Allt að því dugnaður

Dagurinn í dag hófst á því að ég beitti sjálfan mig fantabragði. Raunar beitti ég bragðinu tæknilega séð í gær, en það bitnaði ekki á mér fyrr en í morgun.

Undanfarið hef ég prófað að láta farsímann (sem gegnir hlutverki vekjaraklukku) liggja uppi í hillu við fótagafl rúmsins. Planið var að ég myndi vakna meira við að reisa mig upp heldur en ef síminn lægi til dæmis á náttborðinu. Ég er hins vegar löngu búinn að fullkomna þá list að rísa upp við dogg, þagga niður í símanum og leggja hann snúsandi á koddann við hliðina á mér án þess að förlast í yfirstandandi draumförum.

Í gærkvöldi skildi ég hann því af yfirvegaðri sjálfspíníngarhvöt eftir á skrifborðinu til að tryggja að ég myndi þurfa að striplast fram undan sænginni til að þagga niður í honum. Það tókst.

(Merkilegt að ég get stælast til að skrifa sjálfspíningarhvöt með tveimur í-um, en það að skrifa það með kvöt í stað hvöt er mínum textalegu velsæmisheilastöðvum um megn.)

Fyrir vikið gat ég leyft mér að kíkja í gömul blöð yfir morgunverðinum og kom ekki nema fimm mínútum of seint á kontórinn.

Svo er ég búinn að sitja við í dag og búa til gagnagrunnstengda vefsíðu sem við ætlum að nota í prófununum, prófaranum sjálfum til halds og trausts. Þar sláum við inn nafn og netfang tilraunakanínunnar, síðan birtast fyrirmæli prófananna skref fyrir skref og það skráist sjálfkrafa niður í gagnagrunn hversu lengi viðkomandi er að leysa viðfangsefnið. (Þ.e. prófarinn þarf að smella á [start] og [stop] en annað skráist sjálfkrafa.)

Ég held mig minni rétt að það hafi verið Egill Rúnar sem fyrst kynnti fyrir mér þá hugmynd að hafa heilu vefsvæðin í einu skjali (acta.is vefurinn er t.d. byggður þannig, auk þess sem raunverulegar síður hér á thorarinn.com eru mun færri en halda mætti). Brasið mitt í dag er það sömuleiðis; með fullt af iffum og földum gildum til að leiða allt til viðeigandi niðurstöðu.

Það þurfti reyndar smá átak til að komast í gírinn að skrifa PHP kóða aftur, dollaramerkin á undan breytunöfnum komu ekki alveg jafn sjálfkrafa og þau gerðu áður en ég lagðist í ActionScript forritunina. Ekki bætti svo úr skák að á dönskum lyklaborðum er ¤ þar sem dollaramerkið ætti að vera. Ég meina, síríöslí hver notar eiginlega ¤ ?

Skatts

Reyndar birtist ákveðinn fyrirboði að þessum dugnaði um helgina, þegar ég sá að við slóðaskapinn í skattskýrslumálum mátti ekki lengur búa; hakkaði varanlega veflykilinn minn í fyrstu tilraun og sótti snarlega um frest.

Hefur fátt gerst í þeim efnum síðan.

Smádrömu

Annars er það af lokaverkefninu að frétta (eins og ýjað hefur verið að) að okkur hefur miðað hægt upp á síðkastið og örlítils efa gætt um hvort verkefnið sé jafn brilljant og við héldum á tímabili.

Reyndar held ég að slíkar efasemdir séu fastur fylgifiskur allra verkefna af þessum skala og það mun örugglega lyftast á okkur brúnin þegar við förum að byrja að tilraunast.

E. hafði varað mig við því áður en við byrjuðum að hún ætti það til að vera töluverð dramadrottning. Það hafa enda komið upp tilvik þar sem viðbrögð hennar hafa verið heldur úr takti við veruleika mála eins og ég upplifi hann, en ég held að ég og mitt jafnaðargeð munum alveg höndla það að halda geðheilsu hópsins í jafnvægi.

Mitt yfirþyrmandi karlmannlega eðli ætti að vera hollt mótvægi við huxanleg smátelpuleg tilþrif E.

Ferðaplön

Ég er búinn að bóka flug heim í lok apríl, tylli tá á klakann seinnipart fimmtudagsins 20. apríl og hefst aftur á lopt sunnudaginn 30.

Vinum og vandamönnum er bent á að upplagt er að efna til brönsa, pókerkvölda og annars félagslegs athæfis þessa tíu daga.

Menn verða svo bara að eiga það við sjálfa sig hvort þeir bjóða mér með eða ekki.

Síví silfurfægð

Eins og ég hef nefnt sé ég fyrir mér að reyna að hnusa aðeins af íslenska vinnumarkaðinum í ferðinni. Ég hef svo sem ekki stefnt á að fara í hrein og klár atvinnuviðtöl (enda kannski fullsnemmt), en í síðasta sunnudagsblaði Moggans var atvinnuauglýsing sem kitlar forvitnina.

Ég er því að stússast í því að dusta rykið af ferilsskránni og enska sívíinu og uppfæra þau systkin aðeins.

Það er annars fróðlegt að þótt skjölin séu eins uppbyggð á báðum tungumálum verður það íslenska næstum ósjálfrátt öðruvísi. Þar munar kannski um að maður getur gengið út frá því að nöfn fyrirtækja sem maður hefur unnið verkefni fyrir séu kunnuglegri fyrir íslenska lesendur, en það eitt og sér útskýrir samt ekki hversu ólíkar útgáfurnar verða.

Sérfræðingar í eigins falboðningu eru eindregið hvattir til að hnippa í mig ef þeir reka augun í eitthvað sem betur mætti fara.

En ég stefni sem sagt að því að prófa að sækja um eins og eitt starf í vikunni og sjá hvaða viðbrögð ég fæ.

Styrksníkjur

Allir bankarnir reyna að slá sér á brjóst með því að styrkja fátæka námsmenn (og nota eflaust til þess hagnaðinn af yfirdrætti námslánareikninganna allra hinna sem ekki fá námsstyrk). Ég hef nokkrum sinnum á mínum skólaferli sótt um svoleiðis styrk en aldrei fengið.

Hins vegar hef ég séð nöfn fólks sem ég kannast við og veit að er til í alvörunni þegar tilkynnt er um úthlutanir, þannig að ég þykist viss um að alvörufólk eigi séns á að krækja í svona styrki.

En hvernig?

Nú er "minn banki" að auglýsa eftir umsóknum og slengir fram tilkomumiklu eyðublaði sem maður á að fylla út á vefnum. Þar biðja þeir um að maður (fyrir utan þetta standard; nafn, kennitölu og stjórnmálaskoðanir) fylli út:

  • Námsferill og einkunnir
  • Framtíðaráform
  • Starfsreynsla
  • Áhugamál
  • Störf að félagsmálum
  • Annað

Hvernig í ósköpunum fara menn svo að því að velja hver á að fá styrk? Hvað vegur hæst?

Einkunnirnar mínar hafa verið í sóma gegnum tíðina, svo sem ekki í efstu lögum stjarnhvelfingarinnar en þó þannig að ég þykist yfirleitt vera í ca. efstu 5 prósentunum. Þær hafa þó ekki dugað mér til að kræja mér í styrk hingað til.

Er kannski miðað við þrautseigju? Aukast líkurnar ef maður sækir um samviskusamlega á hverju ári? Þá er ég úr leik, ég tek yfirleitt ekki eftir þessum auglýsingum nema einu sinni á hverju skólastigi og þetta er örugglega síðasti sjénsinn minn í bili.

Skiptir orðalag í umsókninni máli? Á maður að slá um sig með skrúðmælgi og ritfimi eða vera stutt- og gagnorður?

Framtíðaráform? Á ég að þora að viðurkenna að mig langi í gott djobb eða á ég að feika áhuga á að starfa með fátækum á Indlandi?

Starfsreynsla? Þá komast þeir að því hvað ég er búinn að vera lengi á vinnumarkaðnum og ætti í raun að eiga hellings péning. Eða er það styrkur að hafa lagt sitt af mörkum í veltu þjóðarbúsins?

Áhugamál? Wörldpís og hagsæld um allar sveitir?

Störf að félagsmálum? Ég fékk náttúrulega viðurkenningu frá Tryggva skólameistara fyrir námsárangur og störf að félagsmálum (sem Óskar Örn hefur enn ekki fyrirgefið Tryggva að hafa ekki veitt sér líka). Á ég að reyna að slá mér upp á áralöngu og farsælu starfi með Hugleik? Marghrósað leikskáld? Eða eru það kannski jakkafataklæddir verkogviðskiptafræðingar sem fyrirlíta menningarsnobb sem úthluta styrkjunum? Telst það með að hafa gefið út eigið vélritað og handteiknað blað á viðkvæmu þroskastigi í grunnskólanum? Fredagsbarinn?

"Annað"? Er ekki löngu komið nóg af áhyggjum og spurningum, hvað viljiði meira?

(Ábendingar frá lesendum vel þegnar.)

m-Yndarlegur

Í tilefni af því að brátt birtist í margverðlaunuðu íslensku fagtímariti grein sem byggir á 16 vikna verkefninu mínu (sem vonandi verður birtingarhæft hér innan mjög skamms) og tilvitnanabútum í mig (og sumir þeirra eru í alvörunni eitthvað sem ég sagði, hinir eru samt yfirleitt betur orðaðir) var ég krafinn um mynd af mér.

Það þurfti því að draga fram myndavélina og glottið. Eftir að hafa skrúfað niður í brennivínsroða á vöngum og nefi, teygt aðeins strigann og skellt smá sepíu yfir sviðið er afraksturinn þessi.

Ég sjálfur

Ég þarf líklega að hafa á tiltækum takteinum mynd af mér þegar ég helli mér í umsóknarferli (þótt ég ætli að reyna að forðast að senda bankanum mynd af mér - þeir geta bara skoðað debetkortamyndina). Það er samt spurning hvort þetta er rétta myndin.

Hún gefur að vísu rétta mynd að því leyti að ég er yfirleitt með brodda og glott, en kannski vilja ráðarar að maður sé nýrakaður og haldi nokkurn vegin haus.

Skoðanir á því? Einhver? Bueller?


< Fyrri færsla:
Loxins, loxins
Næsta færsla: >
Myndir af herberginu
 


Athugasemdir (4)

1.

Óskar Örn reit 22. mars 2006:

Hvaða helvítis bull er þetta með mig og Tryggva meistara!!?? Kannast ekki við að hafa verið að velta mér upp úr þessu. Ef svo var þá er ég a.m.k. löngu búinn að gleyma því og þ.a.l. fyrirgefa honum.
Heimta ógildingu ummælanna, miskabætur, áfallahjálp og stóran ís úr vél með súkkulaði og Dajmkúlum!

2.

Þórarinn sjálfur reit 22. mars 2006:

Ég skal fallast á að þú sért búinn að gleyma þessu (það var ég reyndar líka búinn að gera).

Að öðru leyti stend ég við þessi ummæli og þú verður að draga mig fyrir dómstóla viljir þú fá aðra niðurstöðu í málið.

3.

Margrét reit 22. mars 2006:

Þegar ég sé þess mynd heyri ég óma "hey, how are you doing?"... veit ekki hvort það er gott eða slæmt... humm

4.

Alex reit 23. mars 2006:

Mér finnst þetta bara ansi góð mynd.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry