Sagt upp

Í dag kom E. til starfa og við sýndum af okkur allt að því dugnað fram undir hádegið - a.m.k. dugnað við að spjalla um heima og geima og þar á meðal næstu skref í verkefninu.

Eftir hádegið fór hún svo að skutla kærastanum út á völl og ég reyndi að sýna lit í IT-hjónabandsmiðluninni sem skólinn minn stendur fyrir.

Takmarkaðir tilburðir til sjálfssölu

Frummælandi dagsins var á því að það væru góðir tímar framundan fyrir cand.it-a næstu missera. Þörf á vel menntuðu fólki í bransann og ekki að sjá að alþjóðavæðingin væri okkur til trafala. Hann var helst á því að stór hluti úthýsingar danskra fyrirtækja væri hreinlega vegna þess að þau fengju ekki hæfa starfskrafta.

Ég sýndi reyndar óvenjulítil tilþrif á markaðstorginu, nappaði mér smávegis af nammi en hirti ekki einn einasta penna. Hins vegar tók ég mér tíma í að skoða vefina hjá stærstum hluta þeirra sem þarna voru.

Það er auðvitað engin ástæða til að ræða við starfsmenn fyrirtækjanna ef maður getur kíkt á vefinn þeirra í staðinn.

Kallið mig sérvitring, en þegar risafyrirtæki í upplýsingatækni er með vef sem fokkast upp í Firefox hef ég ekki sérlega mikið álit á fagmennsku þeirra. Sorrí.

Forvitnilegt hvað það er sem veldur því að maður verður áhugasamari um sum fyrirtæki heldur en önnur - er kannski eins og í öðru tilhugalífi að maður er ekki alltaf viss hvað það er sem vekur áhuga manns. Ég fór t.d. á kynningarfyrirlestur hjá Netcompany til þess að komast að því að þeir hafa nákvæmlega ekkert að gera við gaur eins og mig.

Daman frá Creuna var hins vegar voðalega hrifin af sívíinu mínu og ætlaði að koma því á framfæri hjá sínu fólki.

Ég er náttúrulega brjálæðislega snobbaður, en ef ég er að fara að vinna hérna úti vil ég helst vinna í miðbænum (eins og í tilviki Creuna) - nenni ekki að vera einhversstaðar í Hellerup eða eitthvað þaðan af afskekktara.

Kíkti svo á kynningu hjá Mondo og spjallaði aðeins við starfsmannastjórann þeirra. Ég útskýrði fyrir honum mína stöðu og fékk hann til að lesa yfir sívíið til að gefa mér komment. Hann var á því að minn prófíll nýttist honum ekki, ég hefði of litla reynslu til að fúnkera sem ráðgjafi og þyrfti helst að byrja á því að læra að kóða í Micro$oft umhverfum og ráða mig sem "udvikler" - þaðan gæti ég svo unnið mig upp í ráðgjöf.

Ég skil hann svo sem vel, þeir taka ekki nema stærstu verkefnin og þar munar um hvert prósent sem verkið hnikar frá áætlun.

Ekki það að menn heima á klaka séu minna faglegir eða metnaðargjarnir, en ég hef það þó á tilfinningunni að þar sé kannski meiri trú á að móta megi gúbba eins og mig til einhvers gagns.

Kannski er ég líka bara meira sannfærandi í sjálfssölunni á íslensku heldur en dönsku.

En ég er að minnsta kosti orðinn alveg sannfærður um að djobbið sem gæti fengið mig til að vera aðeins lengur hérna úti er ekki það að vinna í einhverju fyrirtækisbákni við að búa til viðskiptalausnir.

Það þyrfti að vera aðeins meira spennandi en það. Þar gæti Creuna komið til greina sem útdýpkun á því sem ég þó kann í vefbransanum. Spurning um að grafa líka upp nafnspjald framkvæmdastjórans í Congin og sjá hvort hann hefði einhvern áhuga á að leika.

Úti í sólinni

Seinnipartinn fór ég svo út í sólina. Fór upp í Nyhavn með millilendingu í Christianshavn. Fékk mér ís og rölti um þar til ég var orðinn þreyttur á að píra augun í sólinni.

Hvernig fara tattúgaurarnir í Nyhavn að því að vera orðnir sólbrúnir á öðrum degi vorsins? Hafa þeir kannski svindlað og farið í ljós?

Veidiggi.

Varð svo voða þreyttur í þrammvöðvunum og fór heim að hvíla mig aðeins.

Sagt upp

Þegar heim kom beið mín uppsagnarbréf. Þar sem ég er að klára í haust missi ég herbergið mitt og mér var formlega tilkynnt að ef ég væri ekki búinn að skila lyklunum fyrir kl. 9:00 þann 31. desember 2006 yrðu hnéskeljarnar skotnar af mér.

Þannig að ég þarf víst að fara að huga að því að pakka niður hvað úr hverju.

Man sannast sagna ekki hvenær mér var síðast sagt formlega upp í nokkru.

Ég held að starfslokin hjá Kveikjum geti varla talist uppsögn þar sem þeir fóru bara á hausinn. Í öðrum störfum hef ég sjálfur sagt upp.

Mér hlýtur að hafa verið sagt upp leigunni á stúdentagörðum í gamla daga, en man ekkert eftir því.

Meira að segja hafa konurnar í lífi mínu sýnt mér þá tillitssemi að leyfa mér að trúa því að það hafi verið sameiginleg ákvörðun að hætta saman. Fyrir utan auðvitað þær þreyfingar sem hefur verið slitið á annan hvorn bóginn áður en nokkur alvara var komin í málin.

Það er ekki eins mikið áfall að vera sagt svona upp og ég hefði kannski haldið.

Merkilegt.


< Fyrri færsla:
Hlaupið með sturtuhaus
Næsta færsla: >
Bjór í sól er skemmtan góð
 


Athugasemdir (2)

1.

Jón H reit 06. maí 2006:

Jú við fengum uppsagnarbréf hjá Kveikjum og því lít ég á það sem uppsögn. Eina uppsögnin sem ég hef fengið skriflega.

2.

Þórarinn sjálfur reit 06. maí 2006:

Já, það er líklega rétt hjá þér...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry