Bjór í sól er skemmtan góð
06. maí 2006 | 1 aths.
E. greyinu sló niður af flensunni aðfaranótt föstudagsins. Þegar hún hringdi svo í mig á föstudagsmorgninum og afboðaði komu sína sló það sjálfsaga minn kylliflatan og ég dormaði í rúminu langt fram eftir morgni. Mætti meira að segja seint mælt á íslenskum tíma.
Eftir hádegismat úti í sólinni tók ég svo smá skorpu í Excel-tilþrifum og bölvaði takmörkunum þess í hugsanalestri. Yfirleitt stendur það sig ágætlega í að meta hvenær maður vill afrita formúlur nákvæmlega og hvenær "relatívt" - en í þessum æfingum okkar er sama hvað ég reyni, það endar alltaf með pirrandi handavinnu og copy-paste einstakra sella. Ég sé ekki að neinn möguleikanna í Paste Special dugi mér til hjálpar.
Um fjögurleytið lá svo leiðin niður í sólina fyrir utan fredagsbarinn með níðþungt Hoegaarden Witbier glas í hönd.
Það er sko alvöru vorboði þegar meirihluti bargestanna situr fyrir utan.
Sólin hverfur svo á bak við Karen Blixen blokkirnar um sjöleytið og þá færa menn sig inn aftur. Ég sat með Lydia, Christina og Mette þar til sú síðastnefnda þurfti að fara og var leyst af hólmi af Calle, kærasta Lydiu. Jónína kíkti svo við auk þess sem ég spjallaði stuttlega við hina og þessa.
Mér skilst að það hafi verið mikil stemmning á barnum síðastliðna helgi og það skýrir kannski að einhverju leyti að þegar sólin hvarf var frekar fámennt. Það getur líka vel verið að menn hafi verið að sinna félagslegum skyldum í fyrstu grillveislum sumarsins.
Fyrir hænuhaus eins og mig segja þrír stórir bjórar á fastandi maga ágætlega til sín, þannig að ég hægði á drykkjunni og þegar sessunautar mínir tóku að tínast heim lét ég mig hverfa líka um níuleytið. Greip mér kvöldmat á leiðinni heim og lét svo renna af mér í rólegheitum yfir imbanum.
Áframhaldandi blíða
Samkvæmt veðurspám gærdagsins verður sól og 20 stiga hiti um alla mörk Dana fram á miðvikudag þegar spáð er skýjuðu veðri og 20 stigum.
Landshlutaspár gera reyndar ekki ráð fyrir nema 17-19 gráðum hér í Köben, enda er áttin austlæg og telst því hafátt hér á höfuðborgarsvæðinu.
Mín eina afsökun fyrir því að sitja inni við tölvuna er sú að ég var orðinn leiður á að mylja úr brókum og sokkum og ákvað því í morgun að rifja upp hvar þvottahúsið væri að finna. Sit núna og bíð eftir að þurrkarinn ljúki sér af.
Sumartízkan
Svo er ekki laust við að maður finni fyrir léttum neysluþrýstingi með hækkandi sól. Reyndar tek ég það ekki teljandi til mín, en er þó búinn að ákveða að mig vanti íþróttajakka til að nota sem sumarjakka.
Verandi í Róm þykir mér ekki annað tilhlýðilegt en að svipast um eftir smörtum Hummel jakka. Fékk í gær tips frá sérlegum innkauparáðgjafa um hvar slíkt geti verið að finna og kíki kannski á það síðar í dag.
Svo var í sjónvarpinu í gær smá innslag um sólgleraugnatísku. Þar sýnist mér helst vera í tísku að vera með hallærisleg gleraugu og því stærri því betra.
Nú gæti maður haldið að svoleiðis tíska væri heppileg fyrir tískuignoranta eins og mig, en það er þvert á móti mín reynsla að það er aldrei eins stífar kröfur eins og til hallærislegrar tísku - ef tískunni verður lýst í einföldum orðum; "snjóþvegnar gallabuxur" eða "bleikar akrýlprjónapeysur með vaffhálsmáli" er tiltölulega einfalt mál að bregðast við. Rétta hallærið er hins vegar vandfundið.
Ég held því að ég haldi mig við fimmtíukróna H&M sólgleraugun mín í dag.
Athugasemdir (1)
1.
Jón H reit 06. maí 2006:
Mér tekst alltaf að vera hallærislegur, hvernig sem tískuvindar blása. Það kalla ég hæfileika.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry