Við upphaf páskahelgar

Við erum sem sé byrjuð að gera "alvöru" tilraunir með vinum og kunningjum að prófa tilraunaumhverfið okkar. Við fengum tvo fyrstu þátttakendurna á þriðjudaginn og eftir daginn í dag erum við búin með 9. Við ætlum svo að klára þessa umferð með því að fá 3 til viðbótar á þriðjudaginn og einhendum okkur þá í að vinna úr tölunum sem við erum að safna saman.

Ég er reyndar byrjaður að setja upp Exceltöflurnar fyrir þetta allt saman (52 verkefni fyrir hvern þáttakanda þar sem við mælum 1-3 breytur í hverju verkefni). Með því að setja hvern þátttakanda í sér "sheet" og ábendingum úr Excel-hjálpinni sýnist mér að þetta verði auðveldara en ég hélt.

Því er hins vegar ekki að leyna að formúlur sem reikna meðaltal og staðalfrávik í safni tímamælinga með allt að sex verkefnum fyrir hvern einasta þátttakanda (þ.e. öllum verkefnum af ákveðinni gerð) verða svolítið langar og auðvelt að gera innsláttarvillur sem svo er nærri ómögulegt að finna.

Björg í borginni

Fyrrum vinnufélagi minn, Björg, er í borginni yfir páskana og hnippti í mig rétt áður en hún flaug út. Ég mælti mér mót við hana og fylgisvein hennar á Ráðhústorginu eftir lok "vinnu" á miðvikudaginn.

Sem sérstakur kunnáttumaður um öldurhús borgarinnar (hóst) dró ég þau með mér inn á krá sem ég hef aldrei séð áður, en bjórinn var góður og ekkert yfir kránni að kvarta.

Þar slúðruðum við drjúga stund, aðallega ég reyndar að rekja úr henni garnirnar um breytingar í Skúlatúninu og hver væri nú kominn hvert.

Við kvöddumst svo um sjöleytið og ég strætóaðist heim. Ég er ekki frá því að þetta hafi verið óvenju hitaeiningaríkur bjór, því mér fannst hitastigið úti mun skaplegra þegar ég beið eftir vagninum heldur en hafði verið á leiðinni uppeftir.

Hinum megin við götuna stóð maður og beið eftir strætó sem vakti athygli mína. Hann var reyndar aðeins of langt í burtu til að hægt væri að staðfesta aldur hans, en ég hefði skotið á að hann hafi verið kringum þrítugt.

Hann átti greinilega við einhvern stoðkerfissjúkdóm að stríða, því hann var allan tíman með hökuna niðri í bringu. Til að svipast um eftir vagninum þurfti hann því að sveigja hrygginn aftur á bak.

Þetta var mjög skrýtin sjón, sérstaklega þar sem að öðru leyti virtist ekkert ama að honum. Þegar hann stjáklaði fram og til baka við strætóstandinn var mjög spúkí að horfa á eftir honum, þar sem maður sá bara kragann á jakkanum en höfuðið vantaði alveg.

Meinhægt miðvikudagskvöld

Þrátt fyrir að vera kannski í ívið betri bjóræfingu en oft áður er því ekki að neita að ég fann aðeins fyrir þessum lítra af Carls Special á fastandi maga og ekki laust við ákveðna löngun í að bæta fleirum í safnið.

Hins vegar var vissi ég ekki af neinu djammi og frekar en að fara að leggjast í eitthvað kojufyllerí lét ég mér nægja gos með kvöldmatnum.

Ég veit að ég er hættur að fylgjast með Lost, en eftir að hafa "slysast" til að horfa á þátt miðvikudagsins gæti verið að ég þurfi að endurskoða þá stefnu - það örlaði á forvitnilegri spennu í lokin (tengt nýfundnu persónuskilríki fyrir þá sem eru að fylgjast með framvindunni beint frá USA).

Fleiri afmælismyndir

Inga Rún náði nokkrum myndum af danstilþrifum Huldar og Sigga í afmælinu mínu, þótt þær nái ekki að miðla nema brotabroti af stemmningunni eru þær samt þess virði að kíkja á þær; hér, hér og hér.

(Já ég veit að ég er að brjóta allar mínar eigins reglur um að ekki eigi að nota "hér" sem tenglatexta - en ef ég geri það viljandi má ég það sko alveg!)

Fimmtudagurinn sem fór sem hann fór

Við tókum okkur svo frí á fimmtudeginum og ég var með óljósar hugmyndir uppi um að gera eitthvað sniðugt, fara út að hlaupa eða í hjólreiðatúr.

Þegar ég vaknaði var hins vegar slagveðursrigning og með eindæmum óspennandi veðurfar að flestu leyti.

Þess í stað skreið ég aftur undir sæng og kláraði "101 dagur í Bagdad" sem ég hef verið með í láni frá Jónínu. Vissulega forvitnileg frásögn, en það fór afskaplega í taugarnar á mér hvað hún var illa þýdd - bæði hvað varðar klúðurslegt orðalag (allt að því barnalegt) og átakanlegan þekkingarskort á hernaðarhugtökum.

Það var t.d. greinilegt að þýðandinn hafði ekki hugmynd um hvað átt væri við þegar talað var um B52 sprengjuflugvélar og grautaði saman einhverju bulli til að kjafta sig út úr því:

...eins og til að fullvissa íbúa í Bagdad um að varnirnar komi að gagni. Lítilfjörleg vörn gegn fjölda eldflauga og sprengja af gerðinni B52, sem kastað er niður úr mörg þúsund metra hæð.

Ekki stórglæpur í sjálfu sér, en þegar verið er að þýða frásögn "þekktasta stríðsfréttaritara heims um þessar mundir" er kannski ekki til of mikils ætlast að þýðandinn kunni einhver skil á einhverju skelfilegasta vopni mannkynssögunnar (30 tonn af sprengjum), sem hefur verið í notkun í rúmlega hálfa öld.

Bætt ofan á klúðurslegt orðalagið fór þetta a.m.k. töluvert í mínar fínustu beturvitataugar.

Þar með er ég þá ekki með nema fjórar bækur í lestri (misaktívum).

Eftir að hafa hengslast eitthvað yfir tölvunni fram eftir degi fór ég svo í langa gönguferð um kaffileytið. Þá var veðrið aðeins farið að skána og gekk meira að segja á með sólarglennum. Í lygnum íbúðargötum gat maður með smá sjálfsblekkingu reynt að telja sér trú um að það væri kannski að koma vor.

Maðurinn sem ég sá á stuttbuxum hefur hins vegar tekið þessa sjálfsblekkingu fulllangt.

Þegar heim kom tók ég til, ryksugaði og þurrkaði af. Mikið meira gerðist ekki markvert þann daginn.

Heimför nálgast

Þeir sem hafa haft spurnir af því að ég sé að fara heim um næstu helgi hafa yfirleitt gefið mér undarlegt augnaráð og spurt hvort það sé ekki um það bil viku of seint.

Því er til að svara að ég var löngu búinn að afskrifa það að fara heim um páskana og ætlaði kannski að kíkja í maí í staðinn, þegar það kom svo í ljós að E. færi til New York um þetta leyti skellti ég mér í að finna heppilegar dagsetningar á frambærilegum prísum.

Í gær gekk ég svo frá því að ég flýg austur á laugardeginum 22. og kem aftur í borgina seinnipart þriðjudagsins.

Ég krækti mér líklega í óformlegt atvinnuviðtal á MSN spjalli í gær og nú er að sjá hvort eitthvað bítur á aðra öngla sem beitt hefur verið.

Ráðstefna utan við fjárhag námsmannsins

Í gær prófuðum við svo í fyrsta sinn vídeóspjall heim í foreldrahús, enda þau nýlega komin með ADSL tengingu. Myndin var að vísu bara í aðra áttina, en mér skilst að stefnan sé tekin á myndavélaleiðangur í BT á morgun.

Í því spjalli benti mamma(!) mér á áhugaverða vefráðstefnu sem er akkúrat þessa daga sem ég verð í borginni.

Þarna verður að því mér sýnist ágætt úrval "spaða" úr bransanum. Nöfn sem ég ítrekað séð vitnað í á netinu (og hvurs skrif ég hef í mörgum tilvikum kynnt mér) og einn fyrirlesarann hef ég séð hérna úti síðastliðið haust.

Þótt eigi síður von á því að þarna komi eitthvað fram sem muni gerbreyta sýn minni á miðilinn og tækni dagsins í dag, væri gaman að kíkja á þetta. Hins vegar er þátttökugjaldið 35 þúsund krónur á haus, sem er rétt utan við fjárhag fátækra námsmanna.

En ég er samt búinn að senda fyrirspurn og athuga hvort boðið verði upp á námsmannaprísa - sakar ekki að reyna.

Hálfdaufleg helgi framundan

Þar sem ég hef lítið sem ekkert hugsað til páskanna er ég ekki með nein plön um helgina. Það er ekki laust við að manni finnist það hálfdapurlegt eitthvað að vera ekki að gera neitt af viti, en á móti kemur að veðrið ýtir ekki sérlega undir dugnað.

Eftir að við höfðum lokið prófunum dagsins rölti ég heim í hálfskýjuðu veðri, en hitastigið var ekki sérlega hátt og gjólan nöpur þannig að þetta var eiginlega ekki nema gluggaveður.

Á morgun ætla ég samt að viðra mig eitthvað, vonandi bæði í útihlaupum og spókandi mig í miðbænum. Vona bara að veðrið verði skaplegt.

Þá ætla ég líka að kíkja í stórmarkað og sjá hvað verður páskasteik ársins.

Félagsmálatröllum borgarinnar er frjálst að hnippa í mig ef það er eitthvað spennandi í bígerð...

(Já, ég er eitthvað smávægilega bláleitur í augnablikinu (sem fylgir því líka að vera að krukka aðeins í naflanum á sér) - en hlakka þeim mun meira til að skjótast heim.)

Svo ætti maður kannski að huga að því að dunda sér við eitthvað sem gæti skilað aurum í vasann - t.d. að kíkja á Nígeríuverkefnin mín. (Sérstaklega þar sem Nígeríubossinn er einmitt í Danmörku núna.)


< Fyrri færsla:
Af playlistunum skuluð þér þekkja þá
Næsta færsla: >
Fyrsti vordagurinn
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry