Ekki byrjar maður nú á miklum dugnaði
01. maí 2006 | 0 aths.
Ég geri nú ráð fyrir að fríið muni auðvelda mér að takast á við verkefnavinnu af dugnaði og krafti, en þessi fyrsti morgun hér í Köben hefur einkennst af hvorugu.
Ég fékk í gær skilaboð frá Emilie um að hún hefði átt góða ferð til stóra eplisins en hörmulega heimferð, með röskunum á flugáætlunum, töfum og böggi. Til að bæta gráu ofan á svart hafi hún svo krækt sér í einhverja pest í öllu þessu veseni og liggi því heima með hita.
Samt ákvað ég að stilla vekjaraklukkuna á 9 til að vinda aðeins ofan af tímaskekkjunni. Eftir minn sex tíma svefn reyndist hins vegar svolítið erfitt að drífa sig fram úr, heldur tók ég nokkuð drjúga snússkorpu undir sæng.
Svo flaug mér í hug að það væri auðvitað upplagt að fara út í sólina sem ég sá gægjast inn um gardínurnar og hlaupa smá hring fyrir hádegi. Ég velti því alvarlega fyrir mér í tæpar fimm sekúndur og hélt svo áfram að blunda.
Eftir að hafa gripið aðeins í reyfarann sem ég var að lesa í gær kom ég mér svo á fætur í rólegheitum og rölti yfir í skóla til að borða hádegismat og sjá hvort ég gæti ekki notað tímann í lestur.
Fjórum tímum síðar hef ég ekkert lesið annað en eitthvað vefkjaftæði sem tengist verkefninu okkar ekki neitt.
Allt í hers höndum
Ég sat með kunningjum mínum í hádeginu og skildist á þeim að ég hefði af litlu misst, nema kannski innrásinni sem fylgdi heimsókn Steve Ballmer, framkvæmdastjóra Microsoft, síðastliðinn föstudag. Steve þessi er einn af áhrifamestu bisnissmönnum veraldar og einnig þekktur sem dansandi apinn (MPEG, 3MB).
Ég hafði séð af þeim tölvupóstafjölda sem sendur var á alla nemendur til að skýra hvað mætti og hvað ekki meðan á heimsókninni stóð, að hér myndi allt fara á annan endann. Það voru takmarkanir á því hvaða leiðir mátti fara um skólann, ekki hægt að komast inn nema á einum stað án þess að hafa stúdentakort og eftir sem mér skilst á þeim félögum mínum var vart þverfótað fyrir alvarlegum mönnum í jakkafötum að umla eitthvað í lítil senditæki.
Það er kannski helst til marks um hvað þetta var mikið mál að skilafresti verkefna (sem átti að vera til kl. 3 á föstudaginn) var seinkað þar til í dag. Í skóla þar sem náttúruhamfarir duga ekki til þess að hnika skilafrestum telst það óneitanlega til tíðinda.
Fyrsti hvað?
Hér í .dk taka menn fyrsta maí ekki sérlega alvarlega (svo ég verði var við). Fyrir okkur verkefnamaura eru auðvitað engir dagar heilagir (og við værum auðvitað að vinna ef E. væri heil heilsu), en ég verð að viðurkenna að þegar ég pantaði mér farið heim hafði ég ekki kveikt á því að með því að fara deginum seinna hefði ég getað krækt í aukalegan frídag heima á klaka.
En nú er spurning hvað ég geri við það sem eftir lifir dags, því ég vil gjarnan koma kvörninni aðeins í gang.
Þar kemur þrennt til greina: a) að lesa fyrir verkefnið, b) að skrá uppsafnaðar en óskrifaðar dagbókarfærslur og ferðasögur (Vasa), c) að grúska í forrituninni á thorarinn.com því mér þykir ljóst að:
Róbótarnir hafa sigrað
Eins og sjá má af grafíkinni í vinstri vængnum á forsíðunni hefur yfirgnæfandi hluti heimsókna á vefinn undanfarið verið vegna heimsókna leitarvélaróbóta.
Það kemur mér í raun ekki á óvart, þar sem allt það fikt var gert í þeim tilgangi að reyna að greina milli mannlegra og vélrænna heimsókna. Hins vegar var lengi vel jafnvægi þarna á milli, en nú sýnist mér ljóst að það hafi verið vegna Google verðbólgu.
Myndin á forsíðunni er því í raun ekki að segja neitt lengur og spurning um að fara bara að henda henni út aftur.
Ég hef þó lært af þessu að aðferðin mín til að greina milli leitarvéla og mannvera virðist virka ágætlega. Hún er hraðvirk og þótt alltaf sé eitthvað um að "menn" kynni sig ekki rétt sýnist mér að vafatilvik séu í áberandi minnihluta.
Nú er hins vegar spurning um að leggja heilann í bleyti og skoða hvers konar upplýsingum ég vil safna sem gefa myndu einhverjar merkingarbærar niðurstöður.
Huxi, hux.
Svo sýnist mér líka að eftir að ég breytti spamsíunni á kommentum hjá mér síðastliðinn október hafi ég girt alveg fyrir vélarusl í athugasemdunum. Það er því spurning hvort ég breyti ekki stillingunum þannig að athugasemdir hverfi ekki algerlega eftir tvo sólarhringa (ef t.d. viðkomandi missir af staðfestingarpóstinum eða misskilur hvernig eigi að svara honum) - heldur verði óstaðfestar athugasemdir áfram merktar sérstaklega og allir veftenglar gerðir óvirkir.
Þá myndi ég líklega búa til athugasemda RSS lista í leiðinni, svona fyrir sjálfan mig (og geti þá brugðist strax við ef óværan tekur að láta á sér kræla aftur).
(Ef lesendur hafa athugasemdir um eitthvað sem þeir sakna í athugasemdavirkninni er núna tækifæri til að setja fram óskir.)
Eða...
Svo gæti ég auðvitað haldið áfram í kæruleysinu og farið bara út í sólina. Hér er reyndar ekkert brjálæðislega hlýtt, en samt eitthvað yfir tíu gráðunum.
Kannski ég reyni samt fyrst að lesa örlítið verkefnatengt.
... kannski ...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry