Dagur skins og skúra
23. febrúar 2006 | 2 aths.
Það sem af er viku ber helst til tíðinda að á þriðjudaginn tókst mér að mæta á undan Emilie (héreftir E.) í fyrsta sinn (að frátöldum þeim skiptum þegar hún hefur látið vita af því að hún tefjist. Þóttu það jarteikn mikil.
The transmogrification of natural use of sight to virtual applications
Við þóttumst vera nokkuð rösk af stað í verkefninu, en mér þykir heldur hafa saxað á það ímyndaða forskot okkar undanfarið. Við erum þó komin með frambærilegt sýnishorn af tilraunavirkninni okkar til að bera undir kennarann og höfum í dag setið við að uppfæra fyrri hugmyndir að efnisgrind.
Þar höfum við farið mikinn í að slá um okkur með flottum hugtökum og toppuðum að eigin mati í millifyrirsögninni hér að ofan.
Við vorum að leita að orði sem þýddi eitthvað í dúr við "umbreytingu" og þá rifjaðist upp fyrir mér hið stórkostlega orð transmogrification. Það kom okkur svo skemmtilega á óvart að Word-orðabókin samþykkti þetta án hiks og að þetta virðist samkvæmt heimildum vera fullgilt orð og m.a.s. að finna í 1913 útgáfu Webster's ef mér missýnist ekki.
Fyrir þá sem ekki kveikja á orðinu má benda á fyrirbærið transmogrifier sem Calvin (vinur Hobbes) fann upp og notaði til ýmissa verka.
Við erum a.m.k. harðákveðin í að láta orðið transmogrification koma einhversstaðar fyrir í mastersverkefninu okkar.
Á morgun er svo á dagskránni að skrifa inngangskafla að verkefninu og senda kennaranum okkar pakka til að sýna hvar við stöndum og falast eftir fundi.
Áföll misstór
E. greyið hefur staðið í brasi við nýjan þjónustufulltrúa í bankanum hennar sem hefur verið með ótuktarskap mikinn. E. týndi dankortinu sínu í síðustu viku og sótti því um nýtt - þjónustufulltrúinn tók það hins vegar upp hjá sjálfri sér að láta hana ekki fá Visa-dankort heldur bara debetkort og til að bíta höfuðið af skömminni sendi henni vitlaust kort, sem bara er hægt að taka út á í bankaútibúum(!)
Þetta hefur orðið til þess að E. er búin að ákveða að skipta um bankaútibú og flýja vonda ráðgjafann.
Í dag komst hún svo að því að gripur sem hún hafði keypt á netinu hefur verið endursendur þar sem hún náði ekki að sækja pakkann til bögglaþjónustunnar í tæka tíð og hún taldi því víst að þar með væru peningar sem blankur námsmaður hefur ekki efni á að missa týndir og tröllum gefnir (þótt ég efist um að staðan sé svo slæm). Þetta var ekki til að kæta geð hennar og skrifstofunauti okkar þótti ástæða til að hughreysta hana með knúsi.
Slíkt angur virðist þó léttvægt því skömmu síðar fékk skrifstofunautur vor þær skelfilegu fréttir að 35 ára náfrændi hennar hefði í dag fengið blóðtappa í heila og væri vart hugað líf. Skiljanlega brotnaði hún saman og allur vinnuandi þvarr úr skrifstofunni. Ég gat skiljanlega ósköp lítið gert og pakkaði mér því saman og hélt heim, en lét E. eftir hughreystingarnar enda þekkir hún naut vorn miklu betur en ég.
Til að hrista þetta af mér fór ég út að skokka í fyrsta sinn í langan tíma. Tók bara stuttan hring um nýbyggingarsvæði nágrennisins í hressilegu hagléli og skilaði mér þokkalega sprækum heim.
Síðastliðna helgi hafði mér ekki litist á blikuna þegar ég fór fótgangandi af stað á sunnudeginum til að hitta félaga Aðalstein yfir samloku í miðbænum. Ég fékk þungt fyrir brjóstið og öndunin varð óþægileg, og ég þóttist viss um að þetta hefði eitthvað með nýliðin veikindi að gera. Þótt ég yrði ekki beinlínis andstuttur var þetta heldur hvimleið tilfinning.
Símtal við föður minn lækningamanninn leiddi til þeirrar tilgátu að þetta væri líklegast eymsli eða harðsperrur í bringuvöðvunum eftir hósta undanfarinna vikna. Ég hef hvorki sannað það né afsannað, en hef a.m.k. ekki fundið fyrir þessu síðan. Hitt get ég vottað að ég er heldur aumur í hóstarvöðvunum (sem mín anatómíuþekking segir mér að hljóti að vera nátengdir hóstarkirtlinum) og er minntur á það nokkrum sinnum á dag.
Hlaupatúrinn gekk þó án allra bringumeina (annarra en einstaka haglkorna sem tókst að laumast niður um hálsmálið).
Skerðing
Í gær gerðist sá fáséði atburður að ég skerti bæði hár mitt og skegg. Hið síðarnefnda hefur upp á síðkastið þótt til markverðra viðburða enda oft liðið drjúgt á milli rakstra (þótt það sé víðsfjarri mér að endurnýja kynni mín af talibanaskegginu sem ég skartaði á síðustu ævidögum Kveikja).
Hárskerðingin var aðeins sú fjórða í röðinni síðan ég flutti hingað út fyrir einu og hálfu ári (tel ég þá ekki með skerðingar í fríum heima á klaka). Hún var helst merkileg fyrir þær sakir að þetta var í fyrsta sinn sem ég var klipptur af Dana (miðað við þá skilgreiningu að viðkomandi tali betri dönsku en ég, ekki bara öðruvísi slæma). Að sjálfsögðu barst talið að uppkaupum Íslendinga á Danmörku og ég sló um mig með skákskýringum sem hefðu sómt sér vel í Silfri Egils (verst að þær hefði þurft að texta).
Ég var nokkuð sáttur aðfarirnar og niðurstöðuna og geri ráð fyrir að kíkja þarna við næst þegar próteinlengjurnar á hausnum á mér eru við það að sliga mig.
Skarta ég því í dag þessari líka fínu sítt-að-aftan klippingu.
Er húmor arfgengur?
Ég hef ekki svarið við ofangreindri spurningu, en er þó viss um að uppeldi hefur töluvert að segja, þótt varla sé það eini áhrifavaldurinn á kímnigáfu.
Hins vegar hef ég löngum verið þeirrar skoðunar að ákveðin tegund húmors ráði ríkjum í föðurættinni minni og nú gefst þeim sem þykjast kannast við minn húmor færi á að bera hann saman við hljóðprufur frá tveimur fulltrúum föðurættarinnar, sínum af hvorri kynslóðinni.
Þær frændur mínir Halldór föðurbróðir og Skúli þremenningur voru nefnilega í viðtali í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í morgun um Vasagönguna yfirvofandi. Þekkjandi þá kauða finnst mér ég sjá glytta í þennan föðurættarhúmor í tilsvörum þeirra.
En hvað finnst lesendum öðrum?
Hér er hljóðdæmi af vef RÚV. Þeir frændur eru fyrstir á dagskrá eftir kynningar.
Systir í borginni
Svo var Margrét systir að tylla niður fæti í Köben í dag (aðallega í verslanamiðstöðinni Fisketorvet að því er mér skilst). Við ætlum að reyna að hittast á morgun og eflaust eitthvað meira um helgina.
Ég hlakka til að hitta þá stuttu.
Athugasemdir (2)
1.
Óskar Örn reit 24. febrúar 2006:
Mín anatómíuþekking segir mér að hóstarkirtillinn í þér sé ekki lengur til staðar enda hverfur hann að mestu eftir kynþroska. Geri sem sagt ráð fyrir því að þú sért búinn að taka út þann ágæta þroska en ef ekki þá gæti það nú kannski gefið e-ar vísbendingar varðandi ástæður skorts á kvenhylli sem þú minntist sjálfur á hér fyrir e-um dögum......
Ertu annars e-ð að spá í 1/2 maraþon hér í ágúst? Ef svo er þá verð ég líklega að skrattast til að gera það líka, helvítis..!!
2.
Þórarinn sjálfur reit 24. febrúar 2006:
Ég þykist að mestu búinn að taka út hinn líkamlega kynþroska þótt eflaust megi löngum deila um það hvað felist í andlegum kynþroska og hvenær honum sé fyllilega náð.
Hálfmaraþonið er vissulega í spám mínum, en það stendur óheppilega af sér þar sem við munum eflaust vakna upp við vondan draum í ágúst og þurfa að hamast við lokaverkefnisskilin. Án þess að ég sé tilbúinn að skuldbinda mig í eitt né neitt stefni ég a.m.k. að því að vera í þannig formi þegar sumra tekur að geta hálfmaraþonað ef færi gefst á.
(Ég held ég hafi þar með slegið alla mögulega varnagla án þess að svara í raun nokkru.)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry