Bróðir í borginni

Ég hitti Ella og Guðmund vinnufélaga hans í anddyrinu á hótelinu þeirra (Vest-Farimagsgade, steinsnar frá Höfuðbananum) þar sem við fengum okkur einn öl (eða samtals þrjá) og þeir sögðu fjálglega frá hinni fjörugu borg Lysekil þaðan sem þeir voru nýkomnir.

Við Elliði röltum svo í átt að Höfuðbananum til að fá okkur í gogginn. Þar sem ég hafði engar ákveðnar hugmyndir um matsölustað og drengurinn ekki alveg klæddur fyrir skandinavísk vetrarkvöld ákváðum við að vera bara plebbalegir og strunsa beint á O´Learys. Þar var reyndar akkúrat búið að loka eldhúsinu þegar við mættum (rétt rúmlega hálftíu) þannig að við urðum að grípa til annarra ráða.

Ekki að ég ætli að níða skóinn af elskulegum litla bróður mínum (enda voru allar ákvarðanir teknar í samráði við mig), en það var óneitanlega örlítið meiri klassi yfir að borða með stjórnarformanninum hans á mánudagskvöldinu - þó ekki væri nema fyrir það að Halldór borgaði fyrir matinn.

Það kom nefnilega í ljós að MacD staðurinn sem við fórum á tók bara Dankort og reiðufé, hvorugt eitthvað sem Elli var með á sér. En þetta var ekki feitasti matarreikningur sem ég hef borgað um ævina þannig að það var lítið mál að græja.

Hann fékk hins vegar heiðurinn af því að borga fyrir alla bjóra kvöldins, en eftir fæðisítroðslu fórum við á enska pöbbinn í Scala húsinu þar sem ég þóttist vita af Jacobsen Brown Ale krana. Það reyndist rétt vera og við smjöttuðum á sitthvorum slíkum. Matvælafræðingurinn og fyrrum bjórbruggarinn stökk ekki hæð sína í lopt upp af ánægju yfir brúnölinu en kláraði samt úr glasinu áður en hann skipti yfir í ljósara öl ættað suðaustar úr Evrópunni.

Þar sem við þurftum báðir að fara snemma á fætur dagin eftir héldum við okkur á mottunni og kvöddumst með virktum þegar nálgaðist miðnættið eftir bráðskemmtilegt kvöld.

Svo er bara að sjá hvaða fjölskyldumeðlimur skýtur næst upp kollinum í Köben.


< Fyrri færsla:
Tengill, tengill, herm þú mér...
Næsta færsla: >
Bar fredags
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry