Sjortari á skrifstofunni

Í gær fór ég í páskamatarboð hjá Sigga og Huld. Heimasætan var snögg að draga fram teikniborðið sitt þegar ég birtist en líkt og oft áður fólst okkar leikur í því að ég talaði og hún þagði að mestu.

Það var boðið upp á hamborgarhrygg með allskonar tilheyrandi og eftir að hún hafði spænt í sig heilu páskaeggi auk íss með ávöxtum og heitri súkkulaðisósu færðist sínu meira fjör í þá stuttu. Hún sýndi meira að segja smá athyglisþarfartilþrif í líkingu við móður sína með hlaupum og dansi um stofuna áður en hún punkteraðist og var pakkað í rúmið.

Við sátum að spjalli yfir rauðvínsglösunum fram undir miðnættið þegar ég rölti heim í hlýrri vornóttinni.

Á leiðinni mætti ég meira að segja stelpu sem var úti að hlaupa, svartklædd frá toppi til táar og með svartar eyrnahlífar(!)

Þegar heim var komið var ég ekki í stuði til að fara strax að sofa, heldur horfði á síðkvöldsmyndir sjónvarpsstöðvanna fram undir klukkan hálf-tvö. Ekki svo löngu síðar vaknaði ég svo upp af einhverjum bulldraumi sem hafði einhverja mjög skrýtna tengingu yfir í tilraunirnar sem við erum að gera.

Í morgun vaknaði ég samt furðu sprækur, þótt það væri ekki laust við að það sæti smá syfja í skrokknum. Þegar ég mætti svo á skrifstofuna fór ekkert á milli mála að Emilie var áberandi svenfþurfi. Þau höfðu verið hjá vinafólki í gærkvöldi og þótt hún hafi ekkert drukkið varð nóttin stutt og hún viðurkenndi að hún hafði eiginlega vonast til að ég hefði gleymt mér og við gætum blásið daginn af með öllu.

Ég myndaðist eitthvað við að safna saman tölum úr síðustu prófunum, en hvort það voru geysparnir sem lágu í loftinu eða hvort ég var þreyttari en ég hafði gert mér grein fyrir veit ég ekki, en hins vegar átti ég áberandi erfitt með að einbeita mér að því sem ég var að gera og ég var farinn að óttast að ég myndi gera einhverja vitleysu sem ylli því að við töpuðum gögnum.

Það endaði því með því að við tókum bara smá hyggesnak um vorið, útiveru og náttúru áður en við kvöddumst með loforði um að vera duglegri á morgun.


< Fyrri færsla:
Páskahlaup
Næsta færsla: >
Með grafíker í maganum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry