Af féló og myndó

Sakleysislegt komment sem ég skildi eftir á vef hjólastúlknanna (eða bíkíní-stúlknanna eins og ég las vefslóðina fyrst) (já ég veit, sjúkur hugur og allt það...) leiddi til þess að mér var boðið í samkvæmi hjá Elínu og Bjögga uppi á Nörrebrú á föstudagskvöldið.

Á leiðinni komst ég að því að það myndu líklega vera paunktónleikar einhversstaðar utan við sjóina, því á Nörreport varð ekki þverfótað fyrir hanakömbum, líkamsgötun og tattúum (ásamt tilheyrandi skrokkum) sem allir voru á líkri leið og ég. Þannig var það ekki fyrr en í þriðja 5A vagninum að ég komst um borð.

Teitið bar þess reyndar ákveðin merki að flestir gestanna höfðu látið til sín taka í gleðskap kvöldið áður, svo stemmningin var allt að því letileg. En það hentaði mér ágætlega, svo ég lét fara vel um mig sötrandi nokkra bjóra undir sögum af merkilegum uppátækjum fólks sem allir aðrir gestir en ég virtust þekkja - brotnum upp með sögum af fólkinu sem var á staðnum.

Ég fór svo heim fljótlega upp úr miðnættinu, svona rétt áður en skipti yfir í næturtaxtann í almenningssamgöngunum (alltaf að spara).

Fyrirhugað Tour de Chambre á laugardagskvöldinu hefði átt að nýtast mér sem hvati til að taka nú almennilega til, skúra gólfin og svona. En þess í stað tók ég bara enn einn kattarþvottinn; staflaði ófrágengnum pappírum í bunka, þurrkaði af þeim flötum sem glytti í og blettaði verstu óhreinindin á gólfinu.

Þess á milli rembdist ég við að ftp-a skrám vegna myndasafns sem ég er að koma mér upp yfir slitrótt kollegínetsambandið. Það reyndist drjúgt verk og slatti af skrám sem ekki voru að skila sér í fyrstu tilraunum. En að lokum hafðist þetta og nú get ég státað mig af uppsettu myndasafni.

Dýrðina er að finna á slóðinni thorarinn.com/photos. Þar eru núna komnar inn myndirnar sem ég tók í Svíþjóðarferðinni um síðastliðna helgi (ferðasagan bíður enn), auk þess sem hægt er að nota tækifærið og rifja upp kynni af Húsabakkaskólamyndunum (fyrir þá sem áhuga hafa á slíku).

Ég gat auðvitað ekki stillt mig um að grófþýða hluta af viðmótinu yfir á íslensku og á örugglega eftir að fikta töluvert í útlitsstillingum til að fá þetta til að líkjast meira öðrum síðum á vefnum mínum.

Svo er vonandi að þetta verði til þess að ég verði duglegri við að taka myndir í hversdeginum og skella þeim á vefinn. Ég hef ekki kveikt á kommentum við myndirnar, a.m.k. nema sérlegs þrýstings í þá veruna verði vart meðal gesta.

Sætur rauður kjúklingur

Þetta tiltektar- og tölvustúss tók það langan tíma að mér tókst að lenda í tímahraki við drykkjarfangainnkaup. Ég ákvað að prjóna við uppskriftina frá því síðast og stökk á síðustu stundu yfir í búð og keypti Baccardi Limon, appelsínusafa, Rynkeby Rød saft, Faxe Kondi og læmávexti. Ég hafði engan tíma til að smakka þetta til, en ákvað að halda mig við nokkurn vegin jöfn hlutföll appelsínusafa, rauðsafts og goss (auk auðvitað romms eins og við átti).

Kvöldið byrjaði á lasagna-veislu í eldhúsinu, þar sem við settumst sjö við að snæða þrjú stór föt af lasagna, hvert af sínu tagi - ásamt með nýbökuðu brauði og salati.

Þegar við höfðum að mestu jafnað okkur á ofátinu lögðum við af stað í rúntinn og byrjuðum hjá mér. Aðspurður um nafn á drykknum ákvað ég að halda mig við hænsnstofninn og kallaði drykkinn Den Røde Kylling.

Hann rann ágætlega í mannskapinn, en mér fannst hann í það sætasta, enda rauðsaftin mun sætari en eplasafinn sem ég hafði áður verið með. Það hefði líklega passað betur að vera með hreint sódavatn (eða minnka aðeins rauðsafann).

Nafninu var því breytt í Den Søde Røde Kylling.

Ég hafði skreytt herbergið með íslenskum fánaborða og bauð upp á snakk úr stórum potti - hvorttveggja vakti lukku (og reyndar vakti jólapappírinn upp á vegg líka athygli, en ég veit ekki nema það hafi verið meira í formi vorkunnar heldur en lukku).

Rautt reyndist annars vera þema kvöldins, en drykkirnir sem boðið var upp á voru (ef mig misminnir ekki):

  • Michael: Ljóst romm í Sprite með miklum ís og flottri skreytingu
  • Dorthe: Jarðarberja Daiquiri, hnausþykkt
  • Steffen: Ferskjur og hindber með vodka (ekki ósvipað daiquirinum í áferð)
  • Jeanette: Norðursjávarolía (alls ekki góður snafs)
  • Sisse: Jägermeister í rauðu gosi
  • Thomas: Blátt gin í tónik (helv. gott eftir alla sætuna sem á undan var gengin)

Eftir hringferðina enduðum við í eldhúsinu kjaftandi og spilandi "Tegn og gæt" (sem er næstum alveg eins og Pictionary, nema með reglur gera það mun léttara). Ég fór á kostum bæði í hlutverki teiknara og sem hrokafulli keppandinn sem jós aur á andstæðinga sína.

Að vísu þurfti ég tvisvar að fá smá aðstoð hjá einum andstæðinganna; fyrst til að komast að því að "perron" væri ekki einhverskonar verönd eins og ég fyrst hélt, heldur brautarpallur - og í síðara skiptið til að vera viss um að "mine" væri jarðsprengja. Að þeim upplýsingum fengnum fór ég létt með að teikna þetta og vil líka meina að ég hafi staðið mig vel í ágiskunum - þrátt fyrir örlítið takmarkaðan orðaforða.

Það var reyndar haft á orði að þetta hefði verið óvenju afslappað TdC, enginn sem drapst áður en hringnum lauk og við vorum öll frekar fersk - a.m.k. þar til syfja tók að gera vart við sig eftir klukkan 3.

Sjálfur fór ég í rúmið kl. 4 og er búinn að vera prýðishress í dag, þrátt fyrir að hafa líkt og venjulega vaknað aðeins fyrr en ég hafði vonast til.

Líklega hafa þessi óvenjulegu félagslífstilþrif valdið því að í dag hef ég að mestu verið mjög ófélagslyndur og lokað mig inni við að horfa á imbann og fikta í áðurnefndu myndasafni. Það var ekki fyrr en ég sá fram á að fyrirhugaður kvöldverðarvellingur yrði rúsínulaus að ég dröslaði mér út úr húsi rétt fyrir lokun í Super Brugsen og fór svo lengri leiðina heim.

Það gæti farið svo að félagskalenderinn í næstu viku verði þétt skipaður og stefnir jafnvel í tvíbókanir stöku kvöld - sem er náttúrulega hið besta mál.


< Fyrri færsla:
Helgi fer í hönd
Næsta færsla: >
Um allt og ekkert
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry