Vasast í verkefninu

Lífið gengur sinn vanagang. Ég sest niður á skrifstofunni á morgnana og hamra á tölvuna fram undir síðdegið. Þá rölti ég heim og kveiki á tölvunni...

Þökk sé fikt- og föndurgenunum mínum á ég það til að gleyma mér í einhverju dundi fyrir framan skjáina, en get þó talið mér það til tekna að vera næstum alveg hættur að horfa á sjónvarp (þar til reyndar í kvöld).

Af verkefninu

Við funduðum með verkefnakennaranum okkar í gær, þar sem við létum hann fara í gegnum testið eins og við höfðum huxað okkur það. Eins og venjulega reyndist hann fullur af hugmyndum og við erum búin að vera að vinna í því síðan að hrinda þeim í framkvæmd.

Hann kom með nokkrar virkilega góðar athugasemdir, en í fyrstu leist mér ekki á hversu mikið mál það yrði að hrinda þeim í framkvæmd. Seinnipartinn í dag tókst mér hins vegar að klára að framkvæma þær breytingar sem hann stakk upp á, þótt enn sé eftir að fínpússa aðeins útlitið þá er búið að leysa allt það tæknilega.

Með því að fara ekki alveg "flottustu" leiðina (sem hefði verið að láta Flash tala beint við gagnagrunninn) var hægt að leysa þetta með viðráðanlegum hætti. Nú er bara að slípa til það sem við vissum fyrir að þyrfti að laga og þá erum við tilbúin að hefja prófanir.

Að vísu verður það ekki á morgun þar sem E. er að fara í dáleiðslumeðferð og á föstudaginn þurfum við að prófa kerfið á okkur sjálfum.

Síðan fer að bresta á með páskafríi, en við hljótum að geta fundið tíma til að framkvæma þessi 12 test sem við gjarna viljum í þessari umferð.

Leikjahönnun

Í morgun gerðum við vinum okkar Lydiu og Martin greiða og tókum þátt í smá workshop með þeim til að styðja þau í þeirra mastersverkefni.

Þau eru að fást við leiki sem kennslutæki og eru að hanna "mission" eða "quest" í tengslum við leik sem verið er að hanna hérna í skólanum. Leikurinn snýst um að upplifa Ísrael/Palestínu-konfliktinn og þeirra verkefni mun snúast um hvernig hægt er að byggja kennslu í efstu bekkjum grunnskóla á quest innan ramma leiksins.

Þetta var bara nokkuð skemmtilegt og ég held að við höfum komið með margar spennandi hugmyndir og sumar þeirra munu örugglega skila sér í hinu endanlega verkefni.

Vasast

Nú hefur bæst meiri kveðskapur við Vasavefinn og ég er núna búinn að bæta rétt tæplega 180 ljósmyndum frá vasavikunni í myndasafnið.

Þegar ég var í gærkvöldi að opna fyrir myndirnar sem ég hafði fyrir nokkru hlaðið inn fyrir pabba, en hafði dregist að setja myndatexta við, gat ég ekki á mér setið að fara að fikta aðeins.

Ég nördaðist í skránum sem tilheyra myndakerfinu, lét þá valmöguleika sem ég ekki nota (athugasemdir, einkunnir mynda, o.s.frv.) hverfa og sló valmöguleikunum saman í eina línu. Það fór í taugarnar á mér að geta ekki, jafnvel á skjá með þokkalega upplausn, séð bæði myndina og myndatextann án þess að þurfa að skrolla.

Nú ætti það að vera hægt, svo lengi sem myndirnar eru ekki á háveginn.

Segið svo að það sé ekki til neins að kunna smá PHP.

Svo þurfti ég auðvitað að bæta inn lógóinu mínu og til þess þurfti ég að setja það í rétta stærð og í lit sem passaði betur.

Og svo var allt í einu kominn háttatími.

Fleiri aprílgöbb

Fyrir þá sem hafa sérlegan áhuga á (veflægum) aprílgöbbum má benda á þennan lista yfir aprílgöbb 2006 á Wikipedia.

T.d. þykir mér 1. apríl útlitið á Slashdot geysikrúttlegt.

OMG!!! Ponies!!!

Thorarinn.com virðist þó hvergi getið í þessum lista...

Fleiri smábreytingar

Ætli það hafi ekki farið framhjá flestum í aprílgabbsstússinu, en ég fiktaði aðeins í forsíðunni í leiðinni.

Tenglalistinn færðist fram á forsíðuna og nokkur ný nöfn bættust í safnið. Reyndar sýnist mér í tísku núna á sérstaklega blogspot vefjum að sleppa alveg tenglalistum, þannig að ég er að synda á móti straumnum.

Ég fiktaði líka aðeins í humans/robots dæminu mínu (sem ég hef reyndar grun um að enginn kíki á nema ég) þannig að það tekur sleppir núna að mæla umferð á aprílgabbssíðuna frá í fyrra sem google er enn sannfærður um að sé óþrjótandi uppspretta mynda af glæsilegum træbal tattúum.

Umferðartölurnar frá og með 1. apríl ættu þar með að lækka töluvert, en um leið ætti að vera meira að marka þær.

Sjálfur er ég með oggulítið samviskubit yfir því hvernig ég græjaði þessa lagfæringu, breytingin á upplýsingasöfnuninni er ekki alveg eins pró og hún gæti verið, en það tekur enginn eftir því nema ég.

Svo ætla ég að sjá hvort mér tekst ekki að tengja inn 16 vikna verkefnið mitt frá síðustu önn þegar ég verð búinn að vista þessa færslu.


< Fyrri færsla:
Monní meiks ðe vörld gó ránd
Næsta færsla: >
Fuglaflensufettisið hjá mbl.is
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry