Hér sé fyrirsögn
28. febrúar 2006 | 2 aths.
Ég er vanur að hafa smá texta fyrir ofan fyrstu millifyrirsögnina. Í dag dettur mér ekkert sérstakt í hug, þannig að þetta verður látið standa þar til annað kemur í ljós.
Frumraun vasavefsins velheppnuð
Eins og ég nefndi í síðustu færslu var frumraun á virkni Vasavefsins í morgun (nú eða -vefjarins ef menn kjósa heldur).
Það gekk vel, bæði tæknilega og skíðalega. Allir skiluðu sér í mark og tenglarnir á tímatökuna virkuðu eins og að var stefnt.
Þótt ég hafi ekki tiltækar umferðartölur þykist ég vita að það hafi verið töluvert um að fylgst væri með gangi mála. Að minnsta kosti hnipptu báðir bræður mínir í mig á MSN til að láta mig vita af því að nú væru allir komnir í mark og kominn tími á að skrifa færslu þar að lútandi.
Með því trufluðu þeir mig auðvitað í því að skrifa færsluna, enda var ég sjálfur búinn að taka eftir fjallskilum.
Á fimmtudaginn mun ég svo formlega afhenda bróður mínum hinum yngri ritstjórnarvald meðan ég bregð mér í hlutverk fréttaritara á staðnum.
Spil verða það heillin
Við Emilie funduðum með kennaranum okkar í morgun. Eins og yfirleitt þegar við fundum með honum ber margt á góma og við máttum hafa okkur öll við að glósa hugmyndir og tillögur sem hann skellti fram.
En í stuttu máli var niðurstaða fundarins sú að honum þykir við vera á réttri leið, við þurfum að skerpa aðeins á markmiðssetningu okkar og nota svo þau markmið til að forðast að gleyma okkur í aukaatriðum.
Við höfum mikið velt því fyrir okkur hvers konar upplýsingar/gögn við eigum að prófa, en í morgun fékk ég þá hugmynd að styðjast við spilastokks-metafóru. Það er kerfi sem allir þekkja og spurningar á borð við "hvað er hæsta hjartað á borðinu?" ættu að vera auðskildar.
John var ánægður með þessa hugmynd og ég hef því fengið það verkefni fyrir morgundaginn að koma með spilastokk, þannig að við getum farið að spá í hvernig þetta gæti litið út hjá okkur.
Emilie vill reyndar endilega að ég komi með allt pókersettið þannig að við getum gripið í spil þegar færi gefst. Ég veit ekki hvort það er endilega jákvætt fyrir framgang verkefnisins þar sem ég held að það búi í henni dálítill spilafíkill.
Motta gleðst
Ég og nýkeypta útidyramottan mín gleðjumst yfir því að í dag skuli snjóa í Kaupmannahöfn.
Hér hefur snjóað meira eða minna í allan dag og hér á Amagri var seinnipartinn kominn hátt í sentimetri af jafnföllnum snjó!
Annars held ég mér sé óhætt að fullyrða að það sé stór ónýttur markaður fyrir vetrardekk á reiðhjól hér í Danmörku, annað hvort negld eða með harðkornum. Ef slíkt er selt hér virðist a.m.k. enginn af þeim sem ég hef spurt vita um það, en öllum finnst það góð hugmynd.
Danir virðast reyndar frekar tregir að nota reiðhjólahjálma, jafnvel í hálkunni, en kannski öryggistæki sem ekki ruglar hárgreiðslunni geti slegið í gegn.
Þessu er hér með komið á framfæri við áhugasama fjárfesta.
Talandi um fjárfesta. Hvers vegna í ósköpunum stendur eiginlega á þessum ógurlegu uppkaupum Íslendinga hérna í Danmörku? Ég skil vel að íslenskir athafnamenn horfi til útlanda, en af hverju er ekki meira um fjárfestingar t.d. á hinum norðurlöndunum, eða sunnar á meginlandi Evrópu?
Varla er það tungumálið sem veldur, mér sýnist allir þeir fjárfestar sem rætt er við í dönsku sjónvarpi (nú síðast vegna uppkaupanna í fasteignafélögum) kjósa að tjá sig á ensku.
Og það skal enginn reyna að telja mér trú um að þetta sé íslenska þjóðarsálin að leita hefnda fyrir nýlendukúgun bauna.
Skásta kenningin sem mér dettur í hug er að Íslendingar séu svo vanir því að styðjast við kunningsskap, að þekkja einhvern sem veit eitthvað, að um leið og fjárfestar séu komnir með vott af tengslaneti hér noti þeir (og vinir þeirra) það til að leita uppi nýja möguleika - frekar en að horfa til meginlandsins alls.
Brennivín í boði Bakkavarar
Og talandi meira um fjárfestingar. Mér sýnist af nýjustu fréttum að ég muni eiga von á arði fyrir hlut minn í Bakkavör. Lauslega reiknað yfir í klassískan gjaldmiðil sýnist mér að ég eigi von á arðgreiðslu af stærðargráðunni brennivínsflöskuverð í ríkinu.
Skál fyrir því.
Vaxandi harka
Og í engu sambandi við íslenskar fjárfestingar: Það virðist vera ákveðin ofbeldisalda í gangi í næturlífinu hér í Köben og farið að ræða reglulega við áhyggjufulla hagsmunaaðila í sjónvarpsfréttum. Lögreglan leggur hald á fleiri vopn en nokkru sinni fyrr og dyraverðir eru á því að þótt ofbeldistilvikum sé ekki endilega að fjölga sé um að ræða svæsnari tilvik en áður.
Upp á síðkastið hefur t.d. maður verið skotinn til bana á kaffihúsi í Brønshøj. Fjölmiðlarnir tala um að það hafi líklega verið "likvidering", þ.e. skipulögð aftaka. Fyrir tveimur vikum hleyptu verðir á skemmtistað af skotvopnum þegar hópur inni á staðnum var til vandræða. Þegar lögreglan kom á staðinn var það ekki vegna tilkynninga frá dyravörðunum, heldur hafði byssukúla farið í gegnum vegg og sett af stað þjófavarnarkerfi í versluninni við hliðina.
Nú um nýliðna helgi var svo hópi vísað frá skemmtistað við Nørrebrogaðe og þeir brugðust við með því að hleypa af fjölmörgum skotum á húsið. Atvik sem mér sýnist að Egegengið hafi orðið vitni að.
Það er kannski bara réttast að halda sig á síns eigins heimili um helgar, eða a.m.k. halda sig frá meginlandinu.
Og hvað liggur að baki? Skv. formanni dyravarðasambandsins mislukkuð indvandrerpólitík (með öðrum orðum að þetta séu klíkur rótlausra innflytjendabarna).
Athugasemdir (2)
1.
Óskar Örn reit 01. mars 2006:
"Upp á síðkastið hefur maður verið skotinn til bana á kaffihúsi í Bronshoj." Undarleg setning. Hefur maðurinn verið skotinn endurtekið? Kannski daglega? Og selt inn?
2.
Þórarinn sjálfur reit 01. mars 2006:
Skarplega athugað.
Nei, ég held nú að þetta hafi bara verið stakt tilvik, enda varla meira leggjandi á einn mann.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry