Hlaup í hálfbeinni útsendingu

Þá er hálf-Vasan hafin og á Vasavef fjölskyldunnar er hálfbein lýsing á gangi mála, byggt á sjálfvirkri tímatöku (sem einnig er aðgengileg öllum).

Það hefur verið nokkuð líf í kveðskapartilþrifum á Vasavefnum og fyrirpartar, botnar og limrur litið dagsins ljós.

Ég gerðist svo kræfur í gær að botna þar framlagðan fyrripart. Að vísu þurfti ég bæði að stela rímorðinu "skrokkar" og að klæma saman hálfríminu "yfir - fyrir" (heitir þetta ekki annars hálfrím?). Eflaust er ég líka eitthvað að brjóta hrynjandareglur, en lét þetta samt vaða út á alnetið.

Heimsfrægðin hellist nú yfir
heimilislæknana okkar.
Marki og medöljum fyrir
sniglast þó mörgþúsund skrokkar.

Tapast hefur ónæmiskerfi

Í gær skrapp ég í heimsókn til Jónínu og barna þar sem ég aðstoðaði heimasætuna við stærðfræðinám og borðaði kvöldmat með fjölskyldunni.

Á leiðinni heim fór smá hálsbólga að gera vart við sig og hún var enn til staðar þegar ég vaknaði í morgun.

Ég ætla nú ekki að fara að gera úlfalda úr mýflugu á þessu stigi máls, en andsk. hafi það - þrjú kvef í sama mánuðinum er nú kannski fullmikið fyrir minn smekk.

Hálsbólga og nefrennsli munu ekki stöðva mig frá Svíþjóðarförinni - ég vona bara að ég smiti engan keppenda.


< Fyrri færsla:
Sitthvað
Næsta færsla: >
Hér sé fyrirsögn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry