Kominn heim

Langar nætur voru ekki það sem helst einkenndi frábæra helgi í sænsku dölunum; við vöknuðum 03:30 að morgni göngunnar sjálfrar, en fengum á móti að sofa alveg til 06:30 á mánudagsmorgni áður en öllum var troðið í bíla í 26 stiga frosti og brunað til Arlanda.

Við Gunni vorum samferða í fluginu hingað til Köben og ég fylgdi honum upp á Höfuðbanann þar sem við fengum okkur einn bjór og skáluðum fyrir fjölskyldumeðlimum sem þá voru eflaust steinsofandi einhversstaðar í námunda yfir Færeyjum. Við kvöddumst svo með virtum og hann fór að leita sér að fari uppeftir til Árósa og ég lestarmetróaðist heim.

Eftir að hafa rennt yfir ólesinn tölvupóst og saxað örlítið á ólesnar bloggfærslur lagðist ég upp í rúm klukkan 17 og steinsofnaði.

Ég vaknaði svo klukkan 20 (hafði stillt klukku á 20:30 til öryggis) og samdi við þá pissugerðarmeistara að græja handa mér samloku sem ég maulaði yfir sjónvarpinu. Ég fór svo aftur í rúmið um miðnættið og fór ekki framm úr fyrr en nálgast tók hádegi í dag.

Ég er mjög feginn að hafa ekki stefnt á tónleikana með The Darkness í gær, það hefði trúlegast endað með örmögnun einhversstaðar.

Ítarleg ferðasaga og myndir úr ferðinni eru væntanlegar hér á næstunni, auk þess sem mig grunar að nýtt efni muni bætast á Vasavefinn eitthvað fram eftir vikunni.

Nú ætla ég að sjá hvort ferskt lopt og sólskin dugir ekki til að hrista af mér létta vönkun sem svífur yfir höfðamótum í augnablikinu - líklega einhver eftirköst svefnbrenglana.


< Fyrri færsla:
Til í tusk með kúlu á enni
Næsta færsla: >
Og enn og aftur brennur Köben
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry