Soldið duglegur, aftur

Í morgun endurtók ég afrek gærdagsins og hafði mig fram úr rúminu við fyrsta hanagal.

Við E. prófuðum að testa hvort annað og komumst þannig nær því að átta okkur á því hverju við viljum sverma eftir í komandi tilraunum.

Það kom reyndar í ljós meinleg villa í því sem ég hafði gert í gær - ég hafði flýtt mér heldur mikið í lokatiltektinni og tímatökuvirknin farið úr skorðum. En það var ekki nema nokkurra mínútna verk að græja það.

Eftir hádegið sat ég svo sveittur við að byggja meiri sveigjanleika inn í kerfið, þannig að við getum blandað saman ólíkum gögnum og mismunandi virkni.

Það gekk upp eins og að var stefnt, þannig að ég get ekki annað en verið ánægður með afrakstur dagsins.

Á morgun eigum við svo fund með kennaranum og það verður fróðlegt að sjá hvort það verður til þess að setja allar okkar hugmyndir í loft upp (eins og raunin hefur verið með flestalla fundina hingað til).

Dugnaðurinn náði þó ekki nægilega langt til að ég færi út að hlaupa þegar ég yfirgaf skólann. Þess í stað friðaði ég samviskuna með því að henda í vélar.

Ekki lengur lost

Ég er þessa dagana í sjálfskipuðu sjónvarpsbindindi (og þá passar akkúrat að innheimtuseðill vegna afnotagjalda skýtur upp kollinum í póstkassanum). Á miðvikudögum væri ég venjulega að búa mig undir að horfa á Lost, en ég er formlega hættur að fylgjast með þeim þætti.

Mig minnir að það hafi verið í fjölmiðlapistli í Mogganum fyrir nokkru að viðkomandi skríbent endurómaði hugsanir mínar. Lost er einfaldlega orðin allt of mikil sápa til að maður nenni að horfa á þáttinn.

Það er greinilegt á öllu að höfundarnir eru að gæta þess að leiða ekkert til lykta og passa að áhorfendur fái helst engin svör við lykilspurningum svo hægt verði að teygja lopann.

Þegar sería tvö byrjaði hélt ég að nýju persónurnar yrðu notaðar til að drífa áfram plottið, en þvert á móti virðist sem það sé ekkert plott lengur - bara þræðir í allar áttir sem bannað er að fikra sig eftir nema löturhægt.

Hins vegar neita ég því ekki að það er freistandi að kveikja á imbanum til að fá smá fix af enska boltanum...


< Fyrri færsla:
Myndir af herberginu
Næsta færsla: >
Orð dagsins
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry