Áhrifamáttur hlaupandi sólar
09. maí 2006 | 0 aths.
Danskir veðurspekingar hafa reynst sannspáir með blíðu undanfarinna daga. Við skötuhjúin erum að komast vel á skrið aftur með verkefnaskrifin, en ekki laust við að sólin hafi eilítil áhrif þar á.
Í hádeginu í gær ákváðum við að tylla okkur út og borða matinn í sólinni. Það varð að tveggja tíma hléi með slúðri við gesti og gangandi.
Í dag sýndum við smá skynsemi, borðuðum inni og tókum svo ávexti og spjall úti í sólinni. Fyrir vikið varð það ekki nema hefðbundið rétt rúmlega klukkutíma hlé.
Við höfum líka sannreynt með vísindalegum mælingum að sólin byrjar að skína á glugga skrifstofunnar okkar rúmlega þrjú og um klukkan fjögur er orðið vel heitt á svona björtum dögum. Við höfum rætt það í alvöru að byrja aðeins fyrr á morgnana - það byði líka upp á að geta hætt með góðri samvisku aðeins fyrr og ná góðum eftirmiðdögum.
Eftirmiðdagi gærdagsins var annars varið við útihlaup. Ég dró meira að segja fram stuttbuxur í fyrsta sinn í vor, en til að misbjóða nú engum hljóp ég í langerma bol. Gekkk vel, stytti reyndar hringinn örlítið en tók í staðinn vel röskan endasprett sem skaut púlsmælinum hátt í fjögurra stafa tölu.
Við hittum svo leiðbeinandann okkar núna fyrir hádegið og hann var bara sprækur. Leist ágætlega á það sem við vorum komin með og ætlar að fara að athuga hvenær við komumst í alvöru eye-tracking aðstöðu. Ég er líka orðinn bjartsýnni á forritunarhlutann sem senn fer í hönd - hef trú á því að það verði yfirstíganlegt.
Í dag var svo auglýstur fyrirlestur í sal skólans um "Corporate weblogs" - sem er fyrirbæri sem ég á afskaplega erfitt með að sjá ganga upp. Í mínum huga eru það einu skiptin sem fyrirtæki koma nálægt bloggum þegar einhver fer á taugum yfir því sem starfsmaður kann að hafa skrifað í sitt prívatblogg.
"Flugfélög geta líka bloggað" þykir mér svo dæmi sé tekið óttalegt klúður. Ég get ekki séð að það sé neinn munur á þessu og bara fréttalista, nema kannski að textaskrifarinn er að reyna að setja sig í stellingar og vera svolítið kúl.
Hins vegar sé ég alveg að lítt formleg skrif geti nýst í innri upplýsingamiðlun, t.d. í sérfræðingaumhverfi, en það gerir kröfur til ákveðins vinnustaðaranda sem ég held að fæst stórfyrirtæki geti staðið undir.
En mér þótti sem sé viðeigandi að ég sem yfirlýstur vefbeturviti nýtti tækifærið og kíkti á það út á hvað dæmið gengi. Fyrirlesturinn var milli 17 og 19 og ég skaust heim í millitíðinni til að ná að kaupa mér mjólk og ávexti.
Þegar ég hins vegar kom út í sólina sá ég að ég nennti fjandakornið ekki að fara að setjast inn aftur. Þess í stað skellti ég mér í stuttbuxurnar og setti upp sólgleraugun. Ég fór í smá hjólreiðatúr upp í Nyhavn og rölti þar um og skoðaði mannlífið áður en ég dólaði mér til baka og tók nokkrar myndir hérna á Amagrinum.
Afraksturinn er kominn í myndasafnið. (Ég geri ráð fyrir að bæta fleiri myndum í þetta albúm á næstunni.)
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry