Villuleit og útihlaup

Það kom í ljós í morgunsárið að það sem ég hafði verið að brasa við í gær og hélt að virkaði eins og að var stefnt, gerði það hreint ekki.

Í fyrstu leit út fyrir að þetta væri eitthvað sem gerðist bara á sumum tölvum, en það kom í ljós mér til mikils léttis að ég hafði bara ekki verið að skoða rétt tilvik á minni tölvu. Ekki bætti úr skák að gagnaþjónninn sem skjölin eru á hrundi (akkúrat daginn sem allir kerfisstjórarnir voru á einhverju semínari úti í bæ). Mér tóxt þó að afrita skrárnar meðan þjónninn var bara hálfhruninn þannig að þetta kom ekki teljandi að sök.

Það er kannski rétt að taka fram að worst case scenario skv. tölvupósti frá heimkvöðnum kerfisstjóra er að endurreisa þurfi gagnaþjóninn af síðasta öryggisafriti. Sem er gott, því þarna er slatti af dóti sem ég vil síður missa.

Ég gat því hafist handa við að leita að villunni og þóttist fljótlega vera kominn með tilgátu að því hvað væri að stríða mér. Þar reyndist ég hins vegar vera að gelta upp eftir kolröngu tré (*) og lækningatilraunir gerðu bara illt verra.

Það var svo ekki fyrr en undir lok dags að ég komst að því í hverju vandinn fólst. Eins og alltaf reyndist það vera algert smáatriði sem velti hlassinu og bara tilviljun að ég gerði hlutina á þann hátt sem olli vandanum.

Þetta er auðvitað óskiljanlegt öllum nema sjálfum mér, en það verður að hafa það.

Góður fundur, ma'r

Við funduðum svo með kennaranum okkar eftir hádegið og vorum sammála um að þetta væri einn af bestu fundunum sem við höfum átt með honum.

Þar spilaði kannski inn í að hann var á leið til Bandaríkjanna strax eftir fundinn og gætti þess því að halda tempói og leita ekki út á hliðarspor.

Í stuttu máli var hann nokkuð ánægður með það sem við höfðum sent honum og þær hugmyndir sem við viðruðum. Hann kom líka með nokkrar góðar ábendingar varðandi skipulagningu og framkvæmd tilraunanna, sem við komum til með að styðjast við.

Eftir fundinn lagðist ég svo aftur í villuleitina og hún entist mér út daginn. Þrátt fyrir að í lok dags hafi ekkert gerst annað en að það sem ég hélt að væri komið í gagnið í gær væri nú komið þangað, auk fundarins með kennaranum var ég samt ánægður með daginn.

Kannski þarf bara svona lítið til að gleðja mig.

Og svo var hlaupið

Þegar ég kom heim tók ég nokkrar mínútur í láréttri stöðu (og stóð sjálfan mig að því að vera í huganum farinn að endurinnrétta íbúðina á Flyðrugrandanum - undirmeðvitundin að senda skilaboð?) og skellti mér svo út að hlaupa.

Ég hélt mig við púlsbremsu doktor Óskars, en framan af hlaupinu var ég helst á því að kardíóvaskúlarið mitt hefði tekið framförum í hléi undanfarinna vikna, þar sem mér fannst ég vera að hlaupa mun rösklegar en áður - þar munar þó kannski mestu að í stað þess að miða við 150 slög reyndi ég að halda mig milli 150 og 155, sem þýddi að 157 var raunverulegt hámark.

Púlsinn snarféll svo allt í einu niður í 98, en það stafaði af því að púlsmælirinn var farinn að síga niður bringuna á mér. Ég virðist með lægri púls á kviðnum.

Ég fór annars þennan ca. 5 kílómetra hring á 30 mínútum sléttum og varð ekki var við að ellilífeyrisþegar hafi skeiðað framm úr mér svo neinu nemi. Þrekið var prýðisgott, þótt lungun hafi örlítið verið farin að kvarta undir lokin. Það var þó líklega aðallega vegna kuldans, en þótt heldur sé farið að hlýna var hitastigið varla nema 3-4 gráður núna seinnipartinn.

Og eftir þennan dugnað get ég farið á fimmtudagsbarinn með góðri samvisku. Skál!


< Fyrri færsla:
Orð dagsins
Næsta færsla: >
Sá á kvölina...
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry