Að aflokinni Íslandsför

Þegar síðustu færslu sleppti var ég á leið í póker hjá fyrrum sambýlismanni mínum. Þar sem upphafi leikja var seinkað aðeins fengum við Sigmar okkur bita saman og tókum svo nokkra púlleiki í einhverjum múlanna. Eins og stundum vill verða var meira um að leikir töpuðust á svörtu kúlunni en að þeir ynnust og án þess að ég vilji neitt fara út í smáatriði viðurkenni ég að Simminn náði ívið fleiri sigrum en ég.

Jón Heiðar sýndi hins vegar stórleik strax þegar hann tók á móti manni, skartandi hvítum hlýrabol (Google styður ufselon-ritháttinn með 552 atkvæðum gegn 218) og setti þar með fordæmi um stemmningu kvöldsins. (Ekki minnkaði afslappaða stemmningin þegar honum tókst að setja salsasósublett í bolinn frekar snemma kvölds.)

Auk okkar tóku þátt í leikum Halli púlari og Óskar Örn skólabróðir minn úr MA (Gunnarsson).

Þetta var hin prýðilegasta skemmtun þar sem menn tóku leikinn hæfilega alvarlega. Gestgjafinn hafði útbúið sérlegan póker-playlista sem innihélt að mestu eðalrokk, en þó brá fyrir lögum þar sem ég spurði af fyllstu einlægni hvort við mættum ekki heldur fá Wig Wam aftur (nákvæmlega hvaða lög þetta voru hefur minni mitt þó blokkerað á).

Jón bauð líka upp á eðalviskí með móbragði par excellence. Við vorum á því að þetta bragð næðist líklega ekki nema með því að taka nokkrar útigengnar skoskar rollur og dýfa þeim sem snöggvast í lögunina. Ég er nú ekki mikill viskímaður, en svona eðal fúlsar maður ekki við (hvaða tegundir voru þetta aftur Jón?).

Framan af var spilamennska mín tilþrifalítil, ég fékk ekkert nema hunda og var yfirleitt fljótur að hætta þegar ég sá fram á að fá ekkert af viti.

Svo kom að því að ég fór að fá aðeins betri hendur og tókst oft að hrifsa til mín potta með hressilegri hækkun áður en kom að því að þurfa að sýna hvað ég væri með á hendi.

Á tímabili var ég kominn með yfirburðastöðu og örugglega rúmlega 1500 kall í plús, en hvort það var af völdum kæruleysis vegna bjórdrykkju eða hvort lukkan snerist einfaldlega frá mér veit ég ekki - hitt veit ég að undir lokin var komið mun meira jafnvægi í spilapeningabunkana, sér í lagi við að ég sem aðalkapitaleigandinn lét hafa mig út í stóra potta sem töpuðust.

Að minnsta kosti svitnaði ég í hvert skipti sem ég hækkaði hressilega og Halli sem var mér á vinstri hönd jafnaði - það þýddi undantekningarlaust að hann var með eitthvað ósigrandi uppi í erminni.

Þegar við svo hættum leikum var ég þó enn í plús, en varla nema sem svaraði helmingnum af leigubílnum aftur vestur í bæ.

Viðbót: Ég gleymdi að nefna að settið hans Jóns er í eins tösku og mitt, en hans spilapeningar eru miklu flottari en mínir. Ég er samt ekkert abbó, ó nei.

Laugardagur til leti

Á laugardeginum var svo síðasti séns minna manna í enska boltanum til að setja hnefann í borðið (eða takka í svörð) og maður druslaði sér því fram úr um hálftólfleytið. Þetta reyndist hins vegar niðurlæging hin mesta og tsjélsímenn höfðu í leiknum öll völd.

Elli og Vilborg komu að horfa á leikinn með okkur (þótt athygli Vilborgar hafi verið meira við annað) og Elli stóð fyrir því að skellt var í hinn hefðbundna laugardagsvelling.

Halldóra kom svo við þegar leið á daginn og ég kvaddi fjölskylduna með virktum um kaffileytið þegar þau hurfu til annarra helgarstarfa.

Eitthvað var ég svefnþurfi og reyndi því að leggja mig þegar þau voru farin, en þrátt fyrir að hafa náð að slaka vel á náði ég ekki að sofna - en hvíldin var engu að síður góð.

Af systrum

Ég grillaði mér svo lambakótelettur í kvöldmatinn (um að gera að nota grillið eins mikið og hægt var) áður en ég brunaði upp á Hlemm að sjá Systur eftir doktor Tótu.

Þær reyndust í stuttu máli hin prýðilegasta skemmtun.

Ég fór einn uppeftir, en fékk prýðissessunaut í Nínu Björk og ég held að við höfum eins og flestir ef ekki allir gestir skemmt okkur vel.

Í grunninn til er þetta klassískt stofudrama þar sem maður kynnist persónunum smám saman og draugar úr fortíðinni skjóta smám saman upp kollinum.

Persónurnar eru áhugaverðar og textinn allur lipurlega skrifaður og framvindan þétt og áhugaverð.

Samkvæmt sýningarplaninu er bara ein sýning eftir, en ég get alveg mælt með þessu fyrir þá sem langar að sjá skemmtilegt leikhús (þótt ekki megi vænta Hugleixks galgopahúmors eru nokkur skondin atvik og tilsvör sem brjóta upp dramað).

Það kom ekkert á óvart að sjá Huldu og Júlíu brillera, en mér þótti sérlega skemmtilegt að fylgjast með Indru eftir að hafa spreytt mig á lykilsenum úr Rómeó og Júlíu með henni í Húsabakkaskóla hér í den. Útlitslega smellpassaði hún líka inn í hlutverkið, þótt persónan væri ekki sérlega lík þeirri Indru sem ég hef kynnst.

Jónína stóð sig líka vel í hlutverki sem kannski býður ekki upp á mikil tilþrif.

Og svo aftur út

Á sunnudeginum leyfði ég mér að sofa út áður en ég skellti mér í sturtu og niðurpökkun. Grillið var aftur kynt og ekki amalegt að snæða nýgrillaðar lambakótelettur í hádegismat.

Ég hafði reiknað út að það myndi duga mér að taka rútuna klukkan tvö til að vera kominn hæfilega tímanlega suður til Keflavíkur og stílaði því upp á það frekar en vera að stressast um of. Hins vegar var ég búinn að öllu og enn möguleiki að ná hálf-tvö rútunni svo ég doblaði Sigmar til að skjóta mér á Umferðarmiðstöðina og náði tímanlega í rútuna (það þýddi reyndar að hann sat uppi með uppvaskið og biðst ég velvirðingar á því).

Rútan var nærri tóm og engar biðraðir í Keflavík þannig að ég var fljótlega kominn í að birgja mig ótæpilega upp af íslensku sælgæti (Hanna Birna bað mig sérstaklega um að kippa einhverju með fyrir sig þannig að ég keypti alveg tvöfaldan skammt).

Þar sem ég veit ekki betur en Emilie sé enn í aðhaldi og nammibindindi keypti ég harðfiskpoka til að bjóða upp á á skrifstofunni - það á svo eftir að koma í ljós hvernig henni líkar hann.

Að þessu innkaupatrippi loknu kom ég mér bara þægilega fyrir og las í reyfara sem ég hafði keypt mér í Pennanum á föstudeginum. (Mér þótti rétt að sýna Andra Snæ ívið meiri virðingu en að vera að lesa hann í þönunum á flugvellinum.)

Þar sat ég svo í eigin hugsunum þegar kennsl voru borin á hnakkasvipinn á mér og mér heilsað með virktum. Þar voru komin nafni minn Alvar, Guðrún og Þóra Laufey (auk bumbubúa) nýlent frá Svíþjóð.

Þau voru hress og spræk og báðu fyrir kveðjur sem hér með er komið á framfæri.

Ferðin út var svo tíðindalítil. Þó lenti ég í meiri ókyrrð en ég man eftir í millilandaflugi - ekki sérlega svæsin, en þó þannig að beltaljósin voru kveikt og farþegar beðnir um að halda sig í sætunum. Þetta stóð í kannski kortér, en að öðru leyti haggaðist vélin varla.

Þegar við lentum var okkur tappað af vélinni með gamaldags stiga og smalað upp í rútur sem keyrðu okkur að flugstöðvarbyggingunni. Það er í fyrsta sinn sem ég lendi í því hérna í Köben og veit ekki hvernig á því stóð að við lögðumst ekki að byggingunni eins og venjulega.

Eftir að taskan skilaði sér fór ég bara beint út í leigubíl og lét skutla mér heim. Þar var líkt og stundum eftir langar fjarverur þörf á að áminna nokkra silfurlita sambýlinga um að þeim beri að halda sér ósýnilegum.

Ég tók svo bara léttan snarl og kíkti á sunnudagsdagskrá sjónvarpsstöðvanna (sem var ekki upp á marga fiska).

Þótt skynsemin segði manni að fara bara snemma í bólið og vinda þannig ofan af tímamismuninum var því ekki að leyna að ég hafði vaknað um morguninn um eittleytið að dönskum tíma og var því ekki sérlega syfjaður. Eftir bókarlestur uppi í rúmi sofnaði ég svo um þrjúleytið.

Um öxl litið

Ég get ekki annað en verið mjög ánægður með þetta skrepp mitt heim. Vissulega var sitthvað sem manni datt í hug að gæti verið gaman að gera sem ekki gafst færi á og ákveðnar bjartsýnishugmyndir um dugnað á frístundum reyndust nákvæmlega það; bjartsýnar. Hlaupaskórnir voru til dæmis aldrei teknir upp úr töskum - þótt við feðgar höfum reyndar skotist á gönguskíði - myndir af þeim gjörningi væntanlegar síðar.

Á móti gekk annað vonum framar og kom á óvart, til dæmis það þegar eitt planlagt viðtal á föstudeginum breyttist í þrjú.

Hvað varðar vinnupælingar virðist niðurstaðan sú að þótt ég sé ekki með neitt fast í hendi eftir túrinn sé engin ástæða til annars en að vera bjartsýnn á að ég geti fundið mér eitthvað spennandi ef ég ákveð að koma heim í haust.

Ég náði auðvitað ekki að heilsa upp á né hringja í alla, en held ég hafi þrátt fyrir allt staðið mig ágætlega í þeim efnum.

Svo er bara að fara að huga að næsta skreppi, ætli það verði ekki einhverntíman í júlí. Þyrfti helst að passa þokkalega við ferðaplön fjölskyldunnar sem enn liggja ekki alveg skýr fyrir.

Þá væri líka fróðlegt að prófa flugið beint milli Köben og Egilsstaða (sem ég á enn erfitt með að átta mig á að sé staðreynd - það að geta flogið frá Kastrup og lent í göngufæri við foreldrahúsin í sveitinni er einhvern vegin absúrd tilhuxun).

Það kemur allt saman í ljós.


< Fyrri færsla:
Það dugir greinilega ekkert kæruleysi á pókerkvöldum
Næsta færsla: >
Ekki byrjar maður nú á miklum dugnaði
 


Athugasemdir (2)

1.

Jón Heiðar reit 01. maí 2006:

Laphroiac og Bowmore.

2.

Þórarinn sjálfur reit 02. maí 2006:

Ég fékk mér einmitt Bowmore í fríhöfninni á leiðinni út - vantar samt aðeins upp á rollubragðið þótt prýðilegt sé.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry