Kominn á klakann

Það kom í ljós að þökk sé mjög minimalískri niðurpökkun (aðallega stuttbuxur og tannbursti) (bætti vettlingum og flíspeysu við þegar það rann upp fyrir mér að ég væri að fara til Íslands) gat ég leyft mér að tékka 6 kílóin af timbri inn og slapp við að dröslast með þau sem handfarangur.

Hins vegar er liðlegur leigubílstjóri í Kaupmannahöfn sem nú ekur líklega um með skaddaðan axlarlið.

Við boarding-hliðið rakst ég svo á Halldór föðurbróður og Brandó (sem voru þó þarna sitt í hvoru lagi).

Ég hafði rambað á að bóka mér sæti við neyðarútganginn, þannig að það fór ágætlega um mig (hefði kannski farið enn betur um mig ef ég hefði verið í sæti sem hægt var að halla aftur, en maður getur ekki beðið um allt...).

Dóri skutlaði mér svo í Hafnarfjörðinn þar sem ég var trakteraður með eðal Ræskríspísköku. Vilborg kolféll fyrir sumargjöfinni sem beitt var til að brjóta ísinn; appelsínugult sólskyggni og trekvartbuxur í sama lit.

Við lékum okkur í alls konar leikjum sem mestu mátar (helst að ég væri ekki nógu þrautseigur í leikjunum sem hún fann jafnóðum upp) og ég fékk prýðilegan kvöldverð hjá þeim hjónum.

Vilborg afhenti mér síðbúna afmælisgjöf frá systkinum mínum; Draumalandið eftir Andra Snæ. Þegar hún bætist við reyfarana tvo og tímaritin tvö sem ég keypti á Kastrup er ljóst að mér þarf ekki að leiðast alveg á næstunni.

Enda hef ég ekki hugmynd um hvað ég er að fara að gera af mér á morgun - nema hvað auðvitað að hér verður opið hús um kvöldið.

Mig tók svo heldur að geyspa eftir kvöldmatinn, enda var í raun tveimur tímum seinna á minni líkamsklukku heldur en á vélrænum tímamælum.

Nú er ég því kominn í hús á Fálkagötunni, byrjaður að sníkja af þráðlausa netinu hans Sigmars bróður (sem er í Barcelona) (Sigmar, ekki netið) og er á leið í rúmið snemma.

Sigmar hefur (foolishly) boðist til að lána mér BMW kaggann og kannski misnota ég það eitthvað. Það væri a.m.k. freistandi að kaupa einhversstaðar kjötlufsu og rifja upp kynnin af útigrillinu mínu...

En, nóg í bili. Farinn að sofa.


< Fyrri færsla:
Klakinn á morgun
Næsta færsla: >
Setið í slagviðri
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry