Þrek eða ukulele?

Baðvogir nærstaddar halda því nú fram að ég sé komin undir stúdentsútskriftarþyngdina mína. Það held ég að hafi síðast gerst fyrir þremur árum. Þar með er ég kominn heldur í neðri kantinn á þeirri þyngd sem ég er sáttur við og þarf að huga að því að fjölga aðeins hitaeiningunum frekar en hitt. Sérstaklega ef svo ólíklega skyldi vilja til að mér tækist að sýna dugnað í útihlaupum á næstunni.

Ekki það að ég sé eða hafi verið í neinni megrun, en hef samt reynt að vera ekki að sukka um of í mat.

Fékk a.m.k. að vita um daginn að ég hefði "tabt dig vildt meget, du er nærmest blevet mager..." - held nú samt að það sé orðum aukið.

Þar sem við E. erum engu nær því að fara að byrja að æfa í æfingaaðstöðunni í ITU var ég alvarlega að velta því fyrir mér að skrá mig kannski í S.A.T.S líkamsræktarstöðina sem er hérna ekki svo langt frá - og jafnvel með einkaþjálfara. Þetta er hins vegar ógisslega dýrt, og virðist ekkert verið að reyna að höfða til þeirra sem hafa áhuga á t.d. 3ja mánaða áskrift.

Og þessir einkaþjálfarar taka næstum því sama tímakaup og ég hef tekið fyrir að sitja á rassinum og forrita - hneyksli!

Og aftur að ukuleleinu

Ég veit ekki alveg hvers vegna ég set það upp sem andstæður að koma sér í form og læra á ukulele - en ég geri það samt einhvern vegin ómeðvitað.

Ég hef löngum verið hrifinn af ukulele (lítill havaískur gítar fyrir þá sem ekki kveikja) og fundið það krúttlegt hljóðfæri.

Mér hefur aldrei tekist að læra gítargrip af neinu viti (nema E-moll eins og frægt er orðið) en ég held að það hljóti að vera miklu auðveldara að læra svona á 4 strengi heldur en 6 (a.m.k. 33% léttara).

Þetta rifjaðist svo upp fyrir mér fyrr á árinu við að lesa þessa færslu Dan Cederholm: Reasons I've Purchased a Ukulele og aftur í dag þegar ég las The Only Song You'll Need to Learn on the Ukulele (með tóndæmi).

Hann bendir t.d. á Ukulele Lesson (skrifað á krúttlegri jap-ensku) og þetta lagasafn Ukulele Boogaloo.

Ég sé fyrir mér í hillingum partíhyllina sem ég myndi njóta ef ég kynni t.d. að spila "Hjálpaðu mér upp" á ukulele. (Og þó ekki væri nema Somewhere over the rainbow eða aðra standarda).

Ég held þó ekki að metnaður minn myndi standa til að ná alveg þessum tilþrifum: While My Guitar/Ukulele Gently Weeps (vídeó).

En það væri gaman að prófa. Veit samt ekki hvað nágrönnum mínum myndi þykja um það ef ég tæki upp á því að æfa mig á rammfalskt ukulele alla daga (ég efast um að ég hafi nægt tóneyra til að heyra þegar það afstillist) (sem mér skilst að gerist reglulega).

Í versta falli gæti slíkur gripur orðið skemmtilegur spjallvaki, hangandi uppi á vegg einhversstaðar.

Viðbót: Grúskaði aðeins meira í boogaloo safninu og rakst á nokkur snilldarlög. Það væri auðvitað schwalt að kunna The Mercy Seat, en toppurinn held ég þó að væri Anarchy in the UK á ukulele.

Heimsnúinn

Ég er annars búinn að vera að þvælast uppi á meginlandinu í dag eftir að ég kláraði þvottana fyrr í dag. Þvældist um austurenda Striksins til að komast að því að engin þeirra verslana sem selur Hummel jakka er með neitt úrval í minni stærð.

Geispaði reyndar svo ógurlega framan af þessum leiðangri mínum að ég hafði af því alvarlegar áhyggjur að gleypa kannski óvart einhvern lágvaxinn afgreiðslumann sem yrði á vegi mínum án þess að taka eftir því.

Spókaði mig svo aðeins í Kongens Have áður en ég seig heim á við.

Engin plön fyrir kvöldið, en það skýtur vonandi eitthvað upp kollinum.


< Fyrri færsla:
Bjór í sól er skemmtan góð
Næsta færsla: >
Að gefnu tilefni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry