Heimferðardagskrá lítt tekin að skýrast
27. mars 2006 | 0 aths.
Ég sá á færslu Siggu Láru frá í gær að það verður sitthvað Hugleixt í gangi þarna í lok apríl:
Og svo ég plöggi aðeins hvað er meira á döfinni, þá er frumsýning á leikritinu Systur eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar í Möguleikhúsinu þann 12. apríl, annað mánaðarlegt sem mun samanstanda af einþáttungum í apríllok og í maí er stefnan að vera með tónlistardagskrá í Þjóðleikhúskjallaranum sem mun samanstanda af því besta af því besta í tónlistarsögu Hugleix.
Ég vonast til að ná að sjá hvorttveggja (Systur og apríldagskrána), en held samt að mér sé hollast að halda því leyndu fyrir SigguLáru og Togga að ég verði huxanlega heima þegar einþáttungadagskráin verður í Þjóðleikhúskjallaranum. Annars væru þau vís til að reyna að tæla mig til að endurtaka hlutverk Didda í bleyjurólunni. Reyndar hafði ég gefið undir fótinn með það á fundi fyrr í vetur, en sé ekki fram á að það hafist í þessari heimsókn.
(Þó ekki sé nema vegna þess að þetta mánaðarlega er að mér skilst á fimmtudögum og sunnudögum, og ég kem akkúrat á fimmtudegi og fer á sunnudegi, þannig að...)
Erfiður morgun
Þetta er annars búinn að vera erfiður morgun. Ég sofnaði seint í gær (var bæði lítið syfjaður og svo var mín innri ValaMatt á fullu að huxa um húsgögn og húsbúnað (sem er í sjálfu sér skelfileg tilhuxun) langt fram eftir nóttu) og þegar klukkan hringdi í morgun braut ég regluna sem ég hef reynt að koma mér upp undanfarið og skreið aftur undir sæng með snús.
Þegar ég sá að við svo búið mátti ekki lengur standa (liggja) slökkti ég á snúsinu, sendi E. SMS um að ég yrði ca. 20 mínútum of seinn og steinsofnaði.
Það vildi svo skemmtilega til að ég vaknaði aftur um það leyti sem ég hafði seinkað komu minni til; 20 mínútum eftir að ég hefði átt að vera mættur.
E. tók þessu þó vel, hafði sjálf mætt seint og við höfum í morgun geyspað í kór horfandi út á gráa og dugnaðardempandi kaupmannahafnarþokuna.
Annars má ég ekkert vera að þessum dagbókarskrifum, ég er að forrita það sem vonandi verður síðasta lagfæringin á tilraunaumhverfinu okkar. Á morgun ætlum við svo að byrja semja verkefni og leiðbeiningar fyrir prófanirnar sjálfar og stefnum að fyrsta rennsli eftir hádegi á miðvikudag.
Jamm.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry