Helgi fer í hönd

Lokaverkefnið mjakast hægt og rólega áfram. Við fengum góðar fréttir á miðvikudeginum þegar við fengum jákvæðar undirtektir við beiðni um að fá aðgang að kóðanum á bak við þetta fína súmm-demó, til að reyna að aðlaga það að okkar þörfum (og hvað eru mörg að í því?).

Reyndar er það svo að það sem við (reyndar aðallega ég) höfum varið mestum forritunartíma í, rýrnar í verðgildi með hverjum degi sem líður. Við erum eiginlega orðin sannfærð um að það mun kolfalla í vinsælda- og notagildismælingum, en það verður samt schwalt að hafa það með. (Þó ekki sé nema til að sýna það í prófinu.)

En vissulega veltir maður því fyrir sér hvort tímanum væri kannski betur varið í annað en að fínpússa þessa virkni sem við munum líklega lítið sem ekkert nota...

Svo á alveg eftir að koma í ljós hversu langan tíma það tekur að aðlaga þann kóða sem við (vonandi) fáum vegna súmmsins að okkar þörfum.

Myndauppsetningar

Ég hef svo verið að bauka við það í frístundum að setja upp myndabankakerfi á vefnum, aðallega sem vettvang til að birta eitthvað af þeim fjölmörgu myndum sem teknar voru í Vasaleiðangrinum. Þar voru auðvitað allir með stafrænar myndavélar og smelltu af í gríð og erg (sjálfur kom ég heim með 150 myndir, eftir að hafa hent þeim áberandi misheppnuðustu til að spara pláss).

Kerfið er farið að virka, en ég á eftir að fínstilla það og snurfusa aðeins áður en ég hleypi almenningi í það.

Ég hef tekið þá ákvörðun að miða við að þetta verði vef-albúm, þ.e. myndastærð miðist við að hægt sé að skoða myndirnar á vefnum - ekki að þær séu nægilega stórar til að prenta þær út (enda myndi það líklega fylla vefþjóninn heldur snarlega).

Tour de Chambre - part deux

Nú er dálítið síðan farið var að ræða um að halda partí á hæðinni á kollegíinu núna um helgina. Meðan ég var í Svíaríki var ákveðið að hafa það með TdC sniði, þ.e. farið milli herbergja og boðið upp á drykk á hverjum stað.

Við verðum reyndar eitthvað færri en síðast, þannig að ég er vongóður um að skylduáfengisinnbyrðing verði innan skynsamlegra marka.

Verst að ég þarf að ákveða hvað ég á að bjóða upp á. Nú er ég reyndar kominn með íslenska brennivínið sem ég saknaði síðast, en miðað við þá takmörkuðu hrifningu sem það vakti á julefrokosti hæðarinnar er kannski rétt að bjóða upp á eitthvað annað.

Í versta falli endurtek ég bara leikinn og býð aftur upp á Hønsnerøv 101. Það verður eflaust boðið upp á meiri hroða en það einhversstaðar.

Á morgun þarf ég því að taka til í herberginu og skúra svo það sé fylliröftum bjóðandi.

Nýju buxur keisarans

Þar sem ég sparaði svo gríðarlegar upphæðir með því að kaupa mér ekki útivistarfatnað í ferðinni til Svíþjóðar leyfði ég mér að bruðla létt í vikunni. Ég skellti mér meðal annars á Quentin Tarantino pakkann (5 myndir, 8 diskar á 200 kall) svo það verður glápt á ofbeldismyndir stöku kvöld eftir því sem birgðir endast.

Svo lét ég lox verða af því að fá mér gallabuxur (margboðaðar). Eftir að hafa leitað um víðan völl að verslunum sem ættu eitthvað úrval af buxum í sídd 36, endaði ég á gamalkunnum slóðum í Jask og Jónasi.

Þótt ég leggi ekki í vana minn að pissa í buxurnar, þykir mér samt heldur takmarkað að eiga bara einar (bláar) gallabuxur og þótti því þörf á fjárfestingu.

Fyrstu buxurnar sem ég mátaði hjá J&J reyndust vera nákvæmlega eins í sniðinu og þær sem ég átti fyrir og hafði tekið með heiman af klaka, nema hvað þessum hafði verið forslitið af fagmönnum - ekki raunslitið af amatör eins og mér. Fyrir vikið pössuðu þær prýðilega, en mér fannst rétt að hafa smá tilbreytingu í þessu.

Ég skellti mér því á buxur með low-cut sniði. Ekki að ég sjái né finni á því allan mun, en þó er einni tölu færra að hneppa í klaufinni og eftir að hafa hysjað buxurnar upp um mig þarf ég yfirleitt að tosa þær örlítið niðurávið aftur. Jú, og svo þarf ég að venjast því að veski sem sett er í rassvasann endar ekki aftan á rassinum heldur einhversstaðar lengst niðri á læri.

En vissulega þykir mér merkilegt að kaupa mér nýjar buxur þar sem greinilegt er að þær hafa á köflum verið forslitnar með þjöl eða álíka, en svona er víst tískan í dag.

Eða eins og Bubbi orðaði það hérna um árið:

[...] þótt hann raspi buxurnar sínar með þjöl um helgar,
þú veist hvernig tískan er.

En nú er rétt að taka smá dugnaðarsprett í forrituninni (sem kannski verður hent) áður en brestur á með föstudagsbarnum og annarri óáran.

Góða helgi.


< Fyrri færsla:
Raunir fordritarans
Næsta færsla: >
Af féló og myndó
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry