Fyrsti vordagurinn

Í dag er búið að vera prýðisveður í Köben, léttskýjað og stillt og þótt hitastigið hafi ekki slegið nein met er hægt að spóka sig útivið án þess að þurfa sérstaklega að dúða sig upp.

Ég fór upp á meginlandið að viðra mig og í stað þess að þvælast um centrum eins og ég á til að gera fór ég alla leið upp á Nörrebrú.

sól við sæina

Ég tók metró og 5A yfir sjóina og rölti fyrst til norðurs eftir Ravnsborggade og Ryesgade og svo til baka eftir Blegdamsvej framhjá Skt. Hans Torv og eftir Elmegade. Þar sem ég var farinn að vera örlítið "peckish" stoppaði ég á Laundromaten (í fyrsta sinn) og fékk mér te og bakkelsi.

Síðan rölti ég áfram eftir Blågårdsgade með smá staldri við Blågårdsplads þar sem ég stúderaði mannlífið. Þegar ég var kominn á enda Blågårdsgade ákvað ég að halda áfram og rölta yfir borgarmörkin og yfir í Fredriksberg þar sem ég tók metróinn við Forum.

Ég fór svo aftur út í Nörreport og rölti niður troðfulla Köbmagergade og niður á Nyhavn áður en ég tók aftur metróinn við Kóngsins Nýtorg og hingað heim.

Tilþrif dagsins voru óneitanlega á metróstöðinni við Kóngins Nýtorg þar sem töffari á tvítugsaldri tók sprett niður síðustu tröppurnar í rúllustiganum og stökk um borð í lestina í átt til Vanløse. Þessi sprettur varð til þess að hann missti lyklakippuna sína sem samkvæmt danskri hefð var bundin í langa snúru sem látin er lafa upp úr buxnavasanum.

Hann tók ekki eftir neinu og stoppaði ekki þegar hann kom inn í metróinn heldur gekk fram eftir lestinni í leit að sæti. Við vorum fjölmörg sem tókum eftir þessu, en þeim sem næstir voru tókst ekki að ná athygli hans. Einn var þó viðbragðsneggri en aðrir og rétt í þann mund sem dyrnar voru að lokast beygði hann sig niður og kastaði lyklunum með Indiana Jones tilþrifum gegnum dyrnar þar sem farþegi sem hafði séð hvað gerðist greip kippuna á lofti.

Myndir frá göngutúrnum (hvar af stór hluti var "skotinn frá mjöðminni") eru komnar í myndasafnið.

maður á bekk

Þegar heim kom var hnippt í mig frá Egilsstöðum og ég spjallaði aðeins við Ella og pabba með mynd und alles og vígði þar með nýju vefmyndavélina í Dalskógunum.

Hér stefnir svo bara í rólegt kvöld heimavið með Wedding Crashers undir geislanum.


< Fyrri færsla:
Við upphaf páskahelgar
Næsta færsla: >
Páskahlaup
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry