Um allt og ekkert

Síðastliðið sunnudagskvöld hringdi Halldór föðurbróðir í mig. Hann var á leiðinni í stutta ferð til Köben og stakk upp á að við myndum hittast. Eftir "vinnu" á mánudeginum fór ég því upp á meginlandið og hitti hann við Kóngsins Nýtorg. Við fengum okkur bjór á Hviids og röltum síðan eftir Strikinu og enduðum á tapasstað í nánd við Ráðhústorgið þar sem við spjölluðum yfir spænskum smáréttum þar til hann þurfti að drífa sig út á völl.

Í gærkvöldi var mér boðið til Jónínu og familíu, þar sem ég testaði vef menningarráðuneytisins og aðstoðaði heimasætuna við að reikna umferðartíma Merkúr um sólu og syninum í súpermanbúninginn.

Í nótt gekk svo á ýmsu. Ónefnd ung kona vildi endilega millilenda inni á bar á leið að hitta sameiginlega vini okkar. Þar lenti hún í óþægilegri aðstöðu og þegar ég dustaði rykið af riddaramennskunni stóð ég frammi fyrir mínum fyrstu barslagsmálum. Ekki segir frekar af þeim, en seinna um nóttina varð ég vitni að því þegar heilum hópi asískra mótorhjólatöffara (allir mjög líkir - einna helst að mér dytti í hug að þeir hefðu verið klónaðir) og óeirðalögreglunni dönsku laust ekki saman, þótt tæpt hafi staðið. Seinna um nóttina var ég svo á leið á svið á leikæfingu sem ég ætlaði að taka á töffaraskapnum en áttaði mig á að ég hafði ekki haft tíma til að lesa yfir handritið, og vissi raunar ekki einu sinni hvaða hlutverk ég ætti að skipa. Það gekk á fjölmörgu meir sem ég er að mestu búinn að gleyma, en ég vaknaði a.m.k. dauðþreyttur þegar vekjaraklukkan hringdi.

Í kvöld er svo "fríkvöld", en annað kvöld er Elli bróðir væntanlegur frá Svíþjóð og við ætlum að kíkja í kollu.

Ég hef verið að brasa við það undanfarið að reyna að finna tíma fyrir pókerkvöld með Nörrebrúargenginu (sem býr reyndar að stórum hluta hér á Amager), en það hefur gengið illa enda virðast allir vera að fá gest(i) að heiman komandi helgi. Ég veit ekki hvað veldur, en ekki er það vetrarblíðan hérna í Köben.

Kaupmannahafnarbúum (íslenskum jafnt sem öðrum) þykir kalt og bíða í ofvæni eftir vori. Eftir skreppitúr minn til Svíþjóðar vil ég hins vegar meina að hér sé í mesta lagi leiðinlega kalsamt - 25 stiga frostið í Dölunum, það var kalt.

Það kemur í ljós á morgun hvort ég slæ til og boða til spilunar um helgina eða hvort ég fresta þessu enn um sinn.

Svo skýrist vonandi fljótlega hvort og hvenær ég geri eitthvað í tilefni af yfirvofandi afmæli.

Heimskreppipælingar

Í gær kom upp sú hugmynd að ég skreppi heim síðustu vikuna í apríl. Ég hef ekki gert neinar ráðstafanir til að fara heim um páskana og er næsta viss um að ég fái ekkert flug á viðráðanlegu verði kringum páskahelgina þannig að það er alveg úr sögunni.

Síðustu vikuna í apríl er Emilie hins vegar á leið til New York og kærastinn hennar að flytja til London, þannig að það myndi henta henni vel að fá nokkra daga til að flytja út úr íbúðinni hans.

Ég á eftir að ganga frá miðakaupum (bíð trúlega þar til verðið hækkar aðeins) þannig að nákvæmlega hvaða dagar þetta verða er ekki alveg ljóst ennþá. Svo á ég líka eftir að græja mér gistingu - en treysti á að það verði ekki mikið mál :)

Ég vonast til að geta heilsað upp á sem flesta vini og kunningja um kvöld og helgardaga í þeim skreppi. Það er svo spurning hvort ég reyni ekki að nota dagana í smá markaðssetningarherferð. Rúnti aðeins um og reyni að fá tilfinningu fyrir því hvaða starfsmöguleikar eru í boði og hvað það er sem ég hef helst áhuga á. Ég sé ekki fyrir mér að ég muni fara í hrein atvinnuviðtöl, en kannski reyna að spjalla við einhverja sem þekkja til. Aftur eitthvað sem á alveg eftir að skipuleggja.

Síðan myndi ég gera eitthvað svipað hérna í .dk þegar ég kem til baka. Í gær fór ég á stuttan fyrirlestur um stöðu og horfur á danska upplýsingatæknimarkaðinum. Í stuttu máli er mikil bjartsýni í lofti, fyrirsjáanleg þörf á fólki með háskólamenntun í faginu (reyndar helst sem tæknilegasta þekkingu) og almennt auðveldara að komast í starf hjá litlum eða meðalstórum fyrirtækjum heldur en hjá alþjóðlegu risunum (sem allir sækja um hjá).

Rétt rúmlega tvistar

Það er oft merkilegt hvað það er helst sem maður saknar að heiman. Ég get ekki beinlínis sagt að ég hafi fundið fyrir mikilli þörf í Þrista hér úti í .dk, en þegar Emilie spurði mig fyrir nokkrum vikum út í hvort það væri eitthvað séríslenskt sælgæti datt mér allra fyrst í hug súkkulaði-lakkrís-sælgæti (sem er fáséð hér úti) og þá einna helst Þristur.

Ég samdi svo við pabba um að kaupa fyrir mig Þrista á leið sinni til Svíþjóðar til að ég gæti boðið upp á á kontórnum. Hann kom með tvo poka, sá fyrri fór í að þjónusta göngukappa (enda mjög passleg stærð til að troða upp í sig eða skella í vasann).

Þristar komu reyndar aðeins við sögu síðustu helgi; í teitinu hjá Elínu og Bjögga var þristapoki á borðinu (enda gestur að heiman í heimsókn) og svosem ekki í frásögur færandi - hins vegar fannst mér mjög heimilislegt að sjá svo þristsbréf í rúllustiganum á Nörrebrúarstöðinni þegar ég fór heim um nóttina.

En þetta var útúrdúr.

Þegar ég birtist fyrst með þristana var Emilie spennt að smakka og líkaði ágætlega, en fannst það mætti kannski vera sterkara lakkrísbragð. Ég var með alla bitfleti þakta í lakkrís og skildi ekki alveg hvað hún var að fara - en það var svo sem ekki í fyrsta skipti, þannig að ég kinkaði bara kolli.

Síðar hefur reyndar komið á daginn að þessi ákveðni þristapoki virðist hálfgallaður, því á að giska annar hver biti inniheldur næstum engan lakkrís. Ég tók t.d. eftir því um daginn að bitinn sem ég fékk mér þá innihélt ekki nema tvær lakkrísflísar.

Þykir mér það heldur súrt í broti að fá ekki minn lakkrís og vil meina að þetta geti varla talist nema rétt rúmlega tvistar.

Í dag varð reyndar nokkuð skondin uppákoma þegar við vorum að sötra morgunteið og ég dró fram tvo þrista og gaf Emilie annan. Hún var byrjuð að smjatta á honum þegar hún mundi eftir að hún væri nýbyrjuð á kúr sem felst í því að forðast allt annað en súpur, grænmeti og ávexti. Viðbrögðin voru slík að ég er næsta viss um að hefði hún verið búin að kyngja einhverju af þristinum hefði hún alvarlega íhugað að fara fram og kasta upp. Til þess kom þó ekki, en ég lét mér nægja að glotta að hamaganginum í henni og smjatta á mínum 2,5isti.

Af verkefninu

Forrituninni mjakar hins vegar rólega fram. Ég eyði reyndar að mér finnst óratímum í að leita uppi smávillur og reyna að átta mig á hvað forritunarmálið leyfir og hvað ekki, en að því frátöldu hefur mér tekist glettilega vel að skrifa kóða sem yfirleitt virkar (svo gott sem) í fyrstu tilraun.

(Með öðrum orðum eru mínar hugmyndir um framgangsmáta yfirleitt að virka, en mig vantar aðeins meiri reynslu til að forðast "málfræðivandamál" sem ég þarf svo að eyða orku í að skilja og leysa.)

Í fyrramálið fer ég að kíkja á það sem við fengum frá útlandinu varðandi súmmið og við erum að vonast til að geta byrjað að gera tilraunir á fyrstu notendum í byrjun apríl.

Fyrir það ætla ég að vera búinn að græja smá vef/gagnagrunns-virkni til að halda utan um verkefnin sem tilraunadýrin fá til að leysa og skrá jafnóðum hvernig það gengur. Ég er ekkert byrjaður að kíkja á það, en held að það ætti ekki að reynast sérlega flókið (a.m.k. ekki eftir að við erum búin að ákveða hvernig tilraunir við viljum gera).


< Fyrri færsla:
Af féló og myndó
Næsta færsla: >
Bjórarnir á barnum mínum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry