Færsla númer 700

Þessi færsla er samkvæmt gagnagrunninum mínum sjöhundraðasta færslan sem færð hefur verið til minnar stafrænu dagbókar. Það er slatti af færslum.

Eitt skot nokkurnvegin út í bláinn er að ef það tekur 3 mínútur að lesa meðalfærsluna tæki það 35 klukkustundir að lesa í gegnum alla dagbókina. Það er af stæðargráðunni vinnuvika.

Ég ætla ekki einusinni að reyna að skjóta á hvað það hefur tekið mig langan tíma að skrifa þetta allt saman, en þar erum við eflaust að tala um stærðargráðuna vinnumánuði.

Til gamans fletti ég upp í gagnagrunninum á þeim færslum sem fyllt hafa hundruðin ásamt stuttum tilvitnunum í hverja þeirra:

Færsla nr. 100

28. maí 2004: Brotið blað

Í dag sagði ég upp starfinu mínu.

[...]

Það kómíska er að nú er ég að vissu leyti á svipuðum slóðum og eftir Kvennó, á leið í mastersnám í upplýsingatækni. Aðalmunurinn er auðvitað sá að nú hef ég unnið við fagið í nokkur ár og þekki mína styrkleika og veikleika, auk þess sem ég þykist vita hverju ég hef áhuga á innan fagsins og hverju ekki. (Og búinn að senda umsókn.)

Nú er því brotið blað í minni tilveru og það verður spennandi að sjá hvað fylgir í kjölfarið.

Færsla nr. 200

4. október 2004: Frumsýning gekk vel - skilst mér

Ég hef um helgina fengið nokkra tölvupósta með hamingjuóskum vegna frumsýningarinnar á "Á uppleið". Reyndar hafa tölvupóstarnir eingöngu verið frá innvígðum Hugleikurum (sem eru langt frá því hlutlausir). Því er hér með lýst eftir viðbrögðum fleiri lesenda sem skelltu sér í Kaffileikhúsið um helgina.

[...]

Hugmyndin með einþáttunginum var aðallega að setja upp kómíska atburðarás og reyna að koma áhorfendum á óvart með framvindunni. Tókst það?

Færsla nr. 300

18. janúar 2005: Nokkur Firefox trix

Það þarf víst ekki að segja neinum frá því að Firefox 1.0 vafrinn sé sniðug græja og fyllsta ástæða til að taka hann í notkun í stað Internet Explorer. Ég er búinn að vera að taka aðeins til í Eldrefnum mínum og komst að ýmsu nýju, þannig að hér er samantekt nokkurra áhugaverðra ábendinga um Firefox - sumt gamalt og annað nýtt.

Færsla nr. 400

28. apríl 2005: Still standing...

Þá er klukkan að mjakast í miðnætti. Vöðvabólguhnúturinn milli herðarblaðanna að færast yfir á hættustig, þjófavarnarkerfið búið að fara fjórum sinnum í gang það sem af er kvöldi og prentarar hússins skiptast á um að gefa upp öndina. Lauslega ágiskað eru um hundrað manns dreifðir um bygginguna að strita við að klára það sem klárað verður.

Ég er búinn að prenta út skilin fyrir tvo áfanga og við sitjum hópurinn að fínpússa skýrsluna fyrir þann þriðja. Mér sýnist afköstin í yfirlestrinum vera um 3 bls. á klukkustund, þannig að við erum að verða komin á síðu 25 (af 30).

Færsla nr. 500

16. september 2005: Þegar Vilborg birtist á forsíðu

Það að mynd af Vilborgu birtist á forsíðu thorarinn.com þýðir aðeins eitt; það eru komnar nýjar myndir í myndasafnið.

[...]

Mér skilst á karli föður hennar að hann fái að heyra það ef of langt líður á milli myndbirtinga - þannig að ég reyni að vera röskur að skella upp þeim myndum sem ég fæ.

Færsla nr. 600

19. janúar 2006: Tíningur sparða

Þá er síðasta prófið á dagskrá í fyrramálið; munnlegt próf úr 16 vikna verkefninu mínu. Ég er nokkuð bjartsýnn á að lifa það próf af án teljandi hremminga.

[...]

Undanfarið hefur enginn séð ástæðu til að kommenta á neitt sem ég segi hér. Ég er hins vegar ekki svo sjálfhverfur að ég taki neitt eftir því.

Og þar með lýkur 700. færslunni.


< Fyrri færsla:
Strengir eru strengdir
Næsta færsla: >
Í hringiðu atburða
 


Athugasemdir (1)

1.

hildigunnur reit 15. maí 2006:

á ársbloggafmælinu mínu las ég í gegn um allt bloggið. Það tók langan tíma. Lagði ekki í það á tveggjárafmælinu, hvað þá að það komi til greina núna í júlí þegar bloggið verður þriggja ára. Enda færslurnar orðnar yfir 2000. Sumar ansi stuttar, samt...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry