Hlaupið með sturtuhaus

Gjólan sem óx mér í augum áðan reyndist mjög passleg fyrir útihlaup. Raunar svo að þar sem hennar naut ekki við lá við að mér þætti ég of mikið klæddur.

Fyrri hluta hringsins var púlsinn límdur í 153-154, svo þegar seig á seinni hlutann þurfti ég aðeins að hafa auga með að hægja á mér. Ég var það sprækur þegar heimilið tók að nálgast að ég ákvað að lengja hringinn svolítið og bætti við ca. 2 kílómetrum. Það var mjög passlegt og ég var við það að verða þreyttur þegar heim kom.

Kókleginn sturtuhaus

Í gær gerði ég vísindalega tilraun til að afkalka gataplötuna úr sturtuhausnum mínum í kókglasi. Kalkútfellingarnar voru orðnar það miklar að það stóðu bara "grjótharðar" smábunur hingað og þangað og því þörf á að grípa til aðgerða.

Prófaði kókið þar sem ég veit að kalkleysar eru í eðli sínu bara vatnsþynntar sýrur og að kók er einhver alsúrasta fæða sem fæst. Kalkleysnivirkni þess olli þó vonbrigðum.

Endaði með að ég greip til fantabragða og opnaði fyrir götin með tannstöngli.

Komst svo að því í morgun að ég hefði líklega verið fullduglegur. Nú lekur vatnið í svo mjúkum bunum að maður tekur varla eftir því og freistast til að skrúfa meira frá, en þá hefur niðurfallið ekki við.

Það rifjaðist upp fyrir mér að nákvæmlega það sama gerðist síðast þegar ég kroppaði kalkið úr hausnum (þ.e.a.s. sturtuhausnum, ekki mínum áfasta).

Betra hefði kannski verið að opna bara annað hvert gat og finna þannig einhvern milliveg.

Eftir hlaupasturtuna greip ég því skæri og plastpoka og þrengdi hausinn aftur. Verður gaman að sjá í fyrramálið hvort það virkar.

Fikt er góð skemmtun.

Flaggað í kóloníuhövunum

Á leið í og úr skóla geng ég meðfram svæði með kólóníuhövum (sem eru smáskikar sem fjölskyldur leigja og koma oft upp þar limgerðum, garðmublum og öðru tilheyrandi).

Sama fyrirbæri var uppi við Elliðavatn en hefur núna þróast yfir í sumarbústaðabyggð - árleg leiga var (og er enn) tvær krónur. Íslenska nafninu á fyrirbærinu er hins vegar gersamlega stolið úr kollinum á mér.

Í dag var búið að flagga danabrókum víða og einhver búinn að opna bjór. Þó var ekki hægt að merkja mikið fáklæði þeirra sem mættir voru til að tilbiðja þetta gula á himninum.

Það breytist kannski á morgun.

Nýjar myndir

Í skreppinu mínu heim fórum við feðgar í skíðagöngu upp á Fjarðarheiðina í glampandi sól og alveg frábæru færi. Ég fékk lánaðan galla hjá pabba og jöklagleraugu ein ógurleg.

Að vísu gerðu hliðarfliparnir það að verkum að það loftaði illa um gleraugun og þau fylltust því af móðu. En þau voru töff á meðan þau virkuðu.

Myndir úr göngunni eru núna komnar í myndalbúmið.


< Fyrri færsla:
Jæja, hér væri gott að hafa fyrirsögn
Næsta færsla: >
Sagt upp
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry