Nýr vefur
22. febrúar 2006 | 0 aths.
Þá er ég búinn að uppfæra Vasavefinn sem ég bjó til fyrir gönguna 2004. Reyndar er spurning hvort á að kalla þetta uppfærslu eða bara að ég hafi skellt nýju yfir og ofan á það gamla.
Útlitshönnunin er frekar minimalísk (sérstaklega samanborið við Séð og Heyrt lúkkið á 2004 útgáfunni).
Ég ákvað að reyna að ná fram svolitlum töflutúss-áhrifum sem eiga að minna á handteiknað uppkast að strúktúr. Til að vega upp á móti minimalismanum hef ég grafíkina frekar stórgerða og held mig við einn lit (en sletti á móti drjúgt af honum).
Handteiknunin er fengin með því að [...dramatísk þögn...] handteikna með tússi á blað og þar sem ég er ekki með skanna tók ég ljósmyndir af dýrðinni og fótósjoppaði þar til ég var orðinn sáttur.
Öfugt við síðast geri ég ekki ráð fyrir að vera mikið með frásagnir af aðdraganda, æfingum og þess háttar. Eitthvað verður líklega af "fréttum", en það verður að ráðast af stuði og stemmningu.
Hins vegar eru þarna tenglar á alla keppendur ættarinnar og fylgifiska sem ætti að auðvelda áhugasömum að fylgjast með gengi sinna manna á keppnisdaginn og ég sé fyrir mér að það verði helsta hlutverk þessa "nýja" vefjar.
Á gamla vefnum er svo að finna leiðarlýsingu og smá texta um gönguna sjálfa - ég sé svo sem enga ástæðu til að flytja það yfir í nýja lúkkið líka.
Tæknilega séð er vefurinn byggður á tveimur "flotum" og breikkar og mjókkar með stærð vafragluggans (það er orðið langt síðan ég hef búið til vef með fljótandi breidd). Leturstærðina má að sjálfsögðu stækka og minnka eftir þörfum eins og í öllum þeim vefjum sem ég kem nálægt (a.m.k. upp á síðkastið). Ég gæti örugglega fengið lóðrétta strikið til að vera alltaf mitt á milli textadálkanna, en þar sem hegðun þess fer ekkert sérlega mikið í taugarnar á mér læt ég það eiga sig að sinni.
(Og já, ég veit að forsíðuvísanir á gamla vefnum eru hættar að virka rétt - ég laga það huxanlega kannski møgulega seinna ef ég nenni.)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry