Sitthvað smálegt skjalfest

Samkvæmt heimildum BT (og heimildir gerast nú ekki mikið áreiðanlegri) er stóri bænadagurinn ekki tilkominn sem sameiningardagur ólíkra trúarbragða, heldur trúarlegur frídagur sem var lögleiddur 1686 og var settur á fjórða föstudag eftir páska. Þannig gat Christian fimmti náð að djamma biðjast fyrir í Køben, áður en hann lagðist í rúntinn milli sumarhalla og athvarfa.

Mér líður raun mun betur vitandi að fordómar mínir um fórdóma Dana hafa ekki orðið fyrir teljandi hnekki.

Hlaupt í gær

Ég er vanur að skrá til bókar útihlaup mín, þó ekki sé nema til þess að láta líta út fyrir að ég sé voða aktívur. Einn slíkur rúntur var tekinn í gær eftir að hafa verið á leiðinni út allan daginn.

Hér er komið, og verður út vikuna, námsmannaveður (sem þýðir að hér er íslenskt sumarveður; 10-15 stig og köflótt sól). Ég hljóp því í síðbuxum og stuttermabolurinn var í það skjólminnsta þegar ég var að leggja af stað í þónokkrum strekkingi. Fimm kílómetra hringinn tók ég á ca. 26 mínútum og er bara nokkuð sáttur við.

Eitt aðalmarkmiðið var auðvitað að verka úr mér síðustu kubbsperrurnar og það held ég að hafi tekist þokkalega.

Árekstur

Ég er töluvert á eftir í neyslu kvikmynda og var því fyrst að sjá Crash í gærkvöldi. Ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhver lesandi hafi ekki séð hana fær hún hér með mín meðmæli.

Stór hópur gæðaleikara í frásögn af hópi fólks hvurs tilverur fléttast saman á tveimur sólarhringum í LA. Gegnumgangandi þema er svarthvítni borgarinnar, þ.e. undirliggjandi spenna milli svartra og hvítra (blandað með persum sem skilja ekkert í því hvernig hægt er að ruglast á þeim og aröbum, og asíubúum sem aldrei kemur nákvæmlega í ljós hvaðan eru ættaðir). Annað meginþema er kannski að það er ekki sama um að tala og í að komast.

Fléttan stendur sig vel í að koma manni á óvart og tekst að byggja upp töluverða spennu, því maður veit að eitthvað vont á eftir að koma fyrir, en á erfitt með að átta sig á því nákvæmlega hvað eða fyrir hvern.

Crash: Hellingur af stjörnum.

Og forsetinn sem ekki varð

Hér er svo bráðskemmtilegt myndbrot með Al Gore úr Saturday Night Live. Hann gerir grín að því hvað hefði getað orðið ef hann hefði unnið en ekki Bush. (via Kottke)

Þótt þetta sé óttalegt bull allt saman er ekki laust við að maður huxi hvað hefði orðið ef meirihluti Bandaríkjamanna hefði fengið að ráða og ídjótinn hefði þannig ekki komist til valda.

Alltaf gaman að láta sig dreyma...

Eitthvað var fleira sem mér hafði dottið í hug að ég þyrfti að færa til bókar - búinn að steingleyma hvað það var.


< Fyrri færsla:
Í hringiðu atburða
Næsta færsla: >
Skokkað með Johnny
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry