Sitthvað

Þá er að líða að lokum helgar sem hefur verið róleg en prýðileg og sker sig helst frá öðrum slíkum með nærveru Mardí systur í Köben.

Hún kom hingað með Thelmu og Sæju á fimmtudeginum. Þær stöllur gistu hjá Jóhönnu á Eyrnasundskollegíinu og við hittumst á föstudagsmorgninum, þegar þremenningaklíkan kom í heimsókn í skólann og fékk stuttu útgáfuna af skoðunarferð um húsið. Ég fylgdi þeim svo í Metróinn á leið þeirra að kaupa upp Strikið og nágrenni að íslenskum sið.

Örbar

Við Emilie náðum að ljúka því sem til stóð fyrir helgina, þ.e. að útbúa og senda kennaranum okkar yfirlit yfir hvar við stöndum, með nokkuð ítarlegu efnisyfirliti þar sem við tiltökum hvaða heimildir við sjáum fyrir okkur að nota (eða vantar) í hverjum kafla og hvað verði næsta aðgerðaskref. (Svolítið í Getting things done - stíl.)

Fredagsbarsdvöl mín var svo með styttra móti að þessu sinni. Steini hafði mælt sér mót við gamla félaga sína og ég spjallaði við hann og þá sem fyrstir komu, undir dynjandi hallæristónlist innblásinni af alpínskum diskótekum enda var skíðaferðaþema á barnum. Lét mér reyndar nægja eina væna kollu af 1664 Kronenbourg, en hún sat vel eins og það heitir.

Þar spjallaði ég meðal annars við sagnfræðinemann Christian (?) sem þótti greinilegt af umgjörð ITU hvers konar nám væri í náðinni hjá stjórnvöldum nú um stundir.

Föstudagskvöldið tók ég svo í rólegheitum með sjálfum mér yfir imbanum og smá Blackadder.

Sjoppað með systur

Við systkin hittumst svo á laugardeginum og fengum okkur bröns á Moccador, þaðan röltum við yfir í Amagersentrið þar sem ég keypti bol handa Vilborgu (þegar ég komst að því að hún væri farin að hafa áhrif á það hverju hún klæðist var valið einfalt - Disney, dýr og glit klikka ekki).

M. keypti eitthvað fatakyns og ég naut svo liðsinnis hennar við snyrtivörukaup. Þar sem ég hef heldur reynt að halda aftur af "óþarfa" kaupum þessa dagana lét ég ekki undan freistingunni að kaupa Tarantino-pakkann sem ég sá á tilboði (5 myndir á 200 kall) í diskaverslun. Hins vegar "neyddi" ég Margréti til fjárútláta með því að draga hana inn í Hemtex og sýna henni satínrúmfataúrvalið sem hefur freistað mín undanfarnar vikur.

Henni tókst reyndar með snjallri fléttu að plata mig til að greiða fyrir dýrðina og kom þar kannski vel á vondan.

Eftir verslanaþramm héldum við heim til Jóhönnu og horfðum á danskt miðdegissjónvarp meðan við biðum eftir að hinar dömurnar skiluðu sér heim.

Hið villta líf

Laugardagskvöldið var næstum jafn villt og föstudagskvöldið.

Eftir að hafa eldað mér (og snætt) velling þótti mér rétt að horfa eins og einu sinni á eitthvað af kvikmyndunum sem ég tók með mér út á DVD, svona til að friða samviskuna yfir að hafa ekki alveg afskrifað Tarantino-kaup í framtíðinni.

Fyrir valinu varð Face/Off. Við að horfa á hana tók ég eftir tvennu; hvað framvindan er í rauninni hæg á milli hasaratriðanna og svo er ég 99% viss um að tæknihljóðin í andlitsskiptaatriðinu eru upptaka af hörðum diski í logsuðuhjálmslaga Makka að hjakkast á innlestri. Hljóð sem maður man vel úr barnæsku frá táningsárunum.

Fjárhagsáætlun

Eins og ég nefndi er að reyna heldur að halda aftur af einkaneyslunni eins og er. Ég sé ekki fram á að skila námsframvindu þessarar annar fyrr en í lok september í fyrsta lagi - komi ekkert annað til þarf ég því að lifa á núverandi inneign þangað til.

Áðan tók ég smá stöðutékk og sýnist að ég eigi ca. 85 þúsund fyrir hvern mánuð (þar af fara um 25 þúsund í húsaleigu). Það verður enginn afgangur af því, en ætti að vera gerlegt.

Reyndar langar mig að skjótast heim á klaka, helst tvisvar á þessu hálfa ári sem eftir er af verkefnavinnunni, og það mun eflaust krafsa í höfuðstólinn. Spurning um að reyna að ná í eitthvað af afmælissætum Iceland Express.

Ég þyrfti helst að fá botn í eitthvað af þeim frílansverkefnum sem eru í pípunum, líklegast að það verði annað eða bæði Nígeríuverkefnin, önnur virðast heldur ólíklegt.

Svo treysti ég á að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hrynji ekki alveg á næstunni, það er bakköpp-planið að saxa aðeins á bréfaeignina.

Þetta reddast allt saman, hef ekki neina trú á öðru.

Og svona í tilefni af því að nú er allt útlit fyrir að slabbtíðinni sé lokið þennan veturinn splæsti ég um daginn 20 krónum í dyramottu!

Return of the scotts

Í kvöldpissinu/tannburstuninni í gærkvöldi biðu þriggja silfurskotta voveifleg örlög. Ég hef annars ekki orðið var við þær í nokrar vikur, en þessar þrjár voru hver af sinni stærðinni; frá varla sýnileg og upp í eina hlussustóra.

Yfirvofandi endurskoðun á bjórhæfnismati

Alþjóða eftirlitsstofnunin gaf í morgun frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Ástæða er til að vekja athygli á því að bjórbirgðir thorarinn.com taka að nálgast hættumörk. Við síðustu athugun eftirlitsmanns voru einungis 2,2 lítrar í kæliskáp ritstjórnar og útlit fyrir að eitthvað muni saxast á þær birgðir á allra næstu dögum. Stofnunin telur ástandið þó ekki það alvarlegt að ástæða sé til að breyta bjórhæfnismati thorarinn.com, en vekur athygli markaðarins á að slík endurskoðun gæti verið yfirvofandi ef birgðastaða verður ekki bætt. Tekið er tillit til þess að núverandi birgðir eru af sex ólíkum sortum og er það talið til marks um að reynt sé að stuðla að áhættudreifingu í innkaupum, sem aftur eykur tiltrú stofnunarinnar á að gripið verði til viðeigandi ráðstafana af ákveðni og festu.

Ritstjórn thorarinn.com vill hvetja fjárfesta til að láta þessa yfirlýsingu ekki leiða til fljótfærinna viðbragða, enda mun ritstjórn þegar í stað skipa nefnd til að gera tillögur að því hvernig brugðist verði við þessari nýtilkomnu stöðu.

Unnið á landsins forna fjanda

Í tilefni af því að í morgun var næstum ekkert í ísskápnum mínum nema bjór (og ekki sérlega mikið af honum heldur) ákvað ég að nota tækifærið og afþíða frystihólfið í ísskápnum mínum. Það er reyndar ekki notað fyrir margt annað en flösku af íslensku brennivíni og ísmolapoka, auk þess sem einstaka frosin matvara fær að gista þar stöku nótt. Hins vegar var komin þykk klakabrynja bæði innan á hólfið og utan um það, þannig að mér þótti rétt að grípa til aðgerða.

Ég hef grun um að á flestum heimilum felist afþíðing í því að slökkva á ísskápnum, koma fyrir vatnssöfnunarílátum og láta hlutina svo hafa sinn vanagang. Hjá mér virðist afþíðingum hins vegar alltaf fylgja tilraunir til að flýta fyrir gangi mála með alls kyns ílátum fullum af heitu vatni, sem fyllt eru og tæmd í sífellu - tilraunir sem yfirleitt leiða ekki til annars en óþarfa vatnssulls.

Þetta hafðist að lokum og stoltastur er ég af hálfstommu klakastykkinu sem losnaði neðan af hólfinu í heilu lagi.

Ég komst líka að því að líklega hefur hillunni sem vatnssöfnunarskúffan liggur í (rétt undir hólfinu) líklega ekki verið komið rétt fyrir frá því áður en ég flutti inn. A.m.k. var nokkuð bras að fá hana til að liggja rétt.

Er það bara ég, eða er undarleg mótsögn falin í orðinu "af-þíða"? Er maður ekki að "af-ísa" ísskápinn með því að þíða ísinn?

Hlaupt í hægagangi

Að ótal rúmsentimetrum græddum í frystihólfinu spennti ég á mig púlsmæli og skó og tók smá hlaupatúr.

Fyrir nokkrum vikum benti Óskar Örn læknir mér á að ég ætti að reyna að halda púlsinum við 150 slög frekar en kringum 160. Ég ákvað að prófa þá viðmiðun í dag og sjá hvernig gengi.

Hringurinn var ekki sérlega langur, líklega hef ég verið um 35 mínútur að hlaupa hann, en ég held samt að það hafi verið minnst 10-15 sinnum sem ég þurfti að taka mig á um að hægja á mér vegna þess að púlsinn var orðinn heldur hár.

Eftir að ég er orðinn heitur samsvara 150 slög varla nema hægu lullskokki og það þegar ég stóð sjálfan mig að því að vera farinn að hlaupa létt pg lipurlega var vísbending um að ég væri kominn of hátt.

Ég hef vissar efasemdir um þessa æfingatækni, enda finnst mér þetta tempó vera skelfilega hæggengt. Kosturinn er reyndar að ég gæti trúað að á þessum hraða geti ég hlaupið "næstum endalaust", ókosturinn sá hversu stutta vegalengd ég kemst á meðan.

Niðurlæging dagsins var tvímælalaust þegar Höktklúbbur aldraðra borgara á Sundbyvestersvæðinu æddi fram úr mér þar sem ég hélt mig í mínum 149 slögum.

Kaffi og nærliggjandi systurárekstur

Seinnipartinn fór ég svo í kaffiboð til Sigga og Huldar. Þar voru líka Jónína, Ágúst og Ilmur ásamt börnum undir fermingaraldri. Á svæðinu var fíll, spæderman, álfkona og ofurhetja í dulargerfi drengs í venjulegum fötum.

Borð svignuðu undan kræsingum og það sannaðist hið fornkveðna að þegar maður er 3-5 ára er ekkert í heiminum eins óendanlega fyndið og prumpublaðra.

Að áti loknu reyndi ég að ná sambandi við Mardí, enda vissi ég ekki betur en hún væri í nágrenninu. Ég fékk að vita að þær stöllur hefðu skroppið út að borða, en tókst ekki að ná í þær í númerinu sem ég fékk gefið upp. Ég ákvað því bara að rölta heim og kannski guða á glugga í nærliggjandi kaffihúsum.

Til þess kom reyndar ekki, því þegar ég kom út úr húsinu gekk ég næstum því í fangið á þremenningaklíkunni. Við spjölluðum aðeins um ævintýri gærkvöldsins (þ.e. ævintýri þeirra - mín bárust ekki í tal), en þar sem ég vildi síður þvælast fyrir í þeirra plönum fyrir kvöldið kvöddumst við systkin þarna á Eyrnasundslóðinni (þær fljúga aftur norður um hádegið á morgun).

En nú fer Svíþjóðarför mín að færast óðfluga nær. Vasavefurinn er smám saman að breytast í kveðskaparvef (þótt enn eigi hann nokkuð í land með að ná Bibba).

Það verður prufukeyrsla á vefnum í hálf-vasanu á miðvikudaginn. Hef ekki trú á öðru en það muni ganga vel.


< Fyrri færsla:
Dagur skins og skúra
Næsta færsla: >
Hlaup í hálfbeinni útsendingu
 


Athugasemdir (4)

1.

Óskar Örn reit 27. febrúar 2006:

Hef einmitt oft hikstað á þessari málvenju að tala um að "afþíða" frystihólf. Fæ þetta ekki til að meika sens. Rembist við að koma hugtakinu "affrysta" í almenna notkun hjá mínum nánustu.
Svo var þetta tal um púlstempóið auðvitað bara plott til að skemma fyrir þér trimmið svo þú jarðir mig ekki í væntanlegu hálfmaraþoneinvígi, ef til kemur. Eða ekki.

2.

Margrét reit 27. febrúar 2006:

Takk fyrir helgina og hittinginn, til að fá lánið endurgreitt held ég að þú neyðist til að tala við HogM á Strikinu... þær eru með alla peningana mína :S

3.

Þórarinn sjálfur reit 28. febrúar 2006:

Nú er ég endanlega orðinn komplexaður yfir þessu púlsplotti, ræði þetta kannski við spriklboltana vasakeppendur í .se sem ég þykist vita að hafi hver sína skoðun á málinu.

Já Mardí, mér sýnist að ég verði að skella mér á Strikið og sjá hvort ég komi auga á eitthvað af peningunum þínum. (Nú eða mínum.) Eru þeir með einhver sérstök einkenni sem ég get þekkt þá af?

4.

Thelma litla reit 02. mars 2006:

Skemmtilegt að hitta á þig í stórborginni og enn betra að fá professional túr um ITU:)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry