út ferðaplanið hans og bað um að fá sem bestan prís á sömu flug.

Mér sýnist að ég hafi sparað a.m.k. 400 kall danskan á því að mæta á staðinn í stað þess að kaupa miðana á netinu hjá Kilroy. Einhverra hluta vegna finnst mér að þarna sé eitthvað verið að klikka á hagfræðinni þegar það er ódýrara að mæta á staðinn og taka tíma starfsmanns heldur en að afgreiða sig sjálfur á netinu.

En það er kannski bara ég sem er ekki að fatta þetta netdæmi allt saman.

Tónleikapælingar

Daginn sem ég kem aftur, þann 6. mars verða glysrokkararnir í The Darkness með tónleika hér í Köben. Ég veit að vísu að þeir eru hálfgildings einnota brandari en hef þó eftir áreiðanlegum heimildum að þeir séu bráðskemmtilegir á tónleikum.

Það er spurning hvort það er einhver lesandi sem er til í að skella sér með mér?

Svo er alltaf að bætast í flytjendalista á Hróarskeldu. Ég er harðákveðinn í að skella mér í sumar, að vísu er ég ekkert byrjaður að skipuleggja það neitt nánar, en er vongóður um að geta fundið mér einhvern hóp til að hengja mig á.

Maður verður að nota tækifærið fyrst maður verður hérna úti í sumar.

Annars er öll mín vitneskja um tónleikahald í Köben fengin af tónleikalista Cosmo Group (þótt ég hafi reyndar heyrt Hróarskeldu getið áður) og á þeim lista eru nokkrir tónleikar sem er í athugun að skella sér á.

Fuglaflensufárið

Þá er fuglaflensan komin að landamærum Danmerkur og Mogginn heldur áfram að birta heimsendaspár. Það kom mér svo skemmtilega á óvart, eftir að ég hafði hneykslast á þessari frétt á mbl.is að komast að því að hluti umfjöllunarinnar í pappírsmogganum væri "opnuviðtal" við pabba sem sérfræðing í smitsjúkdómum. Það gladdi mig að sjá að hann tekur hlutunum af tilhlýðilegri stóískri ró.

Það vill nefnilega gleymast að það er í raun enn ekkert sem bendir til þess að þessi fuglaflensa verði að alheimsfaraldri meðal manna. Það er vissulega staðreynd að sagan segir að svæsnar útgáfur af inflúensu koma upp á nokkurra áratuga fresti og að sem stendur er þessi ákveðni fuglaflensustofn líklegasti kandidatinn til að þróast yfir í slíkan alheimsfaraldur, en það þýðir ekki að það sé neitt pottþétt.

A.m.k. sé ég ekki ástæðu að tapa svefni yfir þessu á næstunni (það er eitthvað annað sem virðist sjá um það þessa dagana).

Hins vegar eru örlítil líkindi til að ég fái óbreytta fuglaflensu beint í æð. Á leið minni í skólan geng ég nefnilega framhjá trjám þar sem einhver er mjög iðinn við að fóðra smáfuglana og á stéttinni liggja iðulega brauðstykki og mjölkúlur. Það verður því oft fjaðrafok þegar maður á leið framhjá og truflar smáfugla jafnt sem dúfur í áti sínu - fjaðrafok sem gæti reynst banvænt þegar fuglaflensan kemur.

En, í versta falli breyti ég bara um gönguleið.

Fimmtudagsbar revisited

Á fimmtudagskvöldið var smalað saman hópi af hæðinni og eftir spjallskorpu í eldhúsinu fórum við niður á fimmtudagsbarinn í fyrsta sinn á þessu ári.

Þar reyndist allt troðið af fólki og varla að maður þekkti þetta sem sama bar. Þar sem ég stóð álkulegur og reyndi að ná áttum var slegið í síðuspikið á mér og þegar ég vatt mér að sláttumanninum brosti hann út að eyrum, lyfti bjórnum og öskraði "Mugison". Ég gat fátt annað gert en að sýna honum fingurinn (þ.e. þumalinn) og láta eins og ég hefði tekið eftir einhverju stórmerkilegu framundan.

Þarna hitti ég í fyrsta skipti nýjan nágranna, Stefan, sem virkar svolítið skrýtinn. Mér skilst reyndar að hann sé að flytja að heiman í fyrsta sinn og það gæti skýrt hegðunina að einhverju leyti.

Á föstudagskvöldinu var svo pókerkvöld íslendingafélags ITU, sem nánar verður lýst í næsta pistli.


< Fyrri færsla:
Fjølmiðla- og menningarumfjøllun
Næsta færsla: >
Pókerkvöld
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry