Til í tusk með kúlu á enni

Þá er ég búinn að pakka og er tilbúinn að heimsækja mitt fyrsta heimaland utan Íslands (þ.e. ég bjó í tvö ár í Svíþjóð sem pjakkur). Ég er reyndar örlítið efins hvort ég verði örugglega nógu vel klæddur til að sinna klappstýruhlutverkinu með sóma, en ég er búinn að pakka niður svotil öllum vetrarfötum sem ég er með hér í útlandinu þannig að það verður að duga.

Útgerðin kemst reyndar í meðalstóra íþróttatösku og ég held að ég hafi aldrei flogið milli landa með jafn lítinn farangur (tel ekki með Svíþjóðarskrepp okkar feðga fyrr í vetur, enda fórum við þá með lest).

Ég veit ekki hvenær ég kemst næst í netsamband, en Sigmar tekur formlega við ritstjórnarhlutverki vasavefjarins meðan ég er utan þjónustusvæðis.

Vaknað í polli

Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum undanfarið að ég hef rumskað um miðja nótt liggjandi kófsveittur í rúminu. Ég held ég geti ekki kennt geimfarasænginni um því þetta gerist ekki það oft. Þetta virðist tengjast draumsvefni, en þó alls ekki þannig að mig sé að dreyma illa.

Ég er ekki að ýkja svo neinu nemi þegar ég held því fram að í nótt hafi ég beinlínis vaknað í polli. Þá er ekki um annað að ræða en vinda sér fram úr og þerra af sér, grípa svo hina sængina og leggjast í þurra helming rúmsins. Mér þótti svo rétt að þvo af rúminu í dag.

Skartandi kúlu

Í morgun var ég að brasa við annað hvort að opna eða loka opnanlega faginu í specialekontórnum okkar. Því er stýrt með rofa undir gluggakistunni og þegar ég átti í einhverju basli með þetta beygði ég mig niður til að sjá betur hvað ég væri að gera. Þar varð hins vegar fyrir mér horn á tölvuskjá sem var rétt fyrir utan sjónsviðið og ég hafði steingleymt. Aðflugið var reyndar ekki langt, en hornið hvasst þannig að þetta var helv. sárt.

Núna skarta ég því nokkuð greinilegri kúlu á hægra kollviki. Verður fróðlegt að sjá hvort í hana bætist litur á næstu dögum.

Annars hefur sama og ekkert gerst af viti hjá okkur í verkefninu í þessari viku (fyrir utan auðvitað fundinn með kennaranum okkar). Það verður ágætt að að kúpla sig aðeins frá þessu öllu og mæta glaðbeittur eftir viku (ég geri ráð fyrir að vera lúinn á mánudeginum og við tökum svo þriðjudaginn í frí).

En nú er bara að reyna að sofna snemma, því ég ætla að hitta Gunna frænda á Hovedbanegården fyrir allar aldir í fyrramálið (a.m.k. á minn mælikvarða). Hann verður þá nýstiginn úr lestinni frá Árósum eftir að hafa ferðast um nóttina, þannig að ég held mér sé ekki stætt á að barma mér.

Kvefið sem lét á sér kræla í gær hefur (7, 9, 13)* verið til friðs í dag; smávægileg einkenni en ekkert sem orð er á gerandi. Í versta falli bryð ég bara parasetamól í svíaríki.

* Eins og kerlingin sagði: "En ég er ekki hjátrúarfull, það boðar bara ógæfu að velta sér upp úr svoleiðis bábiljum."


< Fyrri færsla:
Mér er spurn
Næsta færsla: >
Kominn heim
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry