Sleggjudæmt um júró

Þegar ég kom heim frá því að hitta doktor Sjöfn og hygge mig í miðbænum var undankeppni júró nýlega byrjuð. Eftir að hafa horft á fyrstu lögin stóðst ég ekki mátið að grípa tölvuna og hripa niður nokkra sleggjudóma.

Öfugt við meistara Hauksson hef ég ekki hundsvit á tónlistinni, söngnum eða lögunum en ákvað þess í stað að horfa eftir því hversu vel klæðnaður og fas uppfyllir hin óskráðu júrólögmál:

Á sviðinu skulu vera sem flest eftirtalinna atriða:

  • Flegnir kjólar
  • Gjarnan greinileg brjóstaskora
  • Snarstuttir kjólar og/eða pils klofin upp að eyrum
  • Karlmenn sem berastir að ofan
  • Reynt að höfða til sem flestra kynja og kynhneigða með vali á flytjendum og dönsurum

Og hefjast þá sleggjudómarnir á níunda lagi:

9. Kýpur

Voða fín skora. Ein af bakraddasöngkonunum hefur fengið eitthvað í augað.

10. Mónakó

Holdið sýnt á fullu, bakraddasöngkonurnar í havaígöllum. Strákarnir berir að ofan. Eitthvað fyrir alla. Skora auk þess að pilsið hefur alveg gleymst öðru megin.

11. Makedónia

Kappklæddur karldansari. Skora og snípstuttar buxur til staðar á söngkonunni.

12. Pólland

Hafa veðjað á ránsferð í búningageymslu pólska þjóðleikhússins og mann með grænt hár frekar en klæðaleysið. Söngkonan með hneppt upp í háls í einhverjum viktoríustæltum búningum. Greinilega einhver fengið bakþanka og látið bakraddirnar vera í örlítið flegnu - þó varla merkjanlega. Þegar græna hárið fletti aðalsöngkonuna klæðum reyndist hún vera í heilgalla undir.

13. Rússland

Stólað á að höfða til unglingsstelpnanna með gaur í rifnum gallabuxum og hlírabol (og sítt að aftan). Mannlausi flygillinn skemmtilegur í bakgrunni. Bakraddasöngkonurnar kappklæddar en hvítu ballerínurnar í klassískum svanavatnsbúningum.

Tæknibrella ársins! Líkhvít dansmey kemur upp úr mannlausa flyglinum og virðist vera að éta rósablöð.

14. Tyrkland

Karldansarnir virðast eiga að höfða bæði til stelpnanna og hommanna í svörtu hlírabolunum sínum. Þeir virðast ekki hafa getað komið sér saman um hver ætti að vera óþekki strákurinn og eru allir í þeim sama karakter. Eiga örugglega eftir að slást innbyrðis fyrir lokakvöldið ef þeir komast áfram. Skora, tattú og pallíettupils á söngkonunni sem virðist þeirrar skoðunar að hún sé superstar. Get ekki alveg áttað mig á því hvort hún er í hnésokkum eða hefur lent í vaxslysi.

15. Úkraína

Skorur á línuna, nema kannski hjá karldönsurunum tveimur, þeir eru samt í pínu flegnum bolum. Búningasaumurum hefur gengið illa að loka handarkrikasaumunum á jökkum bakraddadansaranna. Allir eru voða góðir vinir og fara í snúsnú áður en þeir hlaupa baksviðs og ná í tambúrínurnar sem þeir virðast hafa gleymt að taka með inn. Ógurlegustu gellustígvél kvöldins á aðalsöngkonunni (sem syngur nákvæmlega eins og Rússlana um árið).

16. Finnland

Antiklæmax að aðalskrímslið skuli vera með túristalegan finnlandshatt á hausnum. Engar sýnilegar skorur en skemmtilega hallærislegir leðurblökuvængir. Flugeldafrussurnar á hljóðfærunum soldið smart.

Innslag

Kynnarnir baksviðs. Hún með glæsilega skoru í rétt rúmlega skósíðum kjól og hann með hneppt frá niður að hné. Þau hafa nákvæmlega ekkert gáfulegt að segja. Eins og vera ber. Keppendurnir sem fá að segja eitthvað í mækinn eru samt enn tómlegri - brill.

17. Holland

Virðist hafa eitthvað gleymst skoran á einni söngkonunni, kannski ekki innistæða fyrir meiru. Á sviðinu eru 3,14 bongótrommur fyrir þeirra hverja - hálfgert svindl að ein fái líka að spila á gítar, en það fær hún kannski í sárabætur fyrir að vera ekki með skoru og þurfa að vera í eina síða pilsinu. Mér finnst lítið tillit tekið til júróhomma til sjávar og sveita (og auðvitað kvenkyns áhorfenda).

18. Litáen

Sex karlmenn í svörtum jakkafötum sem standa kyrrir. Ekki merkjanlega fyndið, öllu frekar sársaukafullt. Engar skorur og ekki einu sinni hneppt frá meira en einni tölu.

19. Portúgal

Get ekki alveg skilgreint þessa búninga; ballerínutoppar, með hálfum (fjaðra-) pilsum. Þess vandlega gætt að ekkert skyggi á mjaðmabeinin annað en sokkabuxurnar. Soldið flegið, en samt varla merkjanlegar skorur. Ekkert pláss fyrir stráka á sviðinu. Get svo svarið það að ein þeirra er í háhæluðum kuldaskóm. Nei, þær eru tvær. Greinilega ekki í tízku í Portó að vera of kalt þó maður sé í háhælum.

20. Svíþjóð

Slör dauðans. Henni hefur tekist að smygla vindvélinni með sér frá Svíþjóð. Líklega þá í handfarangri. Klikkar algerlega á skorunni og er í síðbuxum (að vísu silfurlitum). Hver er tilgangurinn með að sveifla gegnsæum fánum? Fánarútínan okkar í rússneska sirkusnum hérna um árið var mun flottari. Caró er með glimmertattúverað á upphandleggnum RX táknið sem sést framan á prédikunarstólum (Rex Kristus ef mig misminnir ekki). Ætli það eigi til að höfða til kristinna áhorfenda?

21. Eistland

Hafa fengið lánaða gamla Abba búninga og skellt þeim í ljósritunarvélina. Get svo svarið það að ein bakraddasöngkonan er í hvítum hjólabuxum niðrundir hné. Varla mekjanlegar skorur og eini karlinn kappklæddur. Aðalsöngkonan fær verðlaun fyrir hvítu stígvélin sem ná langleiðina upp á bringu. Hæstu stígvél kvöldins enn sem komið er.

22. Bosnía Herzegóvína

Nú er það svart, allt orðið hvítt. Sumarlegt og fínt, en að frátöldu læri sem gægist út undan síðu pilsi hefur nektin alveg gleymst. Gellan með lærið (og raunar tvö slík) reynist með skoru þegar hún stendur upp. Prik fyrir það.

23. Ísland

Dönsku kynnarnir spá í það hvort Íslendingar verði búnir að klára að kaupa upp afganginn af Köben áður en þeir koma heim.

Netasokkabuxurnar fá óneitanlega prik en skortir kannski upp á skoruna svona í upphafi. Klæðasviptingin skorar aukastig í bæði nekt-söngkonu og hommatilhöfðunar kategoríunum. Hef annars ekki um þetta framlag fleiri orð.

Innslag

Kynnarnir virðast búnir að skipta um föt, en skora nákvæmlega sömu stig og áður í skoru og niðurhneppingaflokkum. Hún þó í styttri kjól í þetta skiptið. Gervileðurjakkafötin hans falla utan við mælanlega skala.

Sé í upprifun að Slóvenía virðist í sérflokki í skorunum og þjóð númer 4 fær sérstaka viðurkenningu fyrir hóruhús-í-villta-vestrinu þemað.


< Fyrri færsla:
Skokkað með Johnny
Næsta færsla: >
Aftur og nýkominn
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 19. maí 2006:

"Snípstuttar buxur"! Stig fyrir þetta nýyrði!

2.

Þórarinn sjálfur reit 19. maí 2006:

Ég verð því miður að játa að þetta er ekki alvöru nýyrði þar sem það hefur þegar verið gefið út á prenti í carmínugrein ónefndrar systur minnar.

En þetta er ekkert verra orð fyrir það.

Og umræddar buxur voru mjög stuttar!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry