Afmælisveislan

Myndirnar með þessum pistli eru sóttar í myndaalbúmið, þær eru þjappaðar saman til að passa á síðuna, en hægt er að opna þær í fullri stærð með því að smella á þær.

Eftir að hafa verið á þönum og stússi mestallan daginn gleypti ég í mig pissu frá vinum mínum handan við götuna, skolaði af mér mesta skítinn og var kominn niður í sal skömmu eftir að brast á með uppgefnum starttíma, hálfníu.

Mér hafði sýnst kertaljósin eintóm (þótt kósí væru) vera fulllítil lýsing og kippti þess vegna með mér náttlampa til að stilla upp innan við barborðið. Ég hafði séð fjöltengi uppi í skáp og dró það fram til að geta bæði verið með iPodinn og lampann í sömu innstungunni (vildi hafa straum á iPodinum til að geta leyft mér að hafa síkveikt á skjánum).

Illt í ebni

Þegar ég stakk fjöltenginu í samband kom blár blossi og nærstaddar konur og börn ráku upp ramakvein (eða hefðu kannski gert ef einhver gestur hefði verið mættur). Magnarinn hljóðnaði snarlega og ísskápspressan gaf upp öndina.

Nú voru góð ráð dýr, partíið að bresta á og hvorki tónlist né ísskápur í starfhæfu ástandi. Loftljósin virtust þó vera á öðru öryggi því þau var hægt að kveikja. Ég leitaði dauðaleit að rafmagnstöflu en fann ekki, svo ég yfirgaf lókalið, hljóp upp á herbergið og fann símanúmerið hjá þeim sem sér um útleigu á salnum.

Fjöltengið illa

Fjöltengið sem olli uppnáminu

Sem betur fer var hann heima og gekk í málið. Það kom samt í ljós að hann var ekki með lyklavöld að herberginu þar sem rafmagnstaflan er og að hans fyrsti tengiliður var ekki heima, en hann ætlaði að leita að lykilmanni á næsta kollegíi.

Á meðan tóku gestirnir að tínast að og þegar Emilie var farin að gera sig líklega til að bresta í söng og var byrjuð á "Kumbaja" ákvað ég að grípa til plans B og sækja laptopinn og hátalara og reyna að búa til hávaða af rafhlöðunni þar til rafmagnið kæmist aftur á.

Það stóðst svo á endum að þegar ég var búinn að sækja tölvuna og myndaðist við að hækka í litlu hátölurunum mínum fóru ljósin að blikka þegar þeir meistararnir prufuðu sig áfram með að skipta út öryggjunum. Það tókst fljótlega og iPodinn gat tekið að sér tónlistarflutning eins og til var ætlast.

Ég rölti aftur upp með tölvuna og sótti í leiðinni "hollustusnakkið"; niðurskorna hunangsmelónu og ídýfur sem ég hafði ekki haft ráðrúm til að bera niður fyrr.

Gjafaflóð

Ég hafði í útsendum boðspóstum færst undan því að gestir kæmu með gjafir, en flestir kusu að virða það að vettugi. Auk dansks (fransks?) páskaeggs og virkilega forvitnilegrar bókar var ákveðið vínandaþema yfir gjöfum.

Mér áskotnuðust þrjár spennandi rauðvínsflöskur (og þar þykir mér Sigló vera forvitnilegasta nafnið, auk þess sem á flöskuna er letrað "Complexity simlifier (231 mg/L) Opnist í neyð"). Vínið virðist þó ættað af Spánarlöndum frekar en norðurlandinu.

Bjórsnobbið mitt hefur greinilega líka spurst út því ég fékk hvorki meira né minna en 9 "special" bjóra, hver öðrum forvitnilegri og engan þeirra hef ég smakkað áður.

Gjafabjórarnir

Gjafabjórarnir og iPodinn, skafflöskuna frá Sigga og Huld er Elvis búinn að opna

Nabnaleikurinn ógurlegi

Til að ýta undir að gestirnir mingluðu hafði ég kokkað upp smá samkvæmisleik.

Hann fólst í því að allir fengu vel þekkt nafn á bakið og áttu að komast að því hvaða persóna það væri með því að spyrja aðra gesti já/nei spurninga. Tvistið lá í að gestir máttu bara spyrja fólk sem það hafði ekki hitt áður og bara þriggja spurninga í einu.

Þetta gekk í raun vonum framar og vakti almenna lukku. Sumir lentu þó í smá brasi og þurfti á auka vísbendingum að halda.

Superman og kronprinsesse Mary

Súperman spjallar við Maríu krónprinsessu

Martin sem fékk Janis Joplin var á því eftir nokkrar spurningaumferðir að þetta væri einhver amerísk söngkona sem hann ekki þekkti nafnið á. Ég fullyrti að hann myndi þekkja nafnið um leið og hann heyrði það (enda er hann tónlistargrúskari) og hvatti hann til að halda áfram að reyna. Þegar honum var svo lox sagt svarið kom hann af fjöllum.

Mjög óvísindaleg örtilraun leiddi í ljós að þrír af þremur aðspurðum Íslendingum þekktu Janis, en enginn þriggja aðspurðra Dana.

Kom mér vissulega á óvart.

Helstu persónur og leikendur má sjá í myndasafninu.

Gestirnir og Elvis yfirgefa bygginguna

Þegar nálgast tók miðnættið tóku fyrstu gestirnir að tínast heim, enda þurftu sumir að ná lestinni upp í sveit og aðrir voru farnir að geyspa ótæpilega.

Sem óvænt skemmtiatriði tók Mary krónprinsessa (áður þekkt sem Huld) sólódans við undirleik Flashdance lagsins og fékk áhorfendur til að súpa hveljur með tilkomumiklum byltum. Hún fékk síðan spúsa sinn Georg W. Bush (áður þekktur sem Siggi) með í jazzballettangó sem var litlu tilþrifaminni.

Allir komust þó heilir frá þessu sprikli að því best er vitað.

Einn var það þó sem ekki slapp óskaddaður frá teitinu.

Ég skartaði Elvis-bjórglasi sem ég hafði fengið í jólagjöf og sló þannig um mig innan um gestina sem drukku ýmist beint úr flöskum/dósum eða úr plastglösum. (Það barst í tal að ég hefði líka getað verið með glimmerskreytta leikskólakórónu til að ná fram svipuðum áhrifum).

Undir lok kvölds var Elvis skilinn eftir rétt sem snöggvast án eftirlits á völtu borði við hlið skafmiðabjórflösku sem ég hafði fengið að gjöf og var nýbúinn að skafa sundbolinn af. Það virtist hafa reynst sjálfsaga konungsins um megn og þegar við var litið lágu hann og flaskan léttklædda í gólfinu. Honum hafði tekist að ná tappanum af henni en það reyndist honum dýrt og var honum vart hugað líf eftir byltuna.

Önnur óhöpp urðu ekki um kvöldið og allir héldu að því er ég best veit sáttir heim og ég skellti í lás rétt fyrir þrjú.

Sunnudagur

Þegar ég vaknaði í morgun var ekki laust við örlítil einkenni morgunsins eftir kvöldið sem undan fór, en eftir að hafa dormað fram að hádegi og borðað morgunmat var heilsan prýðisgóð.

Tiltekt og þrif gengu svo ágætlega, þótt það væri vissulega bras í að drösla öllu dótinu aftur upp og pirrandi að hafa ekki vask á staðnum.

Þegar ég var að klára að ganga frá salnum var sólin tekin að skína og ég alvarlega að spá í að fara út að hlaupa. Ég átti líka gangþrif helgarinnar og þegar þau voru búin var hins vegar komin hellirigning þannig að ég lét hlaup eiga sig (enda búinn að taka vel á því með moppuna).

Gróði?

Það er spurning hvort þetta reynist ekki bara gróðaævintýri þegar upp er staðið. Húsaleigan varla í nös á litlum ketti (fimmtíukall) og eftir að hafa tæmt ísskápinn niðri í salnum dröslaði ég hingað upp 17 bjórum og 4 rauðvínsflöskum.

Og mig grunar að þessir bjórar séu örlítið verðmeiri en sem svarar 112 krónunum sem kassi af Odin bjór kostaði úti í Daglig Brugsen.

Það er verst að bjórarnir komast ekki allir fyrir í ísskápnum mínum og mig fer að vanta vínrekka fyrir rauðvínið ;)

Nú þykist ég hins vegar vera búinn að velja sitt lítið af hverju í bjórunum til að kæla (einn stout, einn dark ale, o.s.frv.) og þarf bara að vera duglegur að tæla gesti í heimsókn til að hjálpa mér með rauðvínið (heilflaska er í það mesta fyrir mig einan).

Ég fer að minnsta kosti létt með að halda mér blautum langpartinn út vikuna ef þörf krefur.

Tekjur af sölu tómra áfengisíláta dugðu svo akkúrat fyrir nautasteik sunnudagskvöldsins.


< Fyrri færsla:
Undirbúningur smundirbúningur
Næsta færsla: >
Smá pløgg
 


Athugasemdir (2)

1.

Inga/Stalín reit 11. apríl 2006:

takk kærlega fyrir mig. ég held ég hafi bara aldrei á ævinni séð jafn glæsileg tilþrif á dansgólfinu eins og hjá prinsess Mary...

2.

Þórarinn sjálfur reit 11. apríl 2006:

Það er vissulega rétt, þetta var einhvers konar frístæl með fjölbragðaglímuívafi hjá prinsipessunni. Held ég verði að taka undir að ég hafi aldrei séð neitt þessu líkt.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry