The boy is back in the borg

Ég lenti í höfuðborginni um kvöldmatarleytið í gær, Sigmar tók á móti mér á vellinum og skutlaði á Fálkagötuna þar sem ég skoðaði myndir úr ferðinni hans til Barþelóna og tróð í mig smá brauðsnarli áður en ég rölti á kaffihús þar sem ég var fram eftir kvöldi.

Í morgun byrjaði ég á því að klára bókina sem ég hef verið að lesa undanfarið; The Traveller eftir höfundinn með indíánadulnefnið John Twelve Hawks.

Ég vil meina að hún hafi komið skemmtilega á óvart, enda greip ég hana nokkurn vegin af handahófi í bókabúðinni á Kastrup. Hún er auðvitað svolítið klisjukennd og með ótal vísanir í önnur verk. Ég get reyndar ekki séð teljandi líkindi með henni og "Da Vinci Code" eins og reynt er að slá fram á kápunni (nema hvað varðar aldalangar erjur leynifélaga), en get tekið undir namedropping á borð við Orwell, Philip Pullman og The Matrix. Mér flugu að auki í hug stemmningar úr dökka turninum hans Stephen King og víddaflakk úr sumum bókum Koontz.

Þegar ég sá í morgun að ólesni hlutinn þynntist óðum var ekki laust við að ég velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum höfundurinn ætlaði að hnýta saman fléttuna á þessum örfáu síðum. Það skýrist svo á lokasíðunni þegar í ljós kemur að þetta er fyrsta bókin í fyrirhuguðum þríleik.

Ég held ég verði að fyrirgefa höfundinum það, aðallega vegna þess að hann slítur sögunni á lógískum stað og vegna þess að ég gæti alveg hugsað mér að lesa einhverjar 1200 síður til viðbótar (þessi er ca. 600), að því gefnu auðvitað að hann flippi ekki út í flakki milli vídda og hindurvitna.

Ágætis vitleysa eins og þar segir.

Á spani

Þrátt fyrir að hafa ekki haft margt á dagskránni í dag tóxt mér einhvern vegin að vera á linnulitlu spani.

Ég átti viðtal hjá mögulegum framtíðarvinnuveitanda klukkan tvö og tókst einhvern vegin að koma mér í tímahrak og varla ná að sinna því sem ég þurfti áður en ég dreif mig af stað.

Viðtalið held ég hins vegar að hafi gengið ágætlega, þrátt fyrir að ég hafi kannski verið óþarflega stressaður framan af.

Eftir það vatt ég mér inn í verslun til að skipta fimmþúsundkalli í minni einingar, til að auka líkurnar á að strætisvagnastjóri gæti selt mér tíu miða kort. Þegar vagninn svo birtist kom í ljós að bílstjórinn hafði flýtt sér svo á vaktina að hann hafði gleymt miðaveskinu og ég flaut því ókeypis með niður á Hlemm.

Þaðan rölti ég í nýjar höfuðstöðvar Hugsmiðjunnar, en þar voru lykilmenn á þönum þannig að ég kíki til þeirra aftur á morgun.

Á leiðinni aftur niður á Hlemm mætti ég vagninum mínum, þannig að ég vissi að það væri smá stund þar til sá næsti kæmi. Droppaði því að gamni inn á Seating Concept efst á Laugaveginum (þ.e. skv. minni innbyggðu skilgreiningu á Laugaveginum þar sem hann endar við Snorrabraut). Þar benti afgreiðslumaðurinn mér á systurverslun þeirra í Kaupmannahöfn, án þess að hafa hugmynd um að ég byggi í Köben - heldur vegna þess að íslenska vefsíðan væri niðri vegna breytinga. Hann hvatti mig annars til þess að kaupa mublur úti og flytja heim ef ég finndi eitthvað sem mér litist á.

Ég er svo búinn að vera í utanbæjarmaður-í-borginni pakkanum; reynandi að gera margt í einu. Í gær fannst mér endilega að ég væri að fara í leikhús í kvöld, en það er ekki fyrr en annað kvöld. Um leið og sú smuga opnaðist var ég eiginlega búinn að tvíbóka kvöldið og er núna á leið í kvöldmat og sting svo af þaðan til að kíkja á kaffihús með Óskari.

Honum tókst reyndar að koma inn hjá mér léttu samviskubiti með því að stinga fyrst upp á kvöldgöngu á Esjuna (sem ég afþakkaði tiltölulega pent) og með því síðan að vera farinn út að skokka þegar ég ætlaði að staðfesta tímasetningu kaffihússhittings.

Á tímabili í dag leið mér eins og aðalsöguhetjunni í gamanmynd sem ég er búinn að gleyma nafninu á, sem hélt við þrjár flugfreyjur og öll hans orka fór í að skipuleggja dagskrá þannig að engin rækist á neina hinna (í framhaldi af því var svo skondið að rekast á þessa frétt á mbl.is þegar heim kom).

Ég stóð í þeirri trú að amma væri enn á spítala í Fossvoginum, en komst svo að því að hún væri komin upp í Skógarbæ. Vegna samsláttar í heila fannst mér að Skógarbær væri uppi í Grafarvogi (þar sem Foldabær, sem hún var áður á er) og var efins um að komast þangað með góðu móti með Strætó.

Skógarbær er hins vegar í alfaraleið Strætó, rétt við Mjóddina.

Á morgun á ég svo bókað annað viðtal og ætla að reyna að kíkja aðeins inn hjá mínum gamla vinnustað sem nú heitir Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar (ég myndi setja inn link á vefinn ef mér rynni ekki til rifja að sjá hvað hann er klasturslegur eitthvað greyið - með t.d. þremur tæplega 3MB myndum í megintexta nýjustu fréttarinnar).

Dæs.

Svo ætla ég að reyna aftur að kíkja á Hugsmiðjuna og heilsa upp á ömmu, enda ekki á það að treysta að ég hitti hana aftur. Um kvöldið er það svo Hugleikur í Þjóðleikhúskjallaranum og aldrei að vita nema ég reyni að troða eins og einum kvöldverðarhittingi þar inn á milli (ekki það að ég hafi hugmynd um það á þessu stigi með hverjum - en það kemur í ljós).


< Fyrri færsla:
Útgefinn og gengisfallinn
Næsta færsla: >
Kafinn önnum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry