Kafinn önnum

Gærdagurinn byrjaði með skráningarviðtali hjá Mannafli og ég held að ég hafi komist þokkalega frá því. Svo er bara að sjá hvað setur.

Ég sló á þráðinn til Ödda, enda vissi ég ekki annað en hann væri í Nýherjahúsinu sem er í þarnæsta húsi við Mannafl. Kappinn reyndist hins vegar vera að vinna að verkefnum uppi við Hlemm, þannig að við ákváðum að ég myndi kíkja við hjá honum.

Við hittumst á sólarbletti við Hlemm og fórum á hundavaði yfir helstu fréttir og stöðu mála. Áður en yfir lauk var hann búinn að bóka mig í viðtal hjá sínum mönnum eftir hádegið.

Frá honum rölti ég síðan í Hugsmiðjuna þar sem ég hafði ætlað að spjalla aðeins við Stebba og fara svo kannski að borða eitthvað í hádeginu með . Það æxlaðist hins vegar þannig að Stebbi bauð mér með sér niður í bæ að borða, enda var Már utan þjónustusvæðis (hafandi gleymt gemsanum heima).

Ábending til hausaveiðara íslenskra: Það svínvirkar að bjóða mönnum á Thorvaldsen í hádeginu í gómsætan hlýra (ég held alveg örugglega að fiskurinn sé með ufseloni) til að sjarma þá. Svei mér þá ef þetta er ekki besti fiskur sem ég hef fengið langa lengi.

Í tilviki Stebba þurfti kannski ekki mikið að sjarma þar sem ég þekki hann af góðu einu, en maður kvartar ekki yfir að vera boðinn í svona kræsingar.

Í borðhaldinu gerði ég svo þau mistök að leyfa kryddjurt sem lá á disknum til skreytinga að fljóta með vænum munnbita. Um leið og ég beit í komst ég að því að þetta var kóreander - en einhverra hluta vegna þoli ég alls ekki ferskan kóreander, bragðið af honum fer hrikalega í mig.

Ég átti ekki aðra kosti í stöðunni en að fiska grasið út úr mér með heldur groddalegum hætti en Stebbi sýndi þessu hins vegar fullan skilning, sjálfur þyldi hann heldur ekki kóreander og hafði alvarlega velt því fyrir sér að vara mig við honum.

Þegar þjónustustúlkan kom að taka diskana okkar kom svo í ljós að hún var alveg sammála okkur í kóreander viðhorfum.

Eftir hádegið rölti ég svo í Nýherjahúsið og tók þar þriðja spjall dagsins.

Allt var þetta nú á óformlegum nótum, enda aðaltilgangur minn að vekja athygli á því að ég væri kannski væntanlegur heim í haust og fá tilfinningu fyrir því hvernig staðan væri á markaðnum.

Ég er því ekki með nein formleg atvinnutilboð, en almennt voru menn mjög jákvæðir og ákveðið að sjá hvernig mál þróuðust.

Til ömmu

Eftir þetta tók ég svo strætó upp í Mjódd og kíkti aðeins til ömmu minnar.

Eins og ég átti von á vissi hún ekki hver ég væri, en svaraði kurteislega þegar við átti. Ég fann að henni þótti óþægilegt að kveikja hvorki á mér né þeim nöfnum fjölskyldumeðlima sem ég skilaði kveðju frá, en hins vegar þótti henni vænt um að fá gest (þótt hún vissi kannski ekki hver hann væri).

Ég staldraði því ekki lengi við hjá henni, en kvaddi hana og tók vagn vestur í bæ.

Þar bar svo við að ég hitti Sigmar bróður í fyrsta sinn frá því á þriðjudeginum (hann hefur farið snemma að sofa og snemma á fætur undanfarna daga).

Frekar en að vera að eyða tíma okkar í uppbyggilegar samræður tókum við nokkra leiki í Burnout á X-boxinu.

París og leikhús

Óskar Örn renndi svo eftir mér og við fengum okkur bita á hinu nýja Kaffi París. Ég get svo sem ekkert fullyrt um hvort mér líkar betur við það eftir breytingarnar, en það er óneitanlega orðið meira móðins.

Þaðan fór ég svo að sjá "Lán í óláni" eftir Hrefnu Friðriks í uppsetningu Hugleiks í Þjóðleikhúskjallaranum.

Skemmtileg lítil sýning (hvorki stuttleikur né fullt leikrit) með þéttu plotti og skemmtilegum karakterum.

Fimmti varaþingmaður í Norðurlandskjördæmi eystra (að mig minnir), nafni minn Þórarinn, vakti einna mesta hrifningu mína - auk leikkvennanna sem ég hef ekki séð til áður; Eydís Þórunn Sigurðardóttir og Sigríður Helgadóttir sem báðar fóru á kostum.

Eftir að hafa sötrað úr tveimur bjórum á spjalli við fyrrum leikfélaga mína rölti ég svo heim í vornótinni - í fráhnepptum jakka og allt.

Styttist í för

Í dag hef ég svo verið heldur rólegri í tíðinni. Ákvað að leyfa mér að sofa svolítið lengur í morgun og hitti svo Höllu Sigrúnu á Red Chili í Pósthússtrætinu.

Eftir það pissaði ég í Ráðhúsinu og fór í Eymundsson og Ríkið ásamt hópi dimmidenta sem spókuðu sig í sólarglennum á Austurvelli.

Þar var mikið um skræki og læti, enda ekki við öðru að búast þegar saman koma hópar drukkinna menntaskólanema í skrítnum fötum úr ýmsum skólum.

Hei, ert þetta þú ****? Þekkirru mig ekki? Við unnum saman í ****!

Hver af ykkur er systir ****? Ert þú systir hennar ****? En æðislegt! Í hvaða skóla eru?

Hei, sjitt. Við verðum að fara í ríkið, ég ætla sko ekki að láta renna af mér núna.

Þetta er ungt og leikur sér...

Í Ríkinu gladdi það mig að sjá Thor Classic sem gúgglun á sjálfum mér leiddi í ljós að hafði fengið jákvæða umsögn hjá mér síðastliðinn vetur. Þar með virðist því lox vera hægt að kaupa danskan klassík bjór í venjulegu ríki.

Til hamingju Ísland.

Eftir að hafa skotið bjórunum í kæli hér á Fálkagötunni og gemsanum í hleðslu, skaust ég upp á Hlemm enn eina ferðina og kíkti inn á gamla vinnustaðinn.

Ég var reyndar seint á ferðinni og flestir á leið í helgarfrí og/eða samhristing starfsfólks á Miklatúni en ég náði þó að taka í nokkra spaða og grípa ljósrit af teikningum af íbúðinni minni - svona svo ég viti hversu stórum hornsófum ég gæti huxanlega troðið í stofuna.

Svo ætlum við bræður (hinir barnlausari) að bralla eitthvað um kvöldmatarleytið áður en ég fer í ógurlegan póker seinna um kvöldið.


< Fyrri færsla:
The boy is back in the borg
Næsta færsla: >
Það dugir greinilega ekkert kæruleysi á pókerkvöldum
 


Athugasemdir (3)

1.

hildigunnur reit 28. apríl 2006:

Já, þetta með bannsettan kóríanderinn...

Ég get ekki látið slíkan viðbjóð inn fyrir mínar varir. Hélt að þetta væri bara einhver gikksháttur og matvendni í mér, þar til hann Hjörtur minn grasafræðingur með meiru (þekkirðu hann ekki? er í Köben að læra) sagði mér að þetta er genetískt, Ferskur kóríander er nefnilega skyldur lífrænu arseniki og við sum finnum eiturbragðið af því. (það er nú samt bara ólífrænt arsenik sem er eitrað) Góðar fréttir. Nú getur maður semsagt ekki þolað kóríander og haft góða afsökun :-D Getur spurt Hjört betur út í þetta, ef vilt...

2.

Þórarinn sjálfur reit 01. maí 2006:

Ef þú ert að tala um þennan Hjört þá þekki ég kauða - annars ekki.

Ég skal alveg taka undir að kóreanderfælnina megi skýra með einhverskonar líffræðilegum orsökum, það er ekki bragðið sem slíkt sem fer illa í mig heldur einhver málmkeimur af ferska kóriandernum sem einmitt vekur allt að því ofnæmisviðbrögð.

Hvort mér sem klassískt menntuðum efnafræðingi er stætt á að tjá mig um mun á lífrænu og ólífrænu arsenikki vil ég hins vegar ekkert tjá mig um...

3.

hildigunnur reit 09. maí 2006:

neibb, minn Hjörtur er hér

Þetta með lífrænina og ódittó hef ég frá honum þessum

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry