Rassblautur á kórtónleikum

Á laugardagskvöldinu endaði með því að ég mælti mér móts Sigga (fjölmiðlarýni) á bódegunni Verkstædet á Amager Fælledvej undir því yfirskini að sötra þar öl og spila púl.

Þetta er í þriðja sinn sem ég fer á þessa merku búllu og hún olli ekki vonbrigðum frekar en fyrr. Ágætis úrval af bjór á sanngjörnu verði (stórt fat á 25 krónur, 30 krónur fyrir stóran Kilkenny af krana), fjölbreyttur kúnnahópur og það sem merkilegast er; ágætis loftræsting!

Meðan það var ekki beinlínis reykt við borðið okkar (sem gerðist þegar aðeins fór að þrengjast um) varð maður varla var við sígarettureyk - og á danskri bódegu þykir það tíðindum sæta.

Það varð hins vegar lítið um púlspilun og ég verð að taka það alfarið á mig fyrir að hafa ekki verið duglegri að taka af skarið.

En í staðinn höfum við afsökun fyrir að kíkja aftur síðar.

Þegar við sáum fram á að púlbiðröðin væri orðin of löng fyrir okkar smekk bauð ég Sigga heim í smá næturhúfu; einmöltung úr fríhöfninni og síðustu flísarnar af dökka páskaegginu mínu.

Það þykir saga til næsta bæjar að ég skuli vera farinn að drekka viskí og enskir veðmangarar eru farnir að taka á móti veðmálum um hvort næsta skrefið verði jafnvel að ég fari að drekka kaffi eins og fullorðið fólk.

Ég kynnti Sigga líka fyrir visku Ask a Ninja, sem er eina video-podcastið sem ég er áskrifandi að. Launfyndinn húmor um heim launmorðingjanna, vel þess virði að kíkja á nokkrar klippur.

Sunnudagur

Þótt ég hafi ekki sparkað Sigurði af sérlega seint af heimili mínu dróst það aðeins að ég legðist undir sæng og fyrir vikið vaknaði ég ekkert sérlega snemma á sólríkum sunnudegi.

Kórinn hennar Hönnu Birnu, Staka, var að halda tónleika úti á Holmen klukkan 3. Mér tókst að leggja allt of seint af stað og uppgötva þegar ég var lagður af stað að ég hefði gleymt veskinu mínu og þurfti að snúa við.

Í ofanálag fór ég ekki rétta leið og tók því nokkrar aukamínútur í að þvælast um Holmen. Þegar ég kom svo á staðinn tíu mínútur yfir þrjú vonaðist ég til að geta laumast lítt séður í salinn, en sú varð ekki raunin.

Þegar ég steig af hjólinu varð ég áþreifanlega var við að ég myndi rassblautur vera. Ég hef þá kenningu að það sé einhver raki í sætisbólstruninni eftir rigningar vorsins sem síðan pressist út þegar ég sit á hnakknum í einhvern tíma. A.m.k. var ég nokkur votur um bakhlutann og vel meðvitaður um að það sæist líklega vel á ljósu bómullarbuxunum sem ég var í.

Þegar ég rak nefið inn um gættina kom í ljós að þar stóð kórinn og beið eftir að gera sitt formlega antré, þannig að ég laumaðist gegnum svipugöng kórmeðlima, kinkaði kolli til Hönnu Birnu og vonaði að það væru ekkert allt of margir að horfa á eftir mér upp tröppurnar á efri hæðina þar sem tónleikarnir fóru fram.

Ég settist þar við hliðina á Jesper og Sif litlu, sem stóð sig eins og hetja fyrsta hálftímann eða svo - en pabbi hennar tók hana svo niður á neðri hæðina þegar honum þótti hún tekin að eiga erfitt með að sitja kyrr.

Þema tónleikanna var "Kærligheden i Foråret" og sungin voru margvísleg lög, að stærstum hluta á íslensku, bæði gömul og ný.

Það er eitthvað við Vísur Vatnsenda-Rósu sem alltaf höfðar til mín og það var eina lagið sem ég mæmaði með.

Þetta var annars prýðisskemmtun og Kaupmannahafnarbúar geta gert margt heimskulegra þann 31. maí næstkomandi en að kíkja í Købenavns Bymuseum á Vesterbrogade 59 klukkan 19:00 þegar kórinn treður næst upp.

Hökt um hólminn

Hanna Birna var svo á leið í flug til Þýskalands fljótlega eftir tónleikana, þannig að við ákváðum að athuga hvort við fyndum ekki stað í nágrenninu þar sem hægt væri að fá sér aðeins í gogginn áður en Jesper skutlaði henni á völlinn.

Það kom í ljós að bílaumferð um Holmen er vandkvæðum háð og stáldrjóli einn ógurlegur kemur í veg fyrir hringsól. Þegar hins vegar strætisvagn eða bíll heimamanns nálgast sígur hann niður í jörðina með jeimsbondískum hætti. (Drjólinn, ekki strætisvagninn).

Við ákváðum því að kíkja hvort ekki væri opið kaffihús í óperunni - svo reyndist ekki vera og þeim leist illa á að vera með Sif á bryggju/báts-kránni þar sem kórinn átti pantað borð til hygge og tapasáts. Það varð því úr að ég kvaddi familíuna sem leitaði fæðu nær Kastrup.

Sjálfur sat ég eftir á bryggjubarnum og fékk mér einn kaldan, enda heitt í veðri og þorstaaukandi að hjóla svona langar leiðir.

Sunnudagskvöldið varð svo óeftirminnilegt með slíkum afbrigðum að ég held ég sé þegar búinn að gleyma því með öllu.


< Fyrri færsla:
Meira af tónlistarplöggi
Næsta færsla: >
Kubbandi sér vinsældir
 


Athugasemdir (4)

1.

hildigunnur reit 10. maí 2006:

hei, þau sungu amk eitt af mínum? Féll það í kram? ;-)

2.

Þórarinn sjálfur reit 10. maí 2006:

A.m.k. tvö af þínum ef mig misminnir ekki...

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég kom það seint að ég náði mér ekki í efnisskrá fyrr en eftir á og get því lítt kommenterað á einstök númer. En get þó fullyrt að prógrammið allt féll vel í viðstödd kröm.

3.

jonheidar.blogspot.com reit 10. maí 2006:

"A.m.k. var ég nokkur votur um bakhlutann og vel meðvitaður um að það sæist líklega vel á ljósu bómullarbuxunum sem ég var í."

Ja hérna hér ...

4.

Þórarinn sjálfur reit 11. maí 2006:

Ég stóla á að innan fárra daga verði þessi færsla efst á blaði við Google leit að orðinu "rassblautur".

Og það er nú eitthvað til að vera stoltur af.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry