Útgefinn og gengisfallinn

Hér gengur á með regni, snjókomu og sól.

Það var verulega skrítið áðan að heyra rigningarhljóð á þakinu, en utan við gluggan var hins vegar hundslappadrífa. Mér þótti það ekki alveg eiga saman.

Útgefinn

Í morgun birtist pistill eftir mig á vefnum hugsandi.is. Þetta er stefnuskráin um almenningssamgöngur sem ég skrifaði upphaflega í desember, birti á vefnum mínum í janúar og var svo beðinn um að birta á hugsandi.is fyrir mánuði síðan.

Eftir fjörugar umræður um almenningssamgöngur í opna húsinu síðastliðinn föstudag þótti mér ekki annað hægt en að drífa í að snurfusa þetta til birtingar. Ég þurfti svo sem lítið sem ekkert að gera, en lagfærði orðalag á stöku stað og breytti "ritstjórn thorarinn.com" í "undirritaður".

Gengisfallinn

Á umferðarmyndinni vinstra megin á forsíðunni má sjá að undanfarið hefur yfirgnæfandi meirihluti flettinga á vefnum verið "róbótar" eða gagnasafnarar leitarvélanna.

Fyrir mánuði voru oft 600-900 flettingar á dag sem virtust vera stafa af "mannlegum" áhuga, eftir að ég fjarlægði óbeinar flettingar vegna træbaltattús Google lækkaði þessi tala aðeins og var 300-500 flettingar fyrripart apríl.

Undanfarna viku hafa flettingarnar hins vegar verið milli 120 og 200 á móti 500-1000 flettingum róbótanna.

Ég held ég túlki þetta ekki á þann veg að tuðið í mér hafi orðið áberandi leiðinlegra undanfarna daga, heldur frekar að nú sé loks að skila sér ákveðin gengisfelling eins og á íslensku krónunni.

Þ.e. á sama hátt og gengi krónunnar skrúfaðist upp af að einhverju leyti "gervilegum" aðstæðum á fjármálamörkuðum hafi umferðartölur um vefinn verið óeðlilega háar vegna þess misskilnings Google að ég væri uppspretta fróðleiks um tattúveringar.

Ef maður gefur sér að "dæmigerður lesandi" skoði 1-3 síður á vefnum á dag eru 120 til 200 síðuflettingar bara töluverð umferð.

Á suðurleið

Annars má ég ekkert vera að þessu hangsi. Ég er á leið til borgar Davíðs Ingibjargar Þórólfs Steinunnar Valdísar eftir nokkra klukkutíma.

Áður þarf ég m.a. að setja mig í samband við Símann og reyna að komast að því hvað er eiginlega í gangi með nettengingu heimilisins. Bjartsýnin eftir smásíutiltekt gærdagsins reyndist ótímabær.

Svo þyrfti ég líka að skipuleggja aðeins hvað ég ætla að gera næstu daga í borginni, svara a.m.k. einum pósti og skrifa tvo til viðbótar vegna hugsanlegra viðtala.

En fyrst held ég að ég skelli mér í langa sturtu.


< Fyrri færsla:
Heima í sveitinni
Næsta færsla: >
The boy is back in the borg
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry