Páskahlaup

Páskaeggið frá Martin reyndist bara allt að því íslensklegt, svipað þykkt og staðlað íslenskt egg - þótt mér sýnist að hnausþykka botninn vanti. Það er meira að segja fyllt með litlum mentos-legum molum (sem mér skilst að sé fátítt hér á flatlendinu).

Hins vegar er þetta í fyrsta sinn sem ég borða páskaegg úr dökku súkkulaði, og þá er ég að meina alvöru dökku súkkulaði. Það bragðast eins og 70% súkkulaði og anganin er það sterk að ég þarf að pakka því inn í sellófanið milli bita svo ilmurinn beri sjálfsagann ekki endanlega yfirliði.

Ég hef aldrei verið röskur að spæna í mig eggjum og þetta krefst ívið meiri virðingar heldur en rjómasúkkulaðieggin. En það mun láta í minni pokann áður en yfir lýkur.

Hlaupið á afmæli drottningar

Þótt veðrið hafi ekki verið alveg jafn gott og í gær var orðið vel bjart seinnipartinn.

Í tilefni af afmæli drottningar skrýddist ég sólgleraugunum ógurlegu sem keypt voru í Mora, vafði íslenska fánaborðanum mínum yfir öxlina (bjútíkvínstæl) og var með snúru með 20 litlum dannebrog vafða um hálsinn í útihlaupi dagsins.

Mér leið örlítið eins og jólatré, en það var vissulega þjóðrækin stemmning yfir þessu. Ég vakti líka óskipta aðdáun allra sem ég hljóp framhjá.

Þar sem ég millilenti í Blockbuster þori ég ekki að fullyrða hvað hringurinn varð langur, en ég held að 5,5 kílómetrar séu ekki fjarri lagi.

Dýrara en gull?

Í stórmarkaðsleiðangri gærdagsins greip ég með mér stóra pakkningu af Gillette rakvélarblöðum. Jafnvel þótt magnafslátturinn hafi verið þónokkur þurfti ég samt að gjalda ígildi útlims og annars fyrir. Hvað ætli sé eiginlega kílóverðið af rakvélarblöðum? Ég tala nú ekki um ef maður liti framhjá plasthausnum og viktaði bara stálið.

Það er örugglega komið í svipaða stærðargráðu og eðalmálmarnir.

Kosturinn er þó sá að í minni rakstrarleti dugir svona pakkning bróðurpartinn úr ári.

Kannski ég verði grand á því og raki mig áður en ég rölti í páskakvöldverð til Huldar og Sigga?

Það ræðst líklega af því hversu alvarlegur eftirhlaupahandskjálftinn verður þegar ég kem úr sturtunni...

Gleðilega páska.


< Fyrri færsla:
Fyrsti vordagurinn
Næsta færsla: >
Sjortari á skrifstofunni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry