Jæja, hér væri gott að hafa fyrirsögn

Sit hér enn kvenmannslaus á skrifstofunni, þambandi te og bryðjandi flest sem tönn á festir. Horfi á sólina fyrir utan gluggann og miskappklætt fólk fjúka hjá í strekkingnum.

Eitthvað gengur nú treglega að skrúfa upp í kyndingunni hjá almættinu. Sólin er svosum farin að skína en hitastigið varla nema svona la la (helst kannski í skjóli).

Ég las skákskýringu á DR-vefnum áðan um að nú sé væntanleg fyrsta alvöru hæðin með austanátt. Hins vegar sé hafið í kringum dönsku pönnukökuna enn svo kalt að það verði ekki nema yst á Vestur-Jótlandi sem hitinn fari eitthvað yfir 20 stigin.

Okkur sjálendingum er ráðlagt að leita uppi skjólsælan blett, en passa okkur á ósonlaginu.

Spáð 16 stigum á hádegi á morgun. Verst að þá gæti verið að maður kæmist ekki upp með neinn óþarfa slæping fyrr en að loknum vinnudegi.

Segir fátt af verkefnum

Án svipu E. yfir mér hef ég lítið gert af viti undanfarna daga. Tók þó svolitla Excelskorpu áðan og fann meira að segja áhugaverðar niðurstöður. Fyrir vikið get ég bráðum rölt út í strekkinginn með þokkalegri samvisku.

Góð heimsókn

Í gærkvöldi gerði ég góða för til Jónínu og fjölskyldu. Þar var boðið upp á tilraunaeldaðar kjúklingabringur í karrísósu og gesturinn neyddur í Scrabble við húsfrúna. Þar náði ég að halda uppi þokkalegum vörnum (aðallega þó með því að fá samþykki fyrir búrsax (sbr. búrhníf) sem á þreföldu orðgildi gaf einhver rúmlega 80 stig ef mig misminnir ekki).

Búrsaxið dugði þó ekki til og Jónína vann mig eftir spennandi endasprett.

Við horfðum síðan á breskan krimma og annan þátt júróvisjónspekinganna (sem hérna úti eru allir textaðir nema auðvitað Daninn).

Ég er svei mér þá á því að þessir þættir séu eiginlega skemmtilegri heldur en júrókeppnin sjálf (já, ég veit að þetta jaðrar við guðlast - en lykilorðið er "jaðrar").

Á keppninni sjálfri dett ég yfirleitt út eftir 4-5 lög og ranka ekki við mér nema eitthvað yfirmáta hallærislegt eigi sér stað, eða íslenska framlagið stígi á stokk (oft hefur það tvennt reyndar farið saman, en það er önnur saga).

Í góðum júrópartíum er svo hending ef maður sér yfirhöfuð neitt annað en íslenska framlagið - enda er maður þá upptekinn við allt annað en að glápa einbeittur.

Júróspekingarnir eru hins vegar af hæfilegri tímalengd og taka þessu öllu af mátulegum alvarleika.

Hver ætlar annars að bjóða mér í júrópartí? Og hvenær er eiginlega Júró?

Af vinnumálum

Vinsældir mínar eru lítt að dvína, í gær sendi ég ferilskrána mína eftir smá spjall á MSN og rétt í þessu var verið að falast eftir mér í sumarverkefni heima á klaka.

Nú er hins vegar að koma að því að standa við stóru orðin og fara að kynna sér möguleika og horfur hérna á flatlendinu.

Á morgun verður hér í skólanum sérstök upplýsingatæknileg hjónabandsmiðlun (IT Match Making). Hún fer þannig fram að slatti af fyrirtækjum (allt frá Google til minni danskra spámanna) stilla upp voða fínum stöndum og dreifa bæklingum, pennum og nammi. Svo eigum við nemendurnir að rölta um og networka í gríð og erg.

Verst að ég er ekkert sérlega lipur við að selja mig svona á fæti.

En líklega þarf ég að dusta aðeins rykið af ensku útgáfu ferilskrárinnar í kvöld og hafa nokkur eintök með mér í rassvasanum - svona til öryggis.

Annars þykir mér í augnablikinu barómetið vera að sveiflast heldur meira til norðurs en hitt - gott sumar hér í Köbeninni gæti þó farið langt með að færa loftvogina til fyrri stöðu.

Það kemur víst allt saman í ljós fyrr eða síðar.


< Fyrri færsla:
Af andhönnunarumræðulokum
Næsta færsla: >
Hlaupið með sturtuhaus
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry