Strengir eru strengdir

Ég vissi ekki hvaðan á mig lá veðrið þegar ég vaknaði á föstudagsmorgninum undirlagður af harðsperrum í þjóhnöppum og lærum. Greinilegt að þessir tveir tímar af Kubb hafa tekið meira á en maður gerði sér grein fyrir.

Eins og sést af myndunum af kubb-iðkuninni minnir kaststelling mín einna helst á skautahlaupara á ólympíuleikunum og þeir vöðvar sem beitt er í þessu bogri virðast hafa verið vaktir upp af værri hvíld og skyndilega látnir púla.

Þar sem ég er alltaf verstur af harðsperrum á öðrum degi hefur það ræst sem mig grunti að í dag, laugardag, hef ég verið litlu skárri. Helst að strengirnir séu farnir að síga úr rassinum og niður í lærin.

Siggi bar sig betur í gær, en sagðist þó finna fyrir smá þreytu eftir að ég minntist á kvalir mínar. Annað hvort er hann í betri þjóhnappaæfingu eða það hefur áhrif að hann þarf að beygja sig styttra - enda við í sitthvorum lengdarflokknum.

Kubb er sko klárlega enginn leikur.

Unnið á bænadegi

Föstudagurinn var frídagur hér í Danmörkinni; stóri bænadagurinn. Mér skilst að í honum hafi verið slegið saman vorfrídögum ólíkra trúarbragða í einn sameiginlegan. Voða sniðugt, þó mér finnist einhvern vegin meira sænskur en danskur huxunarháttur liggja í þessari pælingu. En það eru líklega bara fordómar í mér.

Við námsmenn mættum samt ótrauð til starfa. Mér þótti þó skrýtið að koma að skólanum í helgarham, þ.e. þannig að maður þurfti að beita stúdentakortinu á næstum allar dyr á leiðinni á kontórinn.

Í samræmi við þann dugnað og sjálfsaga sem hefur einkennt starf okkar undanfarið féllumst við á taka þátt í smá prófun.

Vinir okkar eru að vinna verkefni sem felst í því að hanna borð fyrir skotleikinn Unreal Tournament. Við tókum því þátt í hjaðningavígum í hátt í klukkutíma; fyrst fjórir utanaðkomandi gegn borðhönnuðunum (sem flengdu okkur) og svo skiptum við upp í liðunum þannig að það vor tveir heimamenn í hvoru liði. Þeim leik lauk 0-0.

Við fórum svo yfir á Íslandsbryggju í leit að hádegismat. Samlokustaðurinn sem E. vildi endilega draga mig á skartaði gríðarlangri biðröð sem hafði bara lengst eftir að við tókum smá rölt um hverfið. Enduðum því á pisseríu og pöntuðum okkur pítur. Þar reyndist þó vera ósýnileg röð, því eini starfsmaðurinn var laaangt á eftir í pantanalistanum. Allt hafðist þetta að lokum.

Eftir hádegishléið tókum við svo smá skorpu í hönnunarpælingum og huxanlegum nýtingarmöguleikum áður en við tókum helgarfrí um fjögurleytið.

Afmælisgrill

Mér var boðið í afmælisgrill Rutar í Örestedsparken og hjólaði þangað uppeftir. Þegar ég var kominn uppeftir og tók eftir því að Nörreport stöðin er ekki nema hálft steinsnar frá innganginum í garðinn áttaði ég mig á því að mér hafði ekki dottið neitt annað í hug en að hjóla uppeftir - venjulega hefði ég örugglega tekið metróinn.

Það virðist því greinilega komið sumarskap í hjólavöðvana mína (þótt rassvöðvarnir séu í augnablikinu eins og þeir eru).

Þetta reyndist prýðilegasta veisla og eru myndir frá henni komnar í safnalbúm vorsins. (Þar sem uppáhaldsmyndin mín er líklega myndin af Tóta með mafíósasvipinn tottandi á einnri feitri).

Þarna var stór hópur af gestum og gangandi - þar sem ég kannaðist við milli þriðjung og fjórðung. Stebbi stóð við grillið og grillaði hvern hestsburðinn af SS pylsum eftir öðrum.

Það var mikil stemmning í því að fá íslenskar pylsur með öllu tilheyrandi og þær runnu ljúflega ofan í mannskapinn. Sumir átu sér nærri til óbóta og ég var í þeim hópi.

Annars er sagan af því hvernig pylsusendingin barst Rut og Stebba og hvað fylgdi með henni skemmtileg lesning.

Svo var bara setið í sólinni og kjaftað (milli þess sem hópurinn mjakaði sér smám saman undan skugga trjánna). Umræðuefnin voru allt frá barnauppeldi til íslensks körfubolta til kosta og galla þess að vera drukkinn 22 daga í einum mánuði.

Eins og spakur maður sagði: "Það er ekki tekið út með sitjandi lifrinni að vera námsmaður í Danmörku."

Og svo videre

Þegar skyggja tók fór hópurinn sem eftir var að huga sér til hreyfings (barnafólk flest farið heim). Þær systur Júlía og Inga Rún voru á leið á opnun nýs kaffihúss/bars og flestir tóku stefnuna þangað. Ég ákvað hins vegar að hjóla fyrst heim (meðan ég væri enn fær um slíkt) og skipta yfir í kvöldlegri klæðnað auk þess sem ég ætlaði að kíkja aðeins á fredagsbarinn á ITU.

Þar var hljómsveit að spila frá klukkan níu (Blå Blink) og ég hlustaði á þau yfir nokkrum eðalbjórum. Siggi kom líka á barinn og við urðum sammála um að þótt þetta væri ágætis popp-rokk hjá bandinu væri það ólíklegt til að valda teljandi straumhvörfum í lífum okkar.

Eftir SMS sendingar ákvað ég frekar en að elta liðið á baropnunina að draga Sigga með mér upp á Nörrebro Bryghus þar sem við hittum Steinunni, Elínu og Ilmi.

Það var löngu kominn tími á að ég kíkti á þann merka stað og bjórinn olli ekki vonbrigðum.

Um hálfeittleytið var svo skrúfað það hressilega upp í tónlistinni að varla heyrðist mælt mál - greinilega verið að hvetja menn til að herða sig í drykkjunni eða hypja sig ella. Það gerðum við líka skömmu síðar (þ.e. hypja okkur).

Elín dró okkur á kokteilbar á leiðinni að Nörreporti, ég man ekki nafnið á honum í augnablikinu en það var eitthvað í líkingu við Caribbean-eitthvað. Þar fékk ég mér Cosmopolitan tileinkaðan Carrie og vinkonum (minn reyndar frosinn).

Þegar fór að grynnka í heimsborgaranum helltist þreyta dagsins yfir mig (ekki síst þar sem það var ógurlega heitt þarna inni) og við Amagerbúar sammæltumst um að fara að rölta í metróinn. Næturloftið hressti töluvert og ég var kominn heim einhvern tíman milli tvö og þrjú, fékk mér smá snarl og skreið svo undir sæng.

Í dag hef ég verið prýðishress, enda svaf ég nokkurn vegin fullan svefn, en kannski svolítið latur - en það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist á laugardegi.

Nú fara í hönd veðurfarslegir námsmannadagar, þ.e. það dregur úr sólarbruðlinu og í dag tíndust meira að segja nokkrir dropar úr lopti. Slíkt veður er sérlega hagstætt námsmönnum sem hafa átt bágt undanfarna sólskinsdaga.

Ég fór bara í stefnulitla göngu um norðurenda Amagerbrogade og endaði í Kvickly þar sem fjölmennið og spanið kynti undir þreytuhöfuðverk - þannig að ég var frekar fljótur að forða mér út.

Dagskrá kvöldins óljós, en ég geri fyllilega ráð fyrir rólegheitum heimavið.


< Fyrri færsla:
Kubbað í kvartbuxum
Næsta færsla: >
Færsla númer 700
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry