Setið í slagviðri

Þegar ég vaknaði í morgun var slagveðursrigning á glugganum. Ég lá og las aðeins í reyfaranum sem ég keypti mér í gær, fékk mér að borða og lagðist svo aftur upp í rúm og kláraði reyfarann. Þegar ég leit svo á klukkuna sannfærður um að hún hlyti að vera að nálgast hádegið reyndist hún vera að mjakast í 10, þannig að ég er greinilega ekki enn búinn að jafna mig á tímamismuninum.

Enn rigndi.

Ég velti því alvarlega fyrir mér að draga fram hlaupaskóna (sem fengu að lauma sér með í töskunni) og bleyta þá aðeins með hlaupum á Ægissíðunni en lagði þær hugmyndir frá mér aftur.

Löng sturta kom í stað baðkarsílagnar, enda það síðarnefnda ekki heppilegt til að vekja minn skrokk.

Það var hálf súrrealískt að glugga í Fréttablaðið og Birtu með hádegismatnum úr bakaríinu víðfræga með blautt hárið eftir tæprar mínútu útiveru - þar snerist önnur hver klausa um að nú væri kominn tími til að leggjast í útiveru og njóta sumarsins.

Og enn buldi regnið á gluggunum.

Viska samsins

Það er svo samviskuspurning hvað maður gerir af sér í dag. Göngutúr um miðbæinn er ekki sérlega freistandi í regninu og ég hef minni en engan áhuga á að kíkja t.d. í Kringluna.

(Löngu) týnd sundskýla gerir ferð í Vesturbæjarlaugina minna fýsilega en ella og það væri eiginlega hálfgert svindl að lesa eitthvað verkefnistengt svona á fyrsta degi frísins.

Hér heima við gæti ég t.d. gripið í Andra Snæ sem lítur mjög freistandi út. Ég á líka nokkrar textapælingar í bakhöfðinu sem væri gaman að koma lox í áþreifanlegt form og ég gæti líka lesið yfir textana sem ég prentaði út með ábendingum fyrir atvinnuviðtöl.

Því verður hins vegar ekki neitað að X-Boxið hans Sigmars er afskaplega freistandi þar sem það hvílir eggjandi undir sjónvarpinu...

Þrátt fyrir að einstaka sinnum virðist vera að birta fyrir utan gluggann rignir samt enn.

Svona er víst Ísland í dag, á öðrum degi sumars 2006.


< Fyrri færsla:
Kominn á klakann
Næsta færsla: >
Heima í sveitinni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry